"NIMBY"-ar.  Hættuleg tegund fyrir flugið. Nýlega reyndi flugmálastjórnin í Bretlandi að lögsækja flugkennara eftir ásökanir um að hafa verið í lágflugi og brotið þar með gegn flugreglum. Kennarinn sem um ræðir var að kenna flugnema hvernig á að bregðast við ef hreyfill bilar eftir flugtak! Breska flugmálatsjórnin gerir kröfur um sjálfstæðar frásagnir eða skýrslur a.m.k. þriggja vitna til að sanna að atvikið hafi átt sér stað áður en hún tekur ákvörðun um að kæra fyrir lágflug. Fjögur vitni staðhæfðu að meðan á æfingunni stóð, hafi vélin flogið í ca. 35 feta (rúmlega 10 metra) hæð yfir þök húsa þeirra. Eitt vitnið sagðist hafa lesið einkennisstafi vélarinnar greinilega og skrifað þá hjá sér. Sömuleiðis lýsti hann vélinni sem háþekju. Þegar farið var að rannsaka málið, komu hins vegar fram sönnunargögn, lögð voru fram af verjendum kennarans, sem sýndu fram á að fyrir utan að hafa skrifað ranga einkennisstafi, kom í ljós að vélin var af gerðinni Piper Warrior, sem er lágþekja.
Sem betur fer var kennarinn sýknaður og málinu vísað frá. Ástæðan er eflaust sú að sönnunargögnin voru óáreiðanleg. Það sem kom hins vegar berlega fram var viðhorf vitnanna fjögurra sem kallað er “nimby-ism”. Þ.e.a.s. Not In My Back Yard, eða Ekki Í Garðinum Mínum. Verjendurnir lögðu líka fram sönnunargögn, sem sýndu ítrekaðar kvartanir til flugvallar bæjarins sem mennirnir fjórir höfðu lagt fram vegna lágflugs flugvéla. Þeir höfðu meira að segja lofað að valda flugrekendunum “miklum vandræðum” ef hávaðatruflanirnar yrðu ekki tafarlaust stöðvaðar. Það má því kannski segja að þessir fjórir aðilar hafi viljandi komið af stað falskri málsókn til að koma einmitt þeirri hótun í framkvæmd.
Vandamál tengd NIMBYum og hávaða eru ekki nýjar fréttir. Í Suður Cambridgeskíri reyndi sveitastjórnin að leggja skipulagshömlur á alla flugvelli á þeirra umráðasvæði. Þær hömlur voru hvorki sanngjarnar né hagkvæmar. T.d. áttu flugskólarnir að fá kvóta upp á 10 snertilendingar á dag, sem segir sig sjálft að gengur aldrei, þegar hver nemandi getur auðveldlega framkvæmt 10 snertilendingar í einu kennsluflugi upp á eina og hálfa klukkustund. Hvaða flugskóli getur lifað af með svona hömlum á rekstrinum? Enginn. Helsta vandamálið við staðbundna þrýstihópa er að þeir setja fordæmi fyrir nær alla aðra svæðisbundna þrýstihópa þar sem flugvöll er að finna. Hvers vegna nágrannar flugvalla eru svona oft andsnúnir þessu sporti okkar er stundum erfitt að skilja. Kannski er eina ástæðan sú að þeir sjá flugvélarnar sem truflandi hlut í tilverunni á annars friðsælu sunnudagseftirmiðdegi. Það sem þeir kunna ekki að meta er að flugið veitir mörgum vinnu og er mjög oft fyrsta skrefið í að þjálfa atvinnuflugmenn framtíðarinnar, sem verður sífellt mikilvægara þar sem miklum flugmannaskorti er spáð um allan heim næstu ár, og það er þegar farið að bera á því í Ameríku. Þegar allt í talið til, er flugið mikilvægur þáttur í heilbrigðu efnahagskerfi hverrar sýslu. Nú þegar fara mjög margir Bretar til USA í þjálfun vegna sífellt aukinna takmarkana og hamla í Bretlandi. Aðrir líta á sportið okkar sem hobbý fyrir ríka og fyrirmenni. Það er það ekki. Þú getur farið í hvaða flugklúbb sem er, og þar sérðu yfirleitt fleiri japanska hrísgrjónadalla, Escorta eða Fiestur en t.d. Porsche eða álíka eðalvagna.
Enn fremur má benda á, að með því að takmarka sportið okkar svona, geta skipulagshömlur farið að skipta máli þegar kemur að mannréttindalögum. Ef að veiðimaður má skjóta vild sýna af fugli, og bændur landsins mega reka búfénað um hálendið, hvers vegna ættum við þá að missa réttinn til að fljúga? Fyrst og fremst þörfnumst við lítilla flugvalla í sýslum landsins. Þrýstingur á stóra flugvelli í útlöndum að auka hagnað af farþegaflugvélum, og tafir á brottförum, hefur þá þýðingu að litlir flugvellir eiga aðeins örugga framtíð með flugkennslunni. Tökum flugvöllinn í Luton sem dæmi. Þar er nú bannað að gera snertilendingar og næstum allir flugskólarnir eru farnir þaðan.
Að lokum, þá hefur Breska ríkisstjórnin í hyggju að leggja til að hávaðamælingar og bætur á flugumferð verði settar í hendur sveitastjórna. Stutt og laggott þýðir þetta bara eitt. Endalok almannaflugs í Bretlandi. Ef sveitastjórnir fá yfirráð í þessum efnum, mun hver einasti NIMBY landsins leggja hart að sveitastjórnarmönnum að leggja niður flugvöllinn í sinni sveit. Það er nefnilega mun auðveldara að ná athygli og afla máli sínu stuðnings í sveitastjórn, en í ríkisstjórn. Eina leiðin til að stöðva þessa þróun er ef að HVER EINASTI FLUGMAÐUR segir sína skoðun og kemur henni á framfæri við umhverfismálaráðuneyti, samgöngumálaráðuneyti eða þingmann síns kjördæmis. Ef flugmenn gera það ekki, lítur framtíð almannaflugs á Íslandi og í Evrópu illa út. Umhverfisþátturinn verður sífellt mikilvægari og það þýðir ekki að stinga höfðinu í sandinn. Flugmenn verða að taka tillit til þessa og nágrennis flugvalla til og við hvert tækifæri reyna að efla góð samskipti flugvallar og nágranna. Umræðan um Reykjavíkurflugvöll hefur verið nógu neikvæð síðustu misseri. Það sama þarf ekki að gilda um aðra velli landsins.

Kv.

Mazoo