Skrúfa úr B-17 sprengjuflugvél grafin upp
Vísir að safni á bænum Stóru-Mörk um vélina og hinstu ferð hennar
HJÁLPARSVEIT skáta í Reykjavík gerði út sérstæðan leiðangur á Eyjafjallajökul um helgina til að ná upp skrúfu úr B-17 sprengjuflugvél bandaríska flughersins sem fórst á jöklinum í seinni heimsstyrjöldinni, nánar til tekið 16. september 1944.
Eins og sjá má er skrúfa B-17 flugvélarinnar nokkuð heilleg, enda hefur hún varðveist í Eyjafjallajökli í rúm 56 ár.
HJÁLPARSVEIT skáta í Reykjavík gerði út sérstæðan leiðangur á Eyjafjallajökul um helgina til að ná upp skrúfu úr B-17 sprengjuflugvél bandaríska flughersins sem fórst á jöklinum í seinni heimsstyrjöldinni, nánar til tekið 16. september 1944. Skrúfan losnaði úr jöklinum síðasta sumar og er fyrsti hluti flugvélarinnar sem náðst hefur upp. Að sögn Árna Alfreðssonar, forsprakka leiðangursins og hjálparsveitarmanns, er skrúfan nokkuð heilleg en undanfarin ár hefur það verið eitt helsta áhugamál Árna að ná hlutum vélarinnar upp. Skrúfan var flutt niður að bænum Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum og þar verður hún geymd. Árni segir við Morgunblaðið að sinn draumur sé að koma upp safni að Stóru-Mörk um þessa vél og hinstu ferð hennar en B-17 vélarnar gengu gjarnan undir heitinu fljúgandi virki. Fróðleg grein um þessar vélar birtist í Lesbók Morgunblaðsins sl. laugardag, sama dag og skrúfan náðist upp á Eyjafjallajökli. B-17 voru fjögurra hreyfla, 30 tonna vélar sem gátu borið allt að 3,5 tonn af sprengjum og voru án efa frægustu vígvélar stríðsins.
Mikið er af sprungum á jöklinum þar sem hlutar vélarinnar liggja og útilokað að komast með ökutæki á þessar slóðir að sumarlagi. Því var beðið með björgunarleiðangur þar til nú í vetur. Lagt var af stað sl. föstudag og farið á snjóbíl hjálparsveitarinnar um Hamragarðaheiði og upp að Goðasteini efst á jöklinum. Þaðan lá leiðin niður brattan og glerhálan jökulinn að norðanverðu. Komið var að áfangastað í 1.100 metra hæð yfir sjávarmáli um klukkan 5 aðfaranótt laugardagsins.
Grafið niður rúma þrjá metra
Árni segir einu ummerkin á svæðinu hafa verið efsta hluta stiku sem sett var þar niður sl. haust á klettasker á jöklinum. Ekkert sást hins vegar af þriggja metra löngum stikum sem settar höfðu verið niður á sjálfa skrúfuna.
“Með gamaldags skrefamælingu og aðstoð nútíma GPS-tækni var reynt að staðsetja skrúfuna og hafist handa við að grafa og kanna snjódýpt. Mikið harðfenni gerði annars öflugum snjóbíl mokstur frekar erfiðan. Þegar upp var staðið var snjódýpt vel yfir þrír metrar. Með talsverðum handmokstri og leit fannst grannur bandspotti sem lagður hafði verið út frá skrúfunni um haustið. Eftir honum var svo hægt að rekja sig að henni sjálfri,” segir Árni og tók þá við um klukkustundar vinna við að losa stykkið úr ísnum með ísöxum og járnkarli. Að því loknu var skrúfan dregin upp á sérsmíðaða kerru sem snjóbíllinn hafði í eftirdragi.
Árni segir að það megi þakka nokkrum samverkandi þáttum hversu vel aðgerðin heppnaðist. Nefnir hann öflugan snjóbíl með þrautreyndan stjórnanda og vel samhentan hóp með kunnáttu á ýmsum ólíkum sviðum. Síðast en ekki síst megi þakka góðu veðri, stillu og talsverðu frosti, hversu vel tókst til. Komið var niður að bænum Stóru-Mörk um kaffileytið á laugardag og beið þar leiðangursmanna ilmandi kaffi með vöfflum, sultu og rjóma.
Tíu manna áhöfn bjargaðist 16. september 1944
Eins og áður segir stendur til að geyma skrúfuna að Stóru-Mörk og koma þar upp safni ef fleiri hlutir sprengjuflugvélarinnar nást upp. Árni segist hafa drukkið söguna um flugslysið í sig er hann var í sveit sem strákur hjá ættingjum sínum að Stóru-Mörk en eftir að hann rakst á bút úr vélinni í smalamennsku haustið 1990 ákvað hann að gera eitthvað í málinu. Fór að grafast nánar fyrir um slysið og staðsetja slysstaðinn betur. Merk tímamót urðu sem sagt um helgina þegar fyrsti hluti vélarinnar náðist upp og niður af jöklinum. Talið er að einn mótor vélarinnar liggi skammt frá þeim stað sem skrúfan var.
Um flugslysið er það að segja að B-17 vélin var á leið til Bretlands hinn örlaga ríka morgun 16. september 1944 með 10 manns um borð. Veður var mjög slæmt, sunnan hvassviðri, og villtist vélin af leið. Mikil ókyrrð var í lofti og ísing og eftir mikið niðurstreymi tók vélina niðri og skautaði eftir jöklinum nokkurn spöl áður en hún lenti í mjúkum snjóskafli þar sem hún snerist í hálfhring. Við þetta kom á hana rifa sem Árni segir að áhöfnin hafi þeyst út um, ýmist út í snjóinn eða út á væng flugvélarinnar. Árni telur að hefði vélin ekki snúist hefði hún skollið á klettaskeri og líklega tæst í sundur. Enginn af áhöfninni slasaðist alvarlega. Eftir tveggja daga vist í flakinu í vitlausu veðri ákvað áhöfnin að reyna að koma sér sjálf niður af jöklinum. Árni segir þá hafa farið niður af jöklinum að norðanverðu, vaðið Markarfljótið og komist við illan leik að bænum Fljótsdal í Fljótshlíð.
Ljósmynd/Árni Alfreðsson
Kv. svg