Komið þið sælir kæru Huga-pennar.
Ég finn mig knúinn til að tjá mig um þetta mál sem fer svona fyrir brjóstið á Íslenskum almenningi sem virðist eiga yfir höfði sér að setjast uppí flugvél á næstu árum með “algjörlega óheilbrigðan” flugmann bak við stýrin!
Hvaða rugl er það eiginlega??? Er fólk ekki búið að átta sig á um hvað málið snýst?
Þetta snýst alls ekkert um það hvort einhver sé að krefjast svokallaðs “afsláttar” af flugöryggi. Þetta er eingöngu setning sem illa upplýstir æsifréttamenn fjölmiðlanna hafa slegið fram til að ná athygli fólks. Nú finnst mér nóg komið!
Málið snýst um hvort aðilar hafi farið að lögum eður ei.
Ég er atvinnuflugmaður og er þeirrar hamingju aðnjótandi að vera heill heilsu og ætti því ekki að vera hættulegur almenningi meðan ég stjórna loftfari mínu.
Svo ekki verði um villst þá vil ég taka það fram að ég er ekki félagsmaður í FÍA og ekki tengdur málsaðilum á neinn hátt annan en að ég er bundinn því að vinna samkvæmt lögum um loftferðir og þ.m.t. reglugerð um skírteini.
Ég er mjög vel lesinn í reglugerð um skírteini nr. 419/1999, en það er einmitt sú reglugerð sem notuð er við útgáfu flugmannsskírteina og heilbrigðisvottorða á Íslandi og sú eina um þetta efni sem er í gildi.
Ég þarf að vera vel að mér í þessari reglugerð vegna starfs míns en ég hef orðið þess var að margir kollegar mínir eru ekki eins vel að sér í fræðunum og þykir mér það miður.
Árni G. Sigurðsson er greinilega einn af þeim, að því er virðist fáu, sem hafa lagt út í það “stórvirki” að lesa reglugerðina um skírteini. Hann virðist einnig hafa góðan skilning á innihaldi hennar og vera af því kyni manna sem áttar sig á því að hann á sinn rétt og veit að þegar á rétti hans er brotið þá getur hann kært og sótt sín mál fyrir dómstólum eða hjá yfirvöldum.
Ykkur sem um hans mál hafa fjallað hér á Hugi.is ætla ég, ykkur til upplýsinga, að skrifa smá úrdrátt úr reglugerð um skírteini útgefin af Flugmálastjórn Íslands. Á fyrstu síðu stendur m.a. eftirfarandi:
“Samgönguráðuneytið hefur ákveðið samkvæmt heimild í 145.gr., sbr. 31.,73. og 74. gr. Laga um loftferðir nr. 60/1998, að kröfur Flugöryggissamtaka Evrópu (JAA) um skírteini flugliða (JAR-FCL), skírteina flugmanna á flugvél (JAR-FCL 1) og heilbrigðiskröfur fyrir skírteini flugliða (JAR-FCL 3) skuli gilda við útgáfu skírteina Flugmálastjórnar Íslands frá 1. júlí 1999. Kröfur Flugöryggissamtaka Evrópu eru birtar sem hluti reglugerðar um skírteini útgefin af Flugmálastjórn Íslands.
Reglugerð um skírteini útgefin af Flugmálastjórn Íslands er gefin út samkvæmt heimild í 145. gr., sbr. 31., 73. og 74. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 og tekur gildi 1. júlí 1999. Brot á reglugerðinni varðar refsingu samkvæmt 141. gr. laga um loftferðir nr. 60/1978. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um skírteini gefin út af Flugmálastjórn nr. 344/1990 með síðari breytingum.”
Á síðustu síðu reglugerðarinnar stendur m.a. eftirfarandi og hefur innihaldið ávallt vakið áhuga minn:
“IV. Hluti. Gildistaka o.fl.
Undanþágur.
Samgönguráðuneytið getur veitt heimild til að víkja frá ákvæðum reglugerðar þessarar þegar sérstökum ástæðum er til að dreifa og flugöryggi er ekki stefnt í hættu að fenginni umsögn Flugmálastjórnar, enda sé reglna flugöryggissamtaka Evrópu (JAA) að fullu gætt.
