B-52 var hönnuð uppúr 1950 fyrir SAC (Strategic Air Command, sem var sú deild Bandaríska flughersins sem sá um langdrægar sprengjuflugvélar). Henni var ætlað að vera leysa hina úreltu B-29 og hina skammdrægari B-47 af hólmi sem aðal-kjarnorkuógnvaldurinn við Rússa. Hún átti ef með þyrfti, að geta flogið alla leið frá USA að landamærum eða ströndum Sovétríkjanna, og með rafeindabúnaði sínum og lágflugi smogið gegnum loftvarnir þeirra, kastað “þeirri stóru” á sitt skotmark og flogið til baka. Og þetta töldu menn að hún hefði getað fyrstu 10 árin eða svo sem hún var í notkun. En bæði flugtækni almennt og loftvarnatækni Rússa fleygði fram, og menn fóru að huga að hönnun á nýrri og betri vél til verksins. En þegar þar var komið í sögunni, voru langdræg flugskeyti tekin við af sprengjuflugvélum sem aðal ógnvaldurinn. Ýmsar nýjar flugvélar komust á teikniborðið og jafnvel lengra, en alltaf guggnuðu menn á kostnaðinum. Hversvegna að eyða stórfé í nýja græju þegar hægt er að öppgreida þá gömlu og endurmeta hlutverk hennar?
Vélar hannaðar sem arftakar B-52 komust ýmist ekki af teikniborðinu eða að framleiðslu þeirra var hætt eftir örfá eintök sökum of mikils kostnaðar. B-58 flaug í örfáum eintökum í örfá ár til hliðar við þá vél sem hún átti að leysa af hólmi. B-70 komst aðeins á prótótýpu-stig áður en hætt var við smíði hennar. Eftir langa mæðu og milljónir dollara komst B-1 loks í loftið um 1985, og flýgur nú í mun færri eintökum til hliðar við gamla jálkinn. Uppúr 1990 fór svo B-2 í loftið, nánast ójarðneskt tækniundur. En þá voru helvískir Rússarnir orðnir bæði spakir og skítblankir, svo mjög að SAC var leyst upp. Það verða framleidd 20 stykki af B-2, eiginlega bara fyrst það var haft fyrir að hanna hana, en B-52 verður enn “um sinn” aðal bomber USAF. Á þeim bæ segja gárungarnir víst að um miðja þessa öld, þegar seinustu B-2 vélinni verður lagt, verði áhöfn hennar flogið heim af B-52!
Ég held örugglega að engum sem nálægt hönnun þessarar flugvélar komu um 1950, hvort sem það var hjá Boeing eða SAC, hafi órað fyrir að hún myndi enn verða í notkun að hálfri öld liðinni. Auðvitað varð hún mjög fljótlega kolúrelt í akkúrat því hlutverki sem hún var hönnuð fyrir, kjarnorkugereyðingu Sovétríkjanna. Þróun bæði langdrægra kjarnorkuflugskeyta og loftvarna sáu til þess. En menn komust fljótlega að því að hægt væri að finna önnur hlutverk fyrir vélina í heimi Kaldastríðsins. Auk þess hlutverks sem komst næst því sem henni var upprunalega ætlað hjá SAC, semsagt sem stand-off missile carrier, var B-52 notuð í venjulegar (og jafnframt oft barbarískar) loftárásir á N-Víetnam, þangað sem hún flaug alla leið frá Guam. Og árið 1991 flugu B-52 vélar alla leið frá heimastöðvum sínum í USA til að varpa sprengjum á Lýðveldisvörð Saddams Hussein í Írak, og aftur árið 2003.
Gaman getur verið að rýna í “ættfræði” flugvéla, þó einhverjum þyki það hljóma undarlega. En það er bara tilfellið að flugvélar hafa ættir, rétt eins og framleiðendur þeirra. Í því sambandi mætti segja að B-52 sé komin í beinan karllegg af B-17, Flugvirkinu. Það má rökstyðja með að hún var að mörgu leyti hönnuð uppúr B-47, sem var að mörgu leyti hönnuð uppúr B-29, sem var hönnuð uppúr B-17.
Allar þær sprengjuflugvélar sem ég hef nefnt í þessari umfjöllun minni eru af einni mestu ætt flugvéla, Boeing. Á þeim má sjá Boeing-svipmótið, svipmót sem hvergi er þó greinilegra en í farþegafluginu síðustu 50 árin. Boeing 707 var hönnuð skömmu á eftir B-52 og sótti margt til hennar, hönnuðirnir hjá Boeing nýttu reynsluna af sprengjuflugvélunum vel. Í kjölfarið fylgdi síðan heill “ættleggur” farþegaflugvéla: 727, 737, 747, 757 og 767. Margar þessara véla hafa einnig verið notaðar í flugherjum ýmissa landa, og reyndar var byrjað að hanna Boeing 747 sem herflutningavél, en Lockheed vann útboðið með C-5 Galaxy.
Og það eru jafnvel til dæmi um “óskilgetnar” flugvélar og upplagt að minnast á eitt slíkt í lokin: Árið 1945 voru nokkrar B-29 að koma úr árásarferð á Japan. Þær urðu að nauðlenda í Sovétríkjunum, þar sem þær voru kyrrsettar, þareð Rússar voru ekki í stríði við Japan. Nokkrum mánuðum síðar var “Tupolev-4” komin á loft, nákvæm eftirlíking af B-29. Og nokkrum árum síðar, þegar allkalt var orðið á milli Kana og Rússa, um svipað leyti og B-52 fór í loftið, fór Tupolev nokkur 95, kölluð “Björninn” á loft, vél sem síðan hefur verið fastagestur hér við Íslandsstrendur. Þó að vissulega væri flest nýtt og al-rússneskt í hönnun Bjössa, þóttust menn greina nokkurn Boeing-svip á honum hér og þar. Eins voru margar af fyrstu orustuþotum bæði Rússa og Bandaríkjamanna með Messerschmitt og/eða Heinkel-blóð í sér, úr herteknum fósturvísum fremur en fullþroskuðum flugvélum. Þó að framleiðendurnir hafi neitað því á sínum tíma, þá er það almennt vitað - eins og stundum í ættfræði yfirleitt!
_______________________