Þannig var það nú að ég sat í þessum mjög svo vinsæla stól við tölvuna í FÍ, bíðandi eftir kennaranum sem ætlaði með mig í progress check. Allur á kafi í glósum og vitleysu eins og hávaðatakmörkum, taxi brautum, emergency procedure, stall procedure, flugleiðir og ég veit ekki hvað og hvað. Ég bíð þarna í að minnsta kosti klukkutíma því einhver var að taka próf á vélina sem ég átti að fara á. Ég leit út og sá að betra veður um miðjan októbermánuð var ekki hægt að óska sér. Einhverjir léttir fimm hnútar úr austri, ekki einn einasti skýjahnoðri á himni og hitinn 2°C.
Jæja loksins kom vélin heim í skýli og auðvitað þurfti að dæla á hana. Lítið frá því að segja nema það að vélinni var lagt frekar langt í burtu frá dælunni, og ég efa ekki að það hafi verið skrautlegt að sjá mig rembast við það að koma henni nær, enda um 16 ára stubb að ræða. Preflight check gert snögglega, enda kominn í tímaþröng.
Jæja, aftur kominn í húsaskjól en ekki til neins annars en að grípa headsettið og halda af stað aftur með kennaranum.
Ignition – Start. Vélin var heit og góð og var snögg að koma sér í stuðið. Farið á runup svæði og gengur sá process eins og í sögu. Þ.e.a.s góðri sögu. Nú er ekkert annað að gera en að kalla.
“Turn, Ingi Ceres Ingi ,vestan við skýli eitt, tilbúinn að aka.”
“Ingi Ceres Ingi, aka echo yfir 19, bíða við 13.”
Nú hófst mjög svo undarleg taxering því ansans flugvélin neitar að halda sér á góðum hraða og nefhjólinu á gulu línunni. Hvað um það, ég hef verið eitthvað stressaður.
Nú ætla ég að stoppa við línuna en þá heyrist í turninum:
“ICI haltu bara áfram, brautarstaða 13”
Lúxusinn maður…
Allavega, kominn í brautarstöðu, mixture rich, flaps up, og gá hvernig tímanum líður.
“Ingi Ceres Ingi, heimilt flugtak braut 13, hægri beygja leið 6.”
Fullt afl, mælar í góðu.. 30 kts, 40.. 50, rotate, ooog lift off.
Klifrað á 70 með mismunandi góðum árangri, einhver ókyrrð í gangi, hægri beygja og stefnan sett á að pirra, ef til vill, nokkra Álftnesinga.
Góðan daginn suðursvæði!
Það er ekki lítið sem lagt er á mann, er varla búinn að stilla á 131,8 fyrren kennarinn dregur allt aflið af og segir setninguna sem allir flugnemendur hafa heyrt:
Misstir aflið, hvað ætlarðu að gera?
Ef þetta var ekki besta emergency procedure sem ég hef framkvæmt þá er ég súrsaður Hi-C frá sautjánhundruð og súrkál. Jájá, það er ekki go-around fyrren nokkrum fetum yfir kvartmílubrautinni (var kominn skuggalega lágt miðað við fyrri reynslu). Sáttur með kvikindið! Farið í 2500 fet, hægflug prófað. Eitt lítið stall án afls og ekki meira. Nú er góður hljómur í kennaranum þegar hann segir; “Kallaðu þig út, við erum á leið til Reykjavíkur”
Ahh ég veit það ekki. Þetta voru ekki bestu lendingar sem ég hef gert.
Ein alveg hræðileg en hinar þrjár voru svosem ásættanlegar. Kennaranum fannst þó greinilega ekki það lítið varið í þær, því að eftir þriðju óskaði hann þess að fá að komast á hlað og leyfa “drengnum” að taka nokkrar lendingar einn. “Er það þá fyrsta sóló?” spurði turninn spekingslega og kennarinn játti því.
Echo yfir 19 fórum við og á meðan baunaði kennaranum í mig allskonar tipsum og ráðum, lengra flare og svoleiðis, og ekki hika við að gera go-around ef mér liði illa.
“Gangi þér vel” og svo var hann farinn.
