Sælir
Hér eru fyrstu fréttir frá stöðvarstjóra Skeljungs. FÍE er að reyna að afla allra þeirra upplýsinga sem hægt er, og stefnum að fundi með fulltrúum Skeljungs í byrjun næstu viku. Þangað til vitum við eftirfarandi:
Það sem gerðist var að olíufélögin tóku árlegt sýni úr avgas tönkum í Reykjavík. Gildi sem kallast “Reid vapour pressure” eða uppgufunarþrýstingur reyndist vera undir viðmiðunarmörkum. Þetta er dularfull stærð, sem enginn virðist kannast við, en er einn af 15-20 liðum sem eru prófaðir við reglubundið eftirlit. Gildið á að vera á milli 0,55 og 0,7 en reyndist vera 0,5. Bensínið sem um ræðir eru gamlar birgðir, sem byrjað var að nota um mánaðamótin október-nóvember. Uppgufunarþrýstingur lækkar með aldri, þannig að þetta segir okkur að við fljúgum ekki nóg.
Afleiðing af þessu er að vélar eru verri í gang, og hugsanlegar gangtruflanir í mikilli hæð. Athugað hefur verið með möguleika á íblöndunarefnum eða öðrum ráðstöfunum til að gera það bensín sem til er á landinu nothæft, en það virðist ekki vera hægt. Verið er að bíða eftir niðurstöðum á prófunum utan af landi. Þegar er vitað að bensín á Ísafirði er ónothæft, en nothæft á Rifi. Þar eru hins vegar mjög litlar birgðir.
Það þarf sérstök skip til að flytja flugvélabensín til landsins, vegna blýinnihalds. Olíufélögin eru á útopnu að reyna að útvega nýjan farm eins fljótt og hægt er. Það tekur að minnsta kosti tvær vikur, en gæti tekið lengri tíma.
Á meðan er einkaflug og flugkennsla á landinu lamað, svo ekki sé talað um Flugfélag Vestmannaeyja, Jórvík og Mýflug. Ekki gott mál.
Ég pósta nýjar fréttir hér, og reyni jafnvel að endurnýja vef FÍE um leið og eitthvað gerist í málinu.
Kristbjörn Gunnarsson