Ágreiningur.
Ákvörðunum Flugmálastjórnar vegna reglugerðar þessarrar, má vísa til samgönguráðuneytis til úrskurðar. Um ágreining vegna útgáfu heilbrigðisvottorðs fer eftir grein 1.2.4.10.
Refsiákvæði.
Brot gegn reglugerð þessari varðar refsingu skv. 141. gr. laga 60/1998 um loftferðir
Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt 145. gr., sbr. 31., 73. og 74. gr. laga nr. 60/1998 um loftferðir og tekur gildi 1. júlí 1999. Um leið fellur úr gildi reglugerð nr. 344/1990 um skírteini gefin út af Flugmálastjórn nr. 344/1990 með síðari breytingum.”
Tölum aðeins um ágreining um ákvarðanir Flugmálastjórnar, þ.á m. trúnaðarlæknis hennar. Það kemur skýrt fram í fyrrgreindum úrdrætti hvernig málum skal háttað. Liður 1.2.4.10 í reglugerð um skírteini nr. 419/1999 segir okkur hvernig ágreiningsmálum varðandi heilbrigðisvottorð flugliða skal háttað.
Eftirfarandi er úrdráttur úr reglugerð um skírteini nr. 419/1999:
“1.2.4.10
Sætti umsækjandi sig ekki við ákvörðun um útgáfu heilbrigðisvottorðs getur hann, innan 14 daga leitað úrskurðar þriggja manna nefndar sem í eiga sæti trúnaðarlæknir samgönguráðuneytis, trúnaðarlæknir hagsmunafélags umsækjanda, eða læknir tilnefndur af honum, ef téður umsækjandi er ófélagsbundinn, og læknir tilnefndur af lændlækni. Nefndin skal skipuð af samgönguráðherra og er niðurstaða hennar endanleg á sviði stjórnsýslu vegna útgáfu heilbrigðisvottorðs.”
Ég hvet þá sem ætla að halda áfram að tjá sig um málið á málefnalegan hátt að kynna sér þessi og helst fleiri ákvæði gildandi reglugerða varðandi útgáfu heilbrigðisvottorða og skírteina Íslenskra flugmanna áður en lengra verður haldið á ritvellinum.
Allur flugheimurinn á Íslandi vinnur samkvæmt þessari reglugerð hvort sem um ræðir Flugmálastjórn, flugskóla, fyrirtæki í flugrekstri eða flugmenn. Það stendur svart á hvítu á fyrstu síðunni að kröfur Flugöryggissamtaka Evrópu (JAA) heilbrigðiskröfur fyrir skírteini flugliða (JAR-FCL 3) skuli gilda við útgáfu skírteina Flugmálastjórnar Íslands frá 1. júlí 1999. Einnig að kröfur Flugöryggissamtaka Evrópu séu birtar sem hluti reglugerðar um skírteini útgefin af Flugmálastjórn Íslands.
Mér þykir það mjög dapurt af þeim hér á Huga og víðar í þjóðfélaginu sem halda því fram að aðilar innan flugsins séu að falast eftir einhverju sem þeir eiga ekki rétt á, hvað þá þegar verið er að væna sömu aðila um “afslátt” af kröfum um heilbrigði flugmanna og vera ógn við flugöryggi!
Ég hlýt að gera þá kröfu, sem einstaklingur, að lögum sé fylgt í hvívetna og það tel ég að sé ekki óraunhæf krafa. Ég vil trúa því að Flugmálastjórn Íslands sé það vel mönnuð að ég og fleiri sem þurfa að hafa viðskipti við stofnunina þurfum ekki að tortryggja og fara yfir allt sem frá henni kemur með lögfræðingi okkar til að fá úr skorið hvort farið hafi verið eftir lögum eður ei.
Framgangur í máli Árna G, Sigurðssonar fram að þessu hefur verið ótrúlegur, það ótrúlegur að ekki ætti að þekkjast í siðmenntuðu landi. Þetta á ekki að þurfa að gerast á þennan hátt þar sem lögin eru ótvíræð.
Ég er þess fullviss að margir sem eiga mikið undir réttri málsmeðferð frá hendi Flugmálastjórnar hafa beðið með öndina í hálsinum eftir lögfræðilega réttri niðurstöðu í máli Árna. Það er algjörlega ótækt að hvort sem um einstaklinga eða fyrirtæki sé að ræða að þeir geti ekki treyst því að ríkisstofnanir fari að lögum. Að mínu mati hefur samgönguráðuneytið staðið vel að sínum þætti málsins en ég tel að ekki sé sömu sögu að segja um Flugmálastjórn. Það verður að teljast óeðlilegt að trúnaðarlæknir geti ekki verið sammála sérfræðingum sem um heilsufar Árna hafa fjallað, þ.m.t. sjálfum landlækni yfir Íslandi og ætla ég að hann teljist með hæfari læknum á landinu. Í ljósi þess að nefnd sú er samgönguráðherra skipaði til að fara yfir vinnubrögð Flugmálastjórnar í málinu, komst að þeirri niðurstöðu að stjórnsýsla hafi verið brotin í máli Árna þá þykir mér alltof mikill vafi leika á trúverðugleika Flugmálastjórnar.
Ég er alveg sammála því að ef flugmenn séu það heilsuveilir eða líkur séu á að þeir fái “aftur” hættulegan sjúkdóm sem leiði til skertrar starfshæfni þeirra, eigi ekki að fá að fljúga frekar sem flugstjóri með farþega. Ég get engan vegið sagt til um það hvort sú sé raunin í máli Árna en það er í verkahring lækna sem um hann fjalla. Miðað við þá vitneskju sem ég hef um málið þá tel ég að á hans rétti hafi verið brotið og það er aldrei gott.
Það er mjög eðlilegt að stéttarfélag standi að baki félagsmönnum sínum þegar efni eru til þess. Það hefur alltaf vakið furðu mína að fólk sjái eitthvað athugavert við það, nægir þar einfaldlega að nefna hluti eins og kjaramál og ýmis sjálfsögð réttindi einstaklinga.
Ég er þess nokkuð viss að ef hinn almenni borgari yrði fyrir því að á honum væri troðið með einhverskonar valdníðslu eða brotið á hans rétti þá myndi sá hinn sami standa upp og gera eitthvað í málinu og jafnvel leita til síns stéttarfélags. Það tel ég Árna hafa gert og ég er ekki í nokkrum vafa að hann sé að gera rétt.
Fyrst þið sem hér hafa skrifað og eruð svona þyrst í að velta ykkur uppúr tali um “afslátt af öryggi” þá vil ég koma með eina ábendingu á svolítið sem er ekki alls fjarri ykkur.
Hvað með öryggi í umferðinni? Það er talinn algjör og sjálfsagður réttur að nánast hver sem er geti fengið ökuskírteini. Fólk þarf lítið annað að gera en að borga ökukennaranum tiltekna lágmarksupphæð, fara í nokkra ökutíma, standast hjákátlega læknisskoðun og þreyta lítið og ræfilslegt bílpróf. Eftir það getur glænýr bílstjórinn hlaupið inn í næsta bílaumboð og keypt sér hraðskreiðasta bílinn á markaðinum og farið út að burra. Það er eins og enginn hugsi neitt út í hvað það er hættulegt! Þetta fólk er á fleygiferð innan um ykkur í umferðinni þar sem þið eruð á rúntinum, jafnvel með börnin ykkar í aftursætinu að háma í sig ís eða hvað það nú er……
Enginn fer fram á að bílstjórar af neinu tagi þurfi að gangast undir strangar læknisskoðanir, eins og flugmenn þurfa að gera, frá því að þeir fá annað ökuskírteini sitt sem gildir frá tvítugs aldri fram að sjötugu, þrátt fyrir að þeir séu haldnir hinum og þessum sjúkdómum. Veit ég dæmi þess að bílstjórar hér á landi séu eineygðir, flogaveikir og það versta sem ég hef séð, svo stórkostlega fatlaðir að þeir hafi varla stjórn á hreyfingum sínum.
Lifið heil,
Helico