<font size=“-1”>Innlent | 28.11.2002 | 14:55</font>
Rannsóknarnefnd flugslysa (RNF) hefur lagt fyrir Flugmálastjórn að yfirfara ákvæði flugrekstrarbókar Flugleiða varðandi hljóðrita flugvéla félagsins er slys eða flugatvik eiga sér stað og einnig þjálfunaraðferðir í því sambandi. Kemur þetta fram í bráðabirgðaupplýsingum, sem RNF hefur birt vegna atviks TF-FII við Baltimore 19. október sl.
Þar segir að þegar rannsaka átti hljóðritann eftir lendingu þotunnar í Baltimore, þar sem hann var tekinn úr flugvélinni, hafi hljóðritinn verið yfirskrifaðir og því gagnslaus við rannsókn atviksins. Nytsamlegar upplýsingar hafi aftur á móti verið að fá á flugritanum, sem nemur upplýsingar um starfsemi þotunnar.
Í flugtaki, brottklifri og upphafi farflugs TF-FII á leið frá Orlando í Flórída til Íslands urðu flugmennirnir stöku sinnum varir við villandi upplýsingar um hraða þotunnar á mælum í stjórnborði hennar. Sendu stjórntölvur hennar nokkur boð frá sér í þessu sambandi varðandi hraðastilli, