Hæ fólkur,

Nú fær maður oft þessa spurningu…hvað kostar að læra að fljúga? Ég spurði sjálfur að þessu þegar ég var að byrja og fékk í sjálfu sér aldrei önnur svör en “jahh…það fer eftir ýmsu”.

Í tilefni af þessu ákvað ég að pósta hér inn smá grein sem sýnir nokkuð nákvæmt kostnaðinn af þessu.

Í fyrsta lagi eru það tímarnir. Í augnablikinu kostar tíminn 7-8 þús. krónur. Í öðru lagi er það svo kennari, sem kostar um 3500 krónur á tímann. Hér höfum við því, segjum 10.500 krónur á tímann.

<b>Hvað þarf ég marga tíma?</b>

OK, nú höfum við komist að því að “tíminn” kostar 10.500 krónur. En hvað þarf maður marga tíma?

Lágmarkið til að fá “sólóið” eru 12 tímar. Það er hins vegar ekki algengt að taka það á 12 tímum. Flestir eru að taka það á 15-20 tímum. Ef við gerum ráð fyrir 18 tímum erum við hér komin í 189.000 krónur. Bættu svo við 5 þús. kalli til FMS fyrir skírteinið, 3500 krónur fyrir log bók, 1500 krónur fyrir sjónflugskort, 7 þús. krónur fyrir AIP, 1200 kall fyrir sakarvottorð, 8200 krónur fyrir annars flokks heilbrigðisvottorð, 2400 krónur fyrir talstöðvarskírteini, 4500 krónur fyrir hnéborð og 2500 krónur fyrir Cessna 152 owners manual og sjáðu fyrir þér reikning upp á 220.300 krónur.

Nú vilja flestir fara aðeins lengra en sóló, enda skemmtilegra að geta flogið án þess að hafa kennara á launum við að fylgjast með manni, auk þess sem það er vinsælt að geta tekið vini sína með.

<b>Einkaflugmaðurinn</b>

Nú höfum við ákveðið að taka einkaflugmanninn. Það er eins gott að veskið sé þykkt, því að lágmarkstímar í einkaflugmanninn eru 45. Hér gildir hins vegar það sama og um sólóið, fæstir eru í lágmarkstímunum. Hér er algengt að vera í ca. 50-60 tímum.

Ef við gerum ráð fyrir 50 tímum (ath. þessir tímar eru með tímunum sem fóru í sólóið), þá erum við komin í 556.300 krónur með öllu ofangreindu.

En það er fleira en tímar sem þarf til að fá einkaflugmannsskírteini. Einnig þarf bóklegt námskeið, sem kostar 100 þús. krónur. Það þarf að taka bókleg próf hjá FMS, það kostar 10.500 krónur. Verklega prófið kostar svo 25 þús. kall, plús 7.000 krónur í leigu á flugvél í það…

OK, OK, hér höfum við sumsé PPL(A) (Private Pilot License, Aeroplane). Svo erum við 673.800 krónum fátækari. Nú er komið að því að fljúga sjálf(ur) á eigin vegum. Þá er líklega best að kaupa sér headset, því varla er hægt að treysta á að skólinn láni slíkt að eilífu. Þú vilt auðvitað merkjavöru, og kaupir því hið klassíska David Clark HB-10 13.4, sem kostar 42.500 krónur.

Þú situr uppi með reikning upp á 716.300 krónur. Njóttu.

<b>Hvað tekur svo við eftir einkaflugmanninn?</b>

Fljótlega eftir að þú tekur einkaflugmannspróf kemstu að því, að þú þarft áritun fyrir nætursjónflug. Þetta kemur til af því, að þú býrð á Íslandi, og á Íslandi er yfirleitt nótt. Í flugi er nótt skilgreind þannig, að sólin er 4 gráður undir sjóndeildarhringnum. Það þarf ekki mikið til að sjá, að það er nokkurn veginn viðvarandi ástand mikinn hluta ársins hér á hjara veraldar.

Nætursjónflugsáritun er 5 tímar með kennara á 10.500 krónur tíminn…52.500 krónur. Við erum því komin í 768.800 krónur í heildina.

Þetta dugar um sinn, en einhverntíman kemur að því, að þú ert orðin(n) leið(ur) á því að veðrið sé alltaf að stoppa þig, því að það þarf að vera nokkurn veginn heiðskýrt til þess að þú megir fljúga. Aftur kemur að búsetuþættinum - Ísland býður ekki alltaf upp á fullkomið veður til sjónflugs. Þú dembir þér því út í blindflugið…

<b>Blindflugsnámið…</b>

Blindflu g er hvorki meira né minna en 60 tímar, þar af mega vera 25 í hermi. Hermirinn er svipað dýr og flugvélin, svo við gerum ráð fyrir því að hér kosti tími með kennara 10.500 krónur eins og áður. Hér höfum við þó rangt fyrir okkur, því að hér kostar kennarinn 4000 krónur. Heildartímakostnaður er því 11 þús. krónur á tímann, eða 66 þús. krónur í heildina.

Þú andar léttar og prísar þig sæla(n) með að hafa sloppið svo auðveldlega, en þú ert ekki komin(n) með skírteinið í hendurnar enn. Bóklegi hlutinn af blindflugi er um 500 klst., og er prófgjald úr því 15.500 krónur. Auk þess greiðir þú 25 þús. krónur fyrir verklegt próf, og leggur til flugvél (7 þús.). Við erum því komin í 113.500 krónur, plús námskeiðsgjaldið. Þar sem enginn á Íslandi býður upp á blindflugsnámskeið eitt og sér neyðist þú til að taka bóklegt atvinnuflugmannsnámskeið, sem eru 1000 tímar, tekur 8 mánuði og kostar 700.000 krónur. Hér höfum við því reikning upp á 813.500 krónur til viðbótar, eða 1.582.300 krónur í heildina.
Við það bætir þú svo 5 þús. krónum til FMS fyrir að breyta skírteininu og ferð í 1.587.300.

<b>En hvað ef ég vil stærri vél en þessar allraminnstu rellur?</b>

Jæja. Þá er auðvitað bara eitt að gera, og það er að taka áritun á fjölhreyfla loftför. Sem betur fer er þetta ódýr pakki, 6 tímar með kennara. Þessir tímar þurfa auðvitað að vera á fjölhreyfla flugfar, sem kostar 25 þús. krónur á tímann. Kennarinn kostar 4000 krónur. Þetta er því 29 þús. krónur á tímann, sem gerir 174.000 krónur í heildina. Að sjálfsögðu tekur svo FMS sinn 5 þús. kall, svo þetta eru 179.000. Ódýrt, ha? :-)

Heildarupphæð reikningsins fer að nálgast það að vera svimandi, en hún er 1.766.300 krónur. Bíddu bara, það er nóg eftir…

<b>Blindflug á fjölhreyfla…</b>

Þú vilt auðvitað geta flogið fjölhreyfla flugvélinni í blindflugi líka, ha? Hér ætti að vera hægt að sleppa með á að giska 15 tíma í blindflugi með kennara, 29 þús. krónur tíminn, 25 þús. krónur í prófgjald og 25 þús. krónur fyrir flugvél í prófið. FMS tekur sinn venjulega fimmþúsundkall, svo heildin er 490.000 krónur fyrir þetta.

Reikningurinn hækkar stöðugt, og er farinn að kalla á talsverðan svita. Þegar hér er komið hljóðar hann upp á 2.256.300 krónur.

<b>Fyrst maður er kominn svona langt…</b>

Nú skulum við stoppa aðeins og skoða stöðuna. Þú ert komin(n) með 139 tíma í heildarfartíma, þar af ca. 20 sem flugstjóri (þegar þú ert með kennara er hann flugstjóri). Þú ert búin(n) með bóklega atvinnuflugmanninn og hefur fjölhreyfla blindflugsáritun. Þín formlega skammstöfun er því PPL(A), ME(IR) (Private Pilot's License, aeroplane, multi engine instrument rating).

Upp í næsta skref, atvinnuflugmanninn, þarftu aðeins að taka örlítið meiri þjálfun og smá reynslu…þú dembir þér því í það…

<b>Atvinnuflugmaðurinn</b>

Til að verða atvinnuflugmaður þarf maður að hafa 200 tíma reynslu, þar af 100 tíma sem flugstjóri. Einnig þarftu að taka 15 tíma með kennara, þar sem er farið í flóknari flugleiðsögu og æfingar en fyrir einkaflugmannsprófið. Þú tekur 15 tímana á einshreyfilsvél (komin(n) með fjölhreyfla áritun, svo þú þarft ekki meiri þjálfun þar), það kostar 11 þús. tíminn, með kennara, eða 155 þús. krónur.

Nú er bara að safna tímum, þú þarft að safna 80 tímum í viðbót, sem flugstjóri. Góðu fréttirnar eru þær, að þú þarft ekki að hafa kennara með þér í þetta. Hér er tíminn á 7 þúsund krónur. Svo er það 25 þús. í prófgjald og 5 þús. fyrir skírteinið. Hér þarftu líka 1. flokks heilbrigðisskírteini, sem kostar um 30 þúsund. Þetta er samt bunch af tímum, heildarreikningurinn er 620.000.

