Þetta var í fréttunum á seinasta ári með að F-15 þoturnar hérna á Íslandi væru óvopnaðar. Það ástand er búið að vera óbreytt í nokkur ár, þannig að það er dálítið langur tími sem loftvarnir Íslands hafa ekki verið meira en bandarískir flugmenn í mjög hraðskreiðum en sauðmeinlausum maskínum að hrella fuglalífið við strendur landsins!
Eftir að Sovétríkin féllu, hafa Bandaríkin ekki haft neina hernaðarlega ástæðu til að vera með herafla á Íslandi. Eina ástæðan sem þoturnar eru ennþá hérna er vegna þess að íslensk stjórnvöld (lesið: Sjálfstæðisflokkurinn) vill hafa þær áfram. Og af hverju skyldi það vera? Líklegast vegna þess að þoturnar, auk alls klabbsins í kringum þær, skila árlega um 9 milljörðum króna í ríkiskassann. A sama tíma kostar herstöðin Bandaríkjastjórn um um 22 milljarða ÍSK á ári. En inn í þennan pakka eru líka reiknaðar þyrlurnar, og þær eru mikilvægasti hluturinn af þessu öllu saman.
Á meðan þoturnar eru bara upp á punt og til að fæla tilvonandi innrásaraðila frá landinu (hverjir svo sem þeir eru) þá gegna bandarísku þyrlurnar svo mörgum mismunandi hlutverkjum að nærvera þeirra er nánast nauðsyn. Þessir risastóru og háværu þúsundþjalasmiðir eru, að mínu mati, nægilega gild ástæða til að herinn verði áfram á landinu…eins og er. Ég sé nefnilega möguleika sem felur í sér að loka herstöðinni, halda þyrlunum OG auka varnir landsins. Hljómar dálítið skringilega, ekki satt?
Lítum snöggvast á hinar almennu varnir Íslands: Loftvarnir Íslands eru ekkert meira en sjónarspil, sjóvarnir Íslands eru þessi eini bátur Landhelgisgæslunnar sem enn fær að sigla, og að lokum er “landvörnum” Íslands skipt bróðurlega á milli Víkingasveitarinnar og rjúpnaskyttnanna!
Eins og ég sé dæmið, eru varnaráherslunar þær sömu og þær voru fyrir 4 árum síðan: Sjóvarnir (eða sjóeftirlit) hefur hæstan forgang, þar sem um tekjulindina “þeirra” (útgerðarmanna) er að ræða. Ekki viljum við að einhverjir dallar frá Evrópusambandinu komi og steli fisknum okkar, er það nokkuð? Loftvarnirnar og landvarnirnar koma síðan langt á eftir, og munar mjög litlu að hægt sé að segja að þær séu algjörlega óþarfar, nema þá til að halda uppi lögum og reglu eða veiða í soðið.
Af hverju segi ég þetta? Samkvæmt alþjóðlegri könnun sem var gerð í september í fyrra (ég get því miður ekki fundið þessa könnun eins og er) er Ísland í næstneðsta sæti yfir “þjóðir sem eru líklegustu skotmörk hryðjuverkamanna”, með um 0.001% prósent líkur eða eitthvað nálægt því. Aðeins N-Kórea var með minni líkur, eða nákvæmlega engar líkur. Ástæðan fyrir því er einföld: N-Kórea er hernaðarríki sem eyðir meira af landsframleiðslu sinni í hernað heldur en Bandaríkin, og er með stærsta hlutfall sérsveitarmanna í hernum sínum í heiminum. Ef Bandaríkin gera einhverntímann innrás í N-Kóreu, búast þeir við 50% mannfalli. Að ráðast á N-Kóreu á einhvern máta er glapræði. Þetta veit heimurinn, og þess vegna storkar enginn við þeim, ekki einu sinni hryðjuverkamenn.
En hvað með Ísland? Ísland er algjör andstæða við N-Kóreu. Við erum friðsöm þjóð, við höfum engan her, við erum á afskekktum stað og (eins og er) höfum við engin “skotmörk” sem hægt er að ráðast á. Við höfum enga olíu, ekkert gull, enga demanta, óhæfilegar aðstæður til að rækta eiturlyf í stórum stíl, ekkert. Jú, við höfum tvennt. Við höfum herstöð í eigu Bandaríkjamanna, og við höfum fiskinn í sjónum.
