Þar sem mér hefur gefist ágætur tími til að fara yfir þær hugleiðingar sem hér koma fram á þessum bráðskemmtilega vef um mitt helsta áhugamál, flugið, hef ég einnig tekið eftir því að mikill meirihluti þeirra greina sem hafa verið sendar inn snúast um það hvort flugvöllurinn i Reykjavík eigi að vera áfram á sínum stað í Vatnsmýrinni eða hvort finna eigi aðra lausn á því vandamáli sem margir vilja meina að sé að skapast af staðsetningu hans. Eðlilegt, enda mikið hitamál fyrir þá sem hafa hagsmuna að gæta af málinu(sem reyndar er öll þjóðin í þessu tilfelli :). Fram hafa komið mörg rök fyrir flutningi vallarins sem mörg hver er erfitt að hrekja, en mig langar til að gera tilraun til að taka þau helstu hér saman og reyna að svara þeim á vandaðan og vel ígrundaðan hátt, án nokkurar tilraunar til “skítkasts” eða persónulegra blammeringa…
All righty then…
1. Þegar(eða ef) herinn fer frá Keflavík tapast miklar tekjur varðandi starfsemina þar. Er ekki eðlilegt að álykta að með því sé rekstrargrundvöllur tveggja stórra flugvalla á litlu svæði brostinn?
…Jú út frá viðskiptafræðilegum sjónarmiðum má án efa setja dæmið upp svoleiðis. En þá þurfum við aðeins að staldra við og spá í hver sé lágmarksþjónusta við fólkið í landinu, þ.e. þá sem koma til að standa undir rekstri þessara flugvalla. Jú við viljum hafa millilandaflug til að geta komist af skerinu í sólina öðru hvoru, það er nú algjört lágmark. Og andskotinn hafi það maður verður nú að geta komist líka norður eða austur á land til að kynnast landinu, heilsa upp á ömmu og afa eða whatever… og þar er komist að kjarna málsins, við eigum að geta haft frelsi til að ferðast með þeim ferðamáta sem okkur finnst, eða er, hentugastur hverju sinni. Vegna aðstæðna á Íslandi er ekki hægt að gera út bæði innan-og utanlandsflugi frá sama flugvelli án gífurlegs tilkostnaðar vegna þess að innanlandsflugið gæti ekki þrifist í Keflavík og utanlandsflugið ekki í Reykjavík. Að mínu viti er því staðsetning flugvallarins ekki aðeins spurning um rekstrarlegan tilkostnað heldur lágmarksþjónustu við það fólk sem byggir, og rekur, þetta land. Það er líka dýrt að halda úti grunnskóla á Borgarfirði Eystri en hann er þar samt :)
2.En bíddu nú við… innanlandsflugið er hvort sem er að deyja út???
…þetta er röksemd sem ég hef tekið eftir að er nokkuð algeng hér á vefnum og er einfaldlega ekki rétt. Innanlandsflugið er þvert á móti að styrkja stöðu sína og þurfa menn ekki annað en að skoða farþegaflutningstölur því til stuðnings. Síðan flugið var gefið frjálst 1997 hefur farþegum innanlands fjölgað þótt þeim hafi vissulega fækkað síðan Íslandsflug hætti samkeppni á stærstu leiðunum, enda var þá boðið upp á hlægileg fargjöld sem hefðu ekki einu sinni dugað til að halda uppi flugfélagi í svörtustu Afríku. Eftir fall samkeppninnar fækkaði farþegum til muna, en fer þó fjölgandi síðan þá og mjög lofandi tölur eru farnar að sjást fyrir árið 2003. Til stuðnings máli mínu bendi ég á að Flugfélag Íslands er nú komið með 5 Fokker 50 flugvélar í rekstur í stað þriggja.
3. Er ekki mikil hætta fólgin í því að hafa margra tonna járnflykki svífandi yfir hausamótunum á borgarbúum sbr. atvikið sem nýlega varð þegar flugvél flaug lágt yfir Þingholtin eftir misheppnað aðflug?
…Jú vissulega fylgir því áhætta, en fólk á líka á hættu að fá blómapott í hausinn þegar það labbar með fram blokkabyggingum. Svo eru menn nú alltaf að lenda fyrir bíl…staðreyndin er sú að maður tekur áhættu með því að fara fram úr rúminu á morgnanna og áhættan sem fylgir flugvélunum yfir Reykjavík er alls ekki stór þáttur í þeirri áhættu sem fólk tekur með þvi, það hefur verið rannsakað. Í sambandi við atvikið sem átti sér stað, þ.e.a.s. misheppnaða aðflugið má segja að til sé önnur trygging fyrir því að slík atvik endi ekki illa, því fari skýjahæð niður fyrir ákveðna hæð er völlurinn lýstur ófær og sú hæð er hærri en öll hús í Reykjavík. Þannig ætti að vera útilokað að flugmaður sem er kominn niður úr skýjum yfir Reykjavík lendi á húsi, ætli hann sér það ekki á annað borð.
4. Flugvöllurinn stendur á mjög verðmætu landi sem er nálægt miðbænum og allt of dýrt til að nota undir flugvöll. Af hverju ekki að færa flugvöllinn eitthvað annað eða leggja hann hreinlega niður?
…Þetta er mjög gild spurning og að mínu viti það eina sem málið snýst um. En þarna er aftur komið að spurningunni um hver sé lágmarksþjónusta við fólkið í landinu vs sjónarmið sem telja landið of dýrmætt fyrir flugvöll. Það hafa komið upp margar hugmyndar þar sem gerð er tilraun til þess að koma til móts við báða deiluhópa, en fáar hafa hlotið hljómgrunn. Ég tel þó eðlilegast að menn reyni að koma sér saman um einhvers konar málamiðlun á þessu erfiða máli, t.d. fórna einni braut, færa út í Skerjafjörð o.s.frv. Við höfum tímann til 2016 til að pæla í þessu.
Það hefði verið hægt að gera greinina mun lengri en þetta er mín tilraun til að svara helstu spurningunum á eins hlutlægan hátt og mér er frekast unnt. Vona að þið hafið notið lesningarinnar.
Kveðja frá Egilsstöðum.