Sælt veri fólkið
Af hverju eru menn að óskapast svona mikið yfir einhverjum risaþotum sem aldrei eiga eftir að lenda á Íslandi í staðinn fyrir að tala um alvöru flug og flugvélar sem dauðlegt fólk getur fengið að fljúga ?
Hér kemur til dæmis umfjöllun um Socata TB-9. Þrjár slíkar hafa verið skráðar á Íslandi, og tvær þeirra hafa brotlent. Einnig eru til fjórar stærri TB-vélar, tvær þeirra hjá Geirfugli, og tvær annars staðar.
TB-9 er fín flugvél fyrir útsýnisflug, með stóra glugga og fjögur nokkuð rúmgóð sæti, þó framsætin geti seint talist þægileg. Hún krúsar ekki hratt (<100kts), og þarf langa braut, en hún er mjög þæg og gerir nákvæmlega það sem maður biður hana um. Með lagni er hægt að lenda henni í hvaða hliðarvind sem er (framleiðandi gefur upp 25 hnúta) og hún kvartar ekki mikið yfir malar- eða grasbrautum meðan þær eru nógu langar. Þetta er sjálfsagt ágætisflugvél fyrir lengri ferðir og 2-3 manneskjur. Einn stór kostur er allt upp í 6 tíma flugþol.
Á mánudaginn fór ég í klassískt útsýnisflug norður á Kaldármela og þar í kring. Veðrið var frábært, alveg bjart yfir vestur af, og 10-15 hnúta vestanátt. Ég fór á TB-9 TF-BRO, minnstu TB vélinni hjá Geirfugli. Hún virkar ágætlega þegar hún er komin í loftið, en þarf alveg verulega langa braut.
Í svona veðri virka stóru TB-gluggarnir eins og í gróðurhúsi, þannig að það varð nokkuð heitt og mollulegt inni í vélinni. Það er hægt að fá nokkuð góðan blástur úr loftraufunum, en það var varla nóg fyrir farþegann, sem var við það að þurfa að nota ælupoka þrátt fyrir beint og lárétt flug í nokkuð kyrru lofti. Ég prófaði trikk sem ég hafði einhvern tímann lesið um og leyfði drengnum að stýra. Það var eins og við manninn mælt, um leið og hann tók stýrið hvarf ógleðin. Það er eins og heilinn skilji betur hvað er að gerast ef hendurnar eru í beinni snertingu við stýrið.
Við ákváðum líka að lenda á Kaldármelum og fá ferskt loft. Brautin var nýslegin og fín, en vindurinn var 80°-90° á braut og það var ekki búið að hirða heyið. Heyið flæktist aðeins fyrir mér í lendingunni, en flugtakið gekk mjög vel. Það var ekkert vandamál með brautarlengd, BIKA er ca. 700 metrar, og BROinn var kominn á loft töluvert áður en brautin var búin.
Síðan hringsóluðum við aðeins yfir Hnappadalnum áður en stefnan var tekin aftur á BIRK. Þar var lenti ég á 31 með vindinn næstum beint niður brautina, mjög þægilegt.
Að lokum fylgja nokkrar spurningar ef fólki vantar umræðuefni. Hvaða vélar eru það sem menn eru að fljúga á Íslandi ? Af hverju er Jodel betri en Skyhawk ? Af hverju á enginn Maule á Íslandi ? Er eitthvað vit í TB-200 og öðrum spariflugvélum sem hvergi er hægt að lenda ? Hvaða vél hentar best fyrir einkaflug og flugvallahopp við íslenskar aðstæður ? Hver ætlar að mæta í Flugrallý 18. ágúst ? Hvað finnst fólki um lokun BIVM fyrir einkaflugi á föstudag og mánudag ? Af hverju er himininn blár ?