Á meðan Bandaríkjamenn haga sér eins og þeir eigi heiminn, mun heimurinn vilja gera þeim mein, hvar svo sem þeir leynast…jafnvel hérna á klakanum (spyrjið Erp Eyvindarson!). Þess vegna eru góðar líkur á því að varnir Íslands muni skána við að loka herstöðinni, eins undarlega og það hljómar. Í stað þess að kaupa þoturnar af Bandaríkjamönnum, ætti ríkið frekar að kaupa þyrlurnar, og styrkja björgunar- og eftirlitsstarfsemi í landinu og á miðum þess. Var ekki einhver ráðherrann að tala um það í seinasta mánuði, að hafa eina björgunarþyrlu fyrir hvert landshorn?
Ég get séð fyrir mér algjörlega herlaust Ísland. Ísland, sem lýsir yfir á alþjóðavísu, að það muni aldrei stofna til neinskonar hernaðar, og muni aldrei líða neinskonar hertól í eða við landið. Ísland sem muni einungis verja sig með mjög einföldum alþjóðasáttmála: Sá sem ræðst á Ísland, er í raun að ráðast á allar þær þjóðir sem munu skrifa undir sáttmálann, og munu nágrannaþjóðir okkar koma okkur til bjargar ef svo gerðist. Þetta er víst sama hugmyndin og stendur á bakvið inngöngu Íslands í NATO, en NATO í dag er ekki hið sama NATO og fyrir fimmtíu árum. Kannske er þörf á að endurskoða þessa hugsun, og uppfæra hana fyrir nýja tíma, að útrýma öllum vafa hjá heimsbyggðinni, að við séum sauðmeinlaus þjóð sem enginn þurfi að óttast.
Nú spyrja eflaust einhverjir sig: “En hvað ef einhver brjálæðingur finnur uppá því að stela lítilli flugvél og hertaka Ísland? Ekki getum við bara leyft þeim að koma hingað?” Til að svara þessu bendi ég á tvo hluti. Fyrst bendi ég á þá staðreynd að við höfum alltaf leyft þeim herskáu sem erindi áttu hingað að koma, án þess að lyfta svo mikið sem einum fingri til varnar. Allt frá Noregskonungi og hinni kristinni trú, til seinni heimstyrjaldarinnar og bresku hermannanna.
Svo bendi ég á þá staðreynd, að líkindareikningur ræður miklu um varnir okkar. Teljið upp hversu oft það hefur verið gerð “innrás” á Ísland síðastliðin þúsund ár, og þið munið þá sjá hversu mikil þörf er fyrir varnir hérna. Við erum ekki Bandaríkjamenn, við erum ekki hrædd þjóð, við erum ekki vænissjúk þjóð.
En ég viðurkenni alveg, að ég sé galla á þessari sýn minni. Þessi galli er sá, að ef nokkrar af þessum þjóðum sem skrifaði undir sáttmálann ræðst inn í Ísland, eða jafnvel allar í heild, hvað þá? Af hverju myndu þær vilja gera það? Svarið liggur í hinni einu sönnu auðlind Íslands, fiskimiðunum.
Ef einhver telur að enginn ásækist fiskimiðin okkar, þá er hinn sami ekki að fylgjast nógu vel með Evrópu. Það er verið að þrýsta á okkur að ganga í Evrópusambandið einmitt svo að fiskimiðin okkar falli í skaut fiskiglaðra Evrópuþjóða. Þessi þrýstingur er lítill í dag, en með hverju árinu sem líður mun þessi þrýstingur aukast. Íbúum Evrópu fjölgar stöðugt, og sömuleiðis munnunum sem þarf að metta. Núverandi fiskimið Evrópu eru núþegar ofveidd og menguð, og þörf er á stærra fiskveiðisvæði. Ísland er töfralausnin á þessu vandamáli EB: Fámenn þjóð með mikið af fiski til að veiða. Vegna manneklu okkar myndum við líklegast aldrei ná fram kröfum okkar í Möppudýrasambandinu, þarsem allar hinar voldugu þjóðir EB munu vera of uppteknar við að veiða allt það sem kvikt er við strendur Íslands til að hlusta á okkur. Það gæti jafnvel endað svoleiðis að þegar hungur fer að steðja að Evrópu verði Ísland tekið með valdi af evrópskum hersveitum!
Þetta hljómar allt hálf draumórakennt hjá mér, en ég sé að þetta er að minnsta kosti framkvæmanlegt. Spurningin er einfaldlega sú, hvort það sé vilji fyrir þessu?