Flugrallý Sælir flugáHugamenn. Þar sem 31% (síðast þegar ég athugaði) þeirra sem svarað hafa könnuninni um hvað sé flugrallý vita ekki hvað það er, ákvað ég að skrifa lýsingu á því.

Flugrallý fer þannig fram að flugmenn hópast saman á einhvern flugvöll, t.d. Selfoss, með vélarnar sínar og fá þar verkefni í formi flugáætlunar til að fylla út. Venjulega er verkefnið þannig að menn þurfa að gera áætlun fyrir þrjá “leggi”, þ.e. stóran þríhyrning sem floginn er, með upphafsflugvöllinn sem upphafs- og endapunkt. Gott dæmi um slíkan þríhyrning væri Selfoss-Flúðir-Hella-Selfoss. Menn þurfa að miða við hraðasvið þeirra eigin flugvéla við áætlunargerðina, til að geta t.d. gefið í ef þeir eru á eftir áætlun, eða hægt á ef þeir eru of fljótir. Málið er nefnilega að flugáætlunin getur verið spurning um sekúndur því menn eiga að fljúga áætlunina sem þeir skila inn, og þannig sýna fram á að þeir geti bæði gert áætlunina rétt, og flogið hana rétt. Nákvæmni skiptir öllu.

Tímatakan hefst þegar menn fljúga yfir einhvern fyrirfram ákveðinn punkt á flugvallarsvæðinu og endar þegar menn koma aftur yfir hann fyrir lendingu. Til að tryggja að menn svindli ekki er nokkrum tímavörðum dreift niður á leiðina án þess að keppendur viti hvar þeir eru. Tímaverðirnir taka tímann á mönnum og sjá þá um leið hvort menn eru á eftir eða undan m.v. áætlunina. Flugmennirnir fá líka oft aukaverkefni til að leysa á leiðinni. Það er t.d. mjög vinsælt að láta þá merkja inn á kort eitthvað kennileiti sem þeir eiga að finna og þekkja á sinni flugleið. Þannig geta menn náð sér í fleiri stig.

Eftir lendingu fara menn að undirbúa sig fyrir hluta nr. 2 sem er nær undantekningalaust lendingakeppni, en einnig hefur verið keppt í “sprengjukasti” þar sem menn eiga að hitta í mark með litlum hveitipoka með því henda honum út úr flugvélinni. Lendingakeppnin getur verið mismunandi erfið, þ.e. mismunandi erfiðar lendingaraðferðir. Þær sem oftast er keppt í eru fjórar. Sú fyrsta er þannig að það má nota allt, þ.e. afl, flapa, vængskrið eða hvað sem mönnum dettur í hug til að hitta á markið á brautinni. Önnur er þannig að nota má flapa og vængskrið en ekkert afl. Aflið er allt dregið af hreyflinum þvert af flugbrautarendanum í 1000 fetum yfir vallarhæð og svifið þaðan inn á markið. Sú þriðja er þannig að það má ekki nota afl, ekki flapa en þó má nota vængskrið. Sú síðasta er skemmtilegust að mínu mati, því þar þurfa menn að þekkja sína vél ansi vel. Nota má afl, flapa og vængskrið, en það sem er sérstakt við þessa lendingu er að menn þurfa að koma yfir band sem strengt er yfir brautina í tveggja metra hæð, og hitta svo á markið sem er stutt frá. Það er oft ansi skrautlegt að sjá menn glíma við þetta en allt er þetta gert til að gera menn færari flugmenn ásamt því að hafa gaman af.

Þegar þessu er svo öllu lokið eru stigin talin saman í báðum greinum og verðlaun veitt skv. því. Í heildina talið kallast þetta Flugrallý. Ég vona að þetta veiti mönnum innsýn í “íþróttahluta” almannaflugsins á Íslandi. Að lokum má til gamans geta þess að Íslandsmeistarinn 2001 er einn þeirra sem stendur á bak við Ísland 2000 landslagið fyrir Flight Simulator 2000 og 2002. :-) Sjá betur á www.simnet.is/icesim

Kveðja,

Mazoo