Heilir og sælir Hugarar,
Ég tók saman niðurstöðurnar úr báðum skýrslunum. Fyrst er niðurstaða flugslysanefndar sem sérmerktar eru sem líklegir orsakaþættir* og síðan er gagnrýni bresku sérfræðinganna** á niðurstöður RNF:
————————————————- ———–
3.11 * Eldsneytis- og olíuskrá hafði ekki verið haldin samkvæmt reglum frá því að flugrekandinn tók flugvélina í notkun. Flugmaðurinn hafði því ekki tiltækar nákvæmar upplýsingar um raunverulega eyðslu flugvélarinnar miðað við flugtíma.
**Niðurstaða 3.11 Með því flugreksturinn á slysadegi náði til um 20 stuttra flugferða hefðu venjuleg gögn, sem mundu hafa varðað talsvert lengri flug, orðið til lítils gagns fyrir flugmanninn við að reikna út eldsneytið, er hann hefði yfir að ráða þegar hann hóf lokaflug sitt.
Raunar þurfti RNF að leita til sérfræðinga til að ákvarða hver eldsneytisnotknunin hefði verið við þessar óvenjulegu kringumstæður. Var það því ekki vegna þess að skýrslur höfðu ekki verið færðar að flugmaðurinn hafði ekki upplýsingarnar, það var vegna þess að þessar upplýsingar voru honum ekki auðveldlega aðgengilegar.
3.12 * Flugmaðurinn virðist ekki hafa gengið úr skugga um hvert eldsneytismagnið á tönkum flugvélarinnar var fyrir brottförina frá Vestmannaeyjum.
**Niðurstaða 3.12 Hvar er sönnun þess að flugmaðurinn gekk ekki úr skugga um
eldsneytismagnið í tönkum flugvélarinnar? Í grein 1.18.5 í skýrslunni er sagt að enginn starfsmanna í Vestmannaeyjum muni eftir að hafa séð flugmanninn mæla eldsneytið þegar flugvélin var þar. Sú staðreynd að enginn man eftir því að sjá hann athuga eldsneytið þýðir ekki að hann hafi ekki gert það, sérstaklega með tilliti til þess hversu mikið var að gera á flugvellinum þennan dag. Með tilliti til stuttra flugferða á þessum degi hefði athugun eldsneytis á Selfossi verið jafngild. Ekki er nein skýrsla um framburð starfsfólks á Selfossi varðandi þetta atriði.
3.13 * Flugmaðurinn virðist hafa vanmetið eldsneytiseyðslu flugvélarinnar og ofmetið eldsneytismagn í tönkum hennar fyrir brottförina frá Vestmannaeyjum, en þá hafði flugvélin mun minna flugþol en hann áætlaði.
**Niðurstaða 3.13 Þessi yfirlýsing gildir eingöngu ef flugvélin hefur raunverulega orðið eldsneytislaus frekar en að hún hafi orðið fyrir eldsneytisskorti vegna misbeitingar stjórnbúnaðar eldsneytiskerfis.
3.15 * Gangtruflanir og afltap hreyfilsins urðu líklegast vegna skorts á eldsneyti til hreyfilsins, vegna þess að eldsneyti á þeim tanki sem stillt var á gekk til þurrðar.
**Niðurstaða 3.15 Með því niðurstaða 3.13 gefur til kynna að flugvélin hafi orðið eldsneytislaus virðist þessi niðurstaða viðurkenna að eldsneyti hafi vel getað verið til staðar, en að það hafi ekki verið notað vegna rangs vals. Þetta er ekki í samræmi við niðurstöðu 3.13.
3.23 * Ljóst virðist að flugmaðurinn beindi ekki nefi flugvélarinnar tafarlaust niður til þess að halda eða ná upp flughraða til nauðlendingar á haffletinum eftir að hreyfillinn missti aflið.
———————————————– ————–
Lokaniðurstaða rannsóknar RNF er grein 3.23, og er frekar afdráttarlaus, þar sem orðavalið “Ljóst er…” Hún er ekki dregin í efa af bresku sérfræðingunum. Þar sem flugvélin var ekki búin flugritum og ákveðin atriði virðast ekki hafa verið fullransökuð verður endalaust hægt að karpa um hvað olli hreyfilstöðvuninni, enda er orðaval RNF alltaf “ Flugmaðurinn virðist ekki…” og þ.a.l. Mögulegt er að einhver önnur ástæða hafi ollið hreyfilstöðvuninni sem ekki er velt upp í skýrslunum. RNF gengur út frá því að bensínleysi hafi ollið því, bresku sérfræðingarnir halda því fram að mótorinn hafi jafnvel brætt úr sér og gagnrýna niðurstöðu RNF. Það er alveg eins hægt að gagnrýna kenningu bretanna og halda einhverju öðru fram varðandi hreyfilstöðvun. Endanleg niðurstaða er hinsvegar í grein 3.23. Hvað mig persónulega varðar tel ég að tölfræðilega séu sterkari líkur á því að vélin hafi orðið bensínlaus, þar sem mótorinn drap mjög snögglega á sér skv. vitnum.
Þau atriði sem eru gagnrýniverð er afhending hreyfilsins svo skömmu eftir slysið, en þar hafa eflaust átt sér stað mistök af hálfu RNF, sem leiða það af sér að ekki er hægt að fullrannsaka orsakir hreyfilstöðvunarinnar. Mér fyndist viðeigandi héreftir að mikilvægir hlutir í rannsókn alvarlegra flugslysa séu höndluð sem sönnunargögn og geymd þar til að lögreglurannsókn og niðurstöðu ríkissaksóknara/dómstóla er lokið.
Einnig er þetta “bókstafamál” furðulegt sem eflaust hefur verið rannsakað frekar af viðeigandi yfirvöldum (lögreglu).
Í þessu sorglega flugslysi létust 6 manns. Hvað mig varðar er ég búin að fá minn skammt af karpi um hluti sem í sjálfu sér skipta ekki meginmáli varðandi slysið, enda er orsökin augljóslega mistök flugmanns. Þessir 6 einstaklingar eiga aðstandendur sem eiga eðlilega um sárt að binda og votta ég þeim samúð mína.
Kveðja,
Otri