Nú fer ég í flug eftir tvo mánuði og fyrir u.þ.b. þremur vikum fór ég að upplifa fyrstu hræðsluköstin (svefnleysi, grátköst, ógleði, andköf o.s.frv., þessi týpísku kvíðaviðbrögð), bara liggjandi heima í rúmi að fara að sofa í sakleysi mínu. Martraðir þar sem maður deyr á ýmsan hátt, sogast út, hrapar á land og drepst við fallið, hrapar í sjó og drukknar eða er étinn eru búnar að tjalda og koma sér vel fyrir í hausnum á mér.
Áður en ég fer í flug undirbý ég mig eins og þetta muni verða mitt síðasta. Bara svona til öryggis. Kveð alla eins og ég eigi ekki eftir að koma heim, hendi eða tek með mér þá hluti sem ég vil ekki að finnist þegar gengið verður frá hlutunum mínum o.s.frv.
Málið er í hnotskurn það að ég er hrædd við að deyja hrædd. Þar af leiðandi er ég líka hrædd við vatn í stórum skömmtum, að vera hátt uppi og allar aðstæður þar sem ég hef ekki stjórn á hlutunum. Þetta myndar svo allt vítahring sem byggist á því að ég er hrædd við allt og þegar að því kemur að ég dey þá verð ég líklegast hrædd hvort sem er, en það er held ég önnur saga og aðeins notað hér til áhersluauka.
Ég þekki tölfræðina alveg jafn vel og aðrir Íslendingar. Ég veit að það er líklegra að maður deyi í bíl heldur en í flugi og ég veit að flugvélar eru hannaðar til að komast í gegnum ýmsa erfiðleika. Ég veit líka að flugslys eru sárasjaldgæf og að það eru kannski ár og öld frá því að slíkt varð síðast en er þá ekki kominn tími á nýtt? Ég nærist bara á því að allt getur gerst og frasinn ,,Hvað ef?" er alltaf á sínum stað efst í huganum.
Ekki segja mér gömlu tuggurnar sem fólk heldur að séu hughreystandi en ef þú hefur einhverjar upplýsingar um hjálp sem ég get fengið, hvað sem er, þá máttu plís segja mér frá því.