Ég hef verið að velta siðfræðilegri hlið ofangreindrar fyrirsagnar undanfarna daga með hið “virta” flugfélag Jórvík ofarlega í huga. Þannig er mál með vexti að Jórvík er í atvinnurekstri, atvinnurekstri með hagnaðarsjónarmið. Til þess að skila hagnaði þurfa þeir flugmenn til að virkja framleiðslutækin sem eiga að skila arði.Kröfur yfirvalda eru þær að flugmenn þessir skulu hafa gilt atvinnuflugmannsskírteini,gilda blindflugsáritun og fjölhreyfla áritun. Þessi menntun er mjög dýr og starfskraftar Jórvíkur þar af leiðandi með dýra menntun sem í flestum tilvikum þarf að borga af mánaðarlega ásamt því sem kostar að lifa. Nám þetta kostar ekki undir 3 milljónum króna þegar allt er talið. Hverjir hafa efni á að vinna launalaust við þessi skilyrði? Eru það ekki pabbastrákar sem skulda ekki neitt í sínu námi eða þeir sem eru að vinna annarsstaðar. Þegar menn eru í sjálfboðavinnu er þeim þá frjálst að mæta ekki í vinnuna á óþægilegum tíma(þegar þeir eru í hinni vinnunni)? Getur fyrirtækið alltaf gert ráð fyrir því að fyrir hvert flug sé mættur flugmaður til þjónustu reiðubúinn eða er hann annarsstaðar að vinna inn fyrir reikningum. Eru “starfsmenn” fyrirtækisins hliðhollir fyrirtækinu og hætta með fyrirvara eða fara án þess að láta kóng né prest vita(ég hefði allavega enga samvisku yfir því sjálfur). Þegar mönnum er gert að segja sig úr stéttarfélögum til að fá “vinnuna” er þá fyrirtækið ekki með eitthvað óhreint mjöl í pokahorninu? Þ.e.a.s sagt þér að éta það sem úti frýs þegar þú gerist svo djarfur að krefjast launa fyrir það að þurfa að mæta í vinnu í vályndum veðrum á vafasömum búnaði(vélar Jórvíkur). Geta þeir bara ekki barið niður óróaseggina niður samviskulaust? Ástæðan fyrir því að ég velti þessum hlutum fyrir mér er að nú er ég búinn að fá staðfest að engin laun eru fyrir vinnu aðstoðarflugmanns. Yfirlýsingar Jórvíkurmanna um annað eru algjörlega ósannar. Þeir borga mönnum fyrir setu í vinstra sæti en það hægra er ódýrt fyrir þá.
Mín skoðun er sú að fyrirtæki sem rekið er með hagnaðarsjónarmiðum skuli launa þeim (flugmönnunum) sem skapa hagnaðinn. Annað er siðlaust. Siðleysi yfirmanna boðar aldrei gott og starfsmannastefna til langframa er ómarktæk og framtíðarsýn starfsmanna hljóta að liggja annarsstaðar en hjá siðlausum mönnum. Það liggur í augum uppi hjá flugmönnum annarra flugfélaga því aðeins barst ein umsókn frá flugmanni starfandi annarsstaðar.
Hvað gerist ef fleiri flugfélögum finnst þetta góð hugmynd? Þeir sjá sér hag í því að spara sér auka krónur ef það eru til vitleysingar sem vilja starfa hjá þeim án greiðslu. Hvers virði er þá skírteini atvinnuflugmanns? Alveg rétt,einskis virði. Þeir sem starfa fyrir Jórvík eru að eyðileggja fyrir sjálfum sér og öðrum ef þeir ætla sér áframhaldandi störf án greiðslu. Þeir eiga það allavega inni hjá sjálfum sér að reyna að semja um einhverjar greiðslur. Sem ég vona að þeir geri sjálfs síns vegna. Rök margra Jórvíkur-aðdáenda eru þau að það þurfi ekki tvo flugmenn á þessar vélar eru gildar en venja hefur skapast í áætlunarflugi að tveir flugmenn séu um borð auk þess telur reglugerð samgönguráðuneytis það æskilegt að tveir flugmenn séu starfandi áætlunarflugi, til að fyllsta öryggis sé gætt en það er nota bene engin skylda. En ef Jórvík ætlar sér einhverja hluti í innanlandsfluginu þá þurfa þeir að hafa tvo flugmenn farþeganna vegna(auka öryggiskennd,minni slysahætta).Þá er lágmark að greiða laun þeirra sem að koma. Ef þú hefur ekki efni á því, þá hefur þú ekki efni á að reka svona batterý sem flugfélag er.
Sem betur fer er siðferðið á hærra plani hjá öðrum flugfélögum hér á landi.Margir gætu nýtt sér það ástand sem er á vinnumarkaði og ráðið flugmenn upp á vatn og brauð,en þeir hafa ekki samvisku í það. Ef sjálfboðavinnan væri ríkjandi þá væri atvinnuflugmannsskírteinið ekki merkilegur pappír. Ég væri búinn að henda mínu í ruslið ef þetta væri veruleikinn.