Jæja, nú ertu kominn með 219 tíma, þar af 80 tíma sem flugstjóri. Þú ert atvinnuflugmaður með fjölhreyfla blindflugsáritun, og skuldar 2.876.300 krónur.

Fyrst þú ert kominn með þetta…er þá ekki alveg eins gott að byrja bara að vinna sem flugmaður? Þetta er hálaunað starf og eins gott að byrja bara að lifa ljúfa lífinu, ekki satt?

Ekki alveg! Flugfélögin líta ekki við þér með rassgatinu fyrr en þú ert kominn með a.m.k. 700-800 tíma reynslu.

<b>Öflun reynslu…</b>

Þú ert með 219 tíma í heildarfartíma, þar af 80 tíma sem flugstjóri og 6 tíma á fjölhreyfla vélar.

Þú vilt því safna um 500 tímum, helst sem flest sem flugstjóri og ekki verra ef það er á fjölhreyfla flugvél. Ef þú tækir 200 tíma á fjölhreyfla og 300 á einshreyfils er það (200 * 25.000) + (300 * 7000) = 7.100.000 krónur. Þú ert ekki reiðubúinn til að greiða þetta verð. Þú ert því sniðug(ur) og færð þér flugkennararéttindi.

Þar eru 30 tímar (25 með kennara og 5 með öðrum flugkennaranema). Þetta kostar 310.000 krónur, auk bóklegs námskeiðs sem kostar (á að giska) 50 þús. krónur. Sumsé, 360 þúsund, plús 5 þús. til FMS fyrir að breyta skírteininu.

Heildarreikningurinn er kominn í 3.241.300 og þú ert með 249 tíma, þar af 80 tíma sem flugstjóri og 6 tíma á fjölhreyfla vél.

<b>Tímasöfnun</b>

Þú ferð að kenna fólki að fljúga. Þú þiggur fyrir það lágmarkslaun, en þú færð þó a.m.k. ókeypis tíma sem flugstjóri á einshreyfils vélar. Ef þú ert dugleg(ur) og heppin(n) flýgur þú kannski 350-400 tíma á ári. Þú þarft líka að safna tímum á fjölhreyfla vélar og flýgur því 200 tíma á þeim. Það kostar þig 5.000.000 krónur.

Eftir eitt ár af vinnu á lágmarkslaunum sem duga enganveginn til að borga af flugláninu þínu skuldar þú 8.241.300 krónur, en þú hefur atvinnuflugmannsskírteini með fjölhreyfla blindflugsáritun og 800 tíma reynslu, þar af 200 sem flugstjóri á fjölhreyfla flugvél, 6 í “dual” á fjölhreyfla flugvél, 431 tíma sem flugstjóri á eins hreyfils vél og 163 tíma í “dual” á eins hreyfils vél.

Nú ættir þú að geta fengið vinnu.

<b>Að fá vinnu</b>

Nú er komið að því að fara út á vinnumarkaðinn. Þú ert í harðri samkeppni við um það bil skrilljón aðra nýbakaða flugmenn, sem allir eru jafnhungraðir og skuldugir og þú. Einnig þarftu að keppa við flugmenn með reynslu af vélum flugfélaganna, sem hefur verið sagt upp vegna niðurskurðar. Æði, ha?

Það fyrsta sem þú gerir er að sækja um hjá öllum. Og þá meina ég öllum. Bluebird, Atlanta, Flugleiðum, Flugfélagi Íslands, Íslandsflugi, Iceland Express…meira að segja Ryanair.

Að lokum færðu vinnu.

<b>Kominn með vinnu…hvað nú?</b>

Nú er komið að því að taka áritun (type rating) á vélina sem þú átt að fljúga í nýju vinnunni þinni. Kannski varstu heppinn og lentir á flugfélagi sem borgar fyrir þig áritunina. Kannski.
Allar líkur eru á því að þú sért ekki svo heppinn, sérstaklega í okkar samfélagi, þar sem það er lítið mál að fá flugmenn í vinnu með áritun á flugvélarnar sem eru í notkun. Þú verður því að borga þína áritun sjálf(ur). Þú ferð því til útlanda á eigin kostnað og borga um og yfir 2 og hálfa milljón fyrir áritun.

Nú skuldar þú 10.741.300 krónur, en þú ert farin(n) að fljúga Boeing 757, eða einhverju álíka og byrjaður/uð að þéna ágætlega.

Því miður fyrir þig ert þú í hópi reynsluminnstu flugmanna flugfélagsins þíns og því með þeim fyrstu sem fara næst þegar það verður verkefnaskortur, eða samdráttur. Velkominn aftur á götuna.

Langar þig ennþá til að læra að fljúga? :-)


Kristófer Sigurðsson #4408