Ég hafði það óþægilega á tilfinningunni að þessi kennari og hinn “fastráðni” kennarinn voru að hlusta á hvert orð sem ég sagði í radíóið (við erum að tala um feimnasta dreng síðan Alí Gongong var og hét)
Engu að síður segi ég:
“Turn, Ingi Ceres Ingi við skóla, tilbúinn í fyrsta sóló”
Turninn var ekki að sóa tíma og sagði:
“Ingi Ceres Ingi, brautarstaða 19”
Nú var ég kominn á brautina, ákvað að hætta að slefa yfir mælaborðið og taka mér tak. Heimild til flugtaks komin og án þess að hika sparkaði ég throttlunni inn (figure of speaking) og upp fór hún! Ég var að fljúga einn, eins einn og ég gat hugsanlega verið. Ég skeyti ekki um hárin sem rísa í hnakkanum en lít á mælana.
Ég viðurkenni að þetta var ekki jafn dramatískt og margt sem ég hef lesið , enda nokkuð vanur með 30 tíma að baki. Engu að síður sat ég með brosið neglt við sætisbakið en fylgdist þó með hraðamælinum og hvort vindurinn var að þeyta mér af brautarstefnu.
Nú kárnaði gamanið, eins og sagt er.
Þetta er svosem dæmigert fyrir mig, ég á til með að lenda í veseni.
Þannig var það að turninn hafði verið í vandræðum með að hafa samband við flugvél sem var einhverstaðar utan byggðar (ég held fyrir utan Garðabæinn).
XXX heyrirðu í mér? Hvernig heyrirðu 1-2-3-4-5?
Nú heyrðist í flugvélinni og röddinn beinlínis hræddi mig, maðurinn hljómaði algerlega pissfullur. (Ekki illa meint)
“Ég heyri nú afar illa í þér”
Nú vill turninn endilega koma mér í burtu og hrópar að mér að beygja hægri yfir völlinn þar sem ég var nýkominn undan vindi. (Líklega sagði hún það svo hátt svo hinn gaurinn heyrði það líka).
Nú fæ ég leyfi aftur í umferðarhring og hin vélin svona mílu fyrir bakvið mig.
“Þú ert ekki á eftir Dornier heldur lítilli Cessnu undan vindi” hrópaði hún svo nokkrum sinnum. Númer 3, númer 3.”
Allt er gott sem endar vel og var þetta engin undantekning á því máltæki. Fyrsta sóló lendingin mín var að baki (og líka svo ári góð) og hin vélin komin í skýli.
Tvær lendingar eftir og nærri því enginn traffík á svæðinu. Svona á þetta að vera!
Kominn í gírinn, tek annan umferðarhring og lendi örlítið slakar en fyrst, en ég var ekkert að pína mig á því. Tek annan hring, kalla undan vindi:
“Ingi Ceres Ingi undan vind,i fyrir 13 og þetta verður lokalending” , þó það var andsk. freistandi að stelast til að taka eina lendingu enn. En maður verður víst að þóknast þessum kennurum.
Kominn á jörðina í bili, taxera echo framhjá tveim vélum sem biðu við 13 og þá glumdi í turninum. “Til hamingju með fyrsta sóló” “Takk” sagði ég kjánalegri röddu.
Flugmenn vélanna sem biðu þarna litu upp og störuðu á mig þegar ég fór framhjá. Ég svaraði með stálköldum svip auðvitað og haggaðist ekki, þeir hættu nú samt ekki að horfa á mig fyrren ég var alveg kominn framhjá þeim. Þægilegra verður þetta ekki!
Til þess að ljúka þessari frásögn vil ég nefna að auðvitað var maðurinn ekkert fullur þarna. Hann er bara kominn á eldri árin og talaði svona, tjáði kennarinn minn mér allavega. Áreiðanlega fínasti maður. Sjálfur tala ég ekki með neinni englarödd.
Takk fyrir mig í bili, og svo vil ég endilega fá fleiri greinar um eitthvað sem ykkur er minnisstætt í fluginu!
Kv. Alinsim.
*Myndina tók Davíð Alfreð Elíasson, og er hún af umræddri flugvél.