Nýlega lauk ég við að lesa bókina “Og þá flugu Ernir” eftir Jónas Jónasson. Bókin fjallar um Hörð Guðmundsson, flugmann, og flugfélag sem hann rak á Ísafirði í rúman aldarfjórðung, Flugfélagið Erni.
Bókin er vægast sagt frábær og á fljótlega hug manns allan. Fjallað er um hin ýmsu sjúkraflug sem Hörður og hans starfsmenn fóru, oft við erfiðustu aðstæður.
Þrátt fyrir tvö stór áföll leyfi ég mér að fullyrða að hjá félaginu hafi verið að verki hetjur sem margir eiga líf sitt að launa. Ég fékk gæsahúð þegar ég las lýsingar á sumum sjúkraflugunum sem farin voru. Einnig hef ég heyrt sögur af því þegar heyrðist í vélunum fara á loft í sama og engu skyggni og að þær hafi jafnvel lent í túnfætinum á einhverjum sveitabæjum þegar menn á jörðu niðri voru búnir að gefa upp alla von um að hægt væri að lenda á flugvöllum á svæðinu.
Sumt í bókinni er eins og um sé að ræða bestu spennuskáldsögu, en mun þó dagsatt.
Snilldarbók um snilldarmann og snilldarflugfélag.
Til gamans má geta þess að Flugfélagið Ernir hefur hafið starfsemni á ný, í Reykjavík.
Ég ráðlegg öllum sem einhvern áhuga hafa á flugi, björgunarstörfum, og góðum frásögnum að lesa bókina. Ekki skemmir fyrir að hafa landakortið við höndina þar sem leiðum er vel lýst í bókinni.
Snilld.