Jæja, æði, nú hefur þessi “uppsveifla” sem allir voru að bíða eftir skollið á með krafti.

Flestir kennararnir í Flugskóla Íslands farnir, skólinn farinn að auglýsa eftir nýjum kennurum, Icelandair, Íslandsflug, Flugfélagið, Atlanta, Bláfugl og guð má vita hvað, alla vantar flugmenn.

En hvernig virkar þetta? Verður brjálað að gera út árið, eða bara út sumarið? Það er ekki hægt að ráða flugmenn endalaust í vinnu.

Dettur þetta kannski strax niður eftir árið og verður jafn erfitt að fá vinnu árið 2005 og það var fyrir 2 árum?

Eða verður þetta kannski bara “eðlilegt”, þ.e. hægur, öruggur og jákvæður vöxtur í greininni, væri það ekki langbest?

Ja ekki veit ég það!

Eitt er a.m.k. víst, staðan er betri í dag heldur en hún var fyrir 1-2 árum, ég man eftir framkvæmdarstjóra hjá íslensku flugfélagi sem sagði mér að láta þetta algjörlega eiga sig, það væri semsagt engin framtíð í þessu.

Það er ekki skortur á spámönnum í þessum bransa, og margir segja manni að fara bara “auðveldu leiðina”, fara í Háskólann og sjá svo til, ég held að það borgi sig ekki ef áhuginn er til staðar.

Eða eins og Stephan G. Stephansson orti ;

“Ég veit það er lánsæld að lifa og njóta,
að leika og hvíla sem hugurinn kýs.
En mér finnst það stærra að stríða og brjóta
í stórhríðum ævinnar mannrauna ís.”

ap