Er Spanni KR-ingur? Mér fyndist nú algert frumatriði að byrja á því að byggja á öllum fótboltavöllum borgarinnar, þar er nóg pláss fyrir háreistar blokkir.
Hvað varðar það að minnka áhættuna furða ég mig á því hvers vegna Spanni fer yfir höfuð út úr húsi.
Hvers vegna staglast Spanni á þessu með byggingarnar sem eru undir lokastefnu einnar brautarinnar? Ég held það sé óhætt að segja að ástæðan fyrir því að málum er svona háttað er hrein og klár tilviljun, og ástæðan fyrir því að “ekkert er gert við því” sé einmitt sú að flugið er öruggasti ferðamáti sem til er og að líkurnar á að flugvél fljúgi á einmitt eitt áðurnefndra húsa séu svo stjarnfræðilega litlar að það taki því ekki einu sinni að ræða það. Hræðsluáróður af þessu tagi segir allt sem segja þarf um viðkomandi sem kyndir undir slíku. Það er hart að segja það, en flugslys innan borgarmarkanna yrði einmitt olía á eld skoðanabræðra Spanna.
Flugvöllurinn hefur margsinnis sannað gildi sitt og ég vil taka það skýrt fram að það dugar engan veginn að tala um að Keflavík taki við hlutverki Reykjavíkurflugvallar því það mun ekki gerast fyrr en byggðir Keflavíkur og Reykjavíkur hafa náð saman, í fyrsta lagi. Þessir tveir vellir eru mikilvægir sem varavellir fyrir hvern annan. Það sannast mörgum sinnum á ári. Svo vil ég benda á að þyrlur eru jú magnað björgunartæki, en þær fljúga mun hægar en flugvélar og hafa sjaldan ef nokkurn tímann sama flugdrægi og venjulegar flugvélar, fyrir utan að kostnaður pr. flugstund er skelfilega hár miðað við flugvélar. Það verður líka að taka það með í reikninginn. Hverju hefur þjóðarbúið efni á?
Það sorglega í þessu er að þú Spanni góður, virðist ekki hafa neitt vit á flugi, þ.e. tæknilegum atriðum sem skipta verulegu máli, en hefur að sjálfsögðu rétt á þínum skoðunum og þær ber að virða, þó ég sé ósammála. Settu þig í spor okkar flugmanna sem þurfum að lifa við það að t.d. samgöngunefnd Alþingis og fleiri góðir aðilar ráðskast með allt sem okkur kemur við án þess svo mikið sem hafa hundsvit á því hvað við erum að gera. Einkaflugmenn, svifflugmenn, þyrluflugmenn, svifdrekamenn, mótorsvifdrekamenn, atvinnuflugmenn, flugkennarar, listflugmenn, flugmenn í sjúkra- og leiguflugi o.fl. þurfa allir að búa við sömu vanþekkingu og þröngsýni politíkusa og fólks eins og þér þegar kemur að málum sem skipta verulegu máli fyrir flugið. Hvernig þætti þér ef t.d. bíllinn þinn bilaði og þér yrði sagt að fá endurskoðanda til að gera við hann? Er ekki eitthvað bogið við það? Það er ekkert skrýtið þó tilfinningar manna ráði miklu í þessu máli því það er lítið sem ekkert hlustað á flugmenn, sem eiga að teljast sérfræðingar í faginu, og það er sorglegt í nútímaþjóðfélagi.
Þú mátt vera viss um það Spanni, að það fólk sem leitar til þín vegna vinnu þinnar, sérhæfingar, eða þekkingar, gerir það því það treystir því að þú finnir lausn á málum þess. Hvernig væri nú að treysta okkur flugmönnunum til að leysa vandamálin í flugmálunum með því t.d. að taka mark á okkar sjónarmiðum? Það væri líka góð byrjun að fá fastan fulltrúa í samgöngunefnd Alþingis og ef samgönguráðherra gæti nú opnað aðeins fyrir sérfræðiaðstoð með því að skipa vel metinn flugmann (eða flugmenn) sem ráðgjafa sína í þeim málum. Er ekki vaninn sá að leita þangað sem þekkingin er?
En segðu mér nú í trúnaði Spanni, ertu arkitekt, byggingarverkfræðingur eða verktaki sem gæti mögulega hagnast á byggð í Vatnsmýrinni?