Nú berast tíðindi af mönnum hér og þar sem eru að fá alls kyns tilboð frá Evrópu um vinnu. Flestir eru frá Flugleiðum sem hafa verið boðaðir í viðtöl og einhverjir fengið tilboð um vinnu í beinu framhaldi. Ansi margir af þeim sem sagt var upp hjá Flugleiðum eru komnir eða á leiðinni til Atlanta. Tveir voru farnir til Ryanair, þrír eru hjá Flugfélagi Íslands, þrír eru hjá Bluebird, einn hjá VLM o.s.frv. Sú merkilega staða gæti komið upp að Flugleiðir hefðu ekki mannskap til að bjarga sumrinu!!! Flugleiðir hafa reyndar gert eitthvað í þessu með því að þjálfa þá sem voru á Fokker yfir á 757 og vonandi dugar það. En ástæðan fyrir þessum vandræðum er fyrst og fremst sú, að þeir flugmenn sem eru í vinnu annars staðar vilja flestir vera þar áfram í launalausu leyfi til að hafa tryggari vinnu yfir veturinn í stað þess að missa sínar stöður hjá Flugleiðum aftur í haust, eins og virðist ætla að verða ráðandi stefna hjá Flugleiðum. Þetta var nú eiginlega vitað fyrirfram, en yfirmenn Flugleiða halda að menn sitji heima með dillandi rófuna eftir að fá góðfúslega bein til að naga yfir sumartímann. Sú tíð er greinilega liðinn. Hvers vegna eiga flugmenn Flugleiða að sýna fyrirtækinu hollustu þegar fyrirtækið sýnir þeim enga hollustu? Það er sömuleiðis blaut tuska framan í flugmenn félagsins þegar allir starfsmenn þess árið 2002 fá 50 þús. krónur að gjöf í formi hlutabréfa, en flugmenn sem hafa sumir unnið hjá félaginu á fimmta ár fá ekkert, vegna þess að þeir unnu ekki 12 mánuði hjá félaginu árið 2002!!! Ætlar yfirstjórn Flugleiða að fara sömu leið og United, fara með starfsmennina eins og rusl, og gereyðileggja þann litla góða anda sem er í fyrirtækinu með svona uppátækjum? Vonandi sjá yfirmenn Flugleiða ljósið og fara að haga sér eins og menn. Munið bara að það eru til fleiri flugfélög en Flugleiðir. Starfmannastefna og atvinnuskilyrði eru stundum meira virði en laun og “klakinn” sem við búum á. Ég hvet ykkur sem eruð atvinnulausir til að leita vel á vefnum og sækja um ALLT sem þið gætuð hugsað ykkur að vinna við í fluginu. Reynið að fjölga valmöguleikunum og afla ykkur reynslu þar sem reynsluna er að fá. Það þýðir ekkert að sitja bara heima í litla Íslandi og vona það besta. Þú ræður þínum örlögum að miklu leyti sjálf(ur). Þær vefsíður sem ég man eftir í svipinn eru þessar:
www.climbto350.com - www.parc-group.com - www.rishworth.co.nz - www.aviationjobsearch.com - www.globalpilotjobs.com - www.aviationjobsonline.com - www.directpersonnel.com - www.jobpilot.co.uk - www.pilotpointer.com
Þetta ætti að hjálpa einhverjum. Merkilegt nokk, að þá eru sum félög að bjóða upp á þjálfun viðkomandi flugmanna, en með skuldbindingu til þriggja ára reyndar. En hey! Hvaða máli skiptir það ef maður kemst í vinnu? Er það ekki aðalatriðið?
Gangi ykkur öllum vel sem eruð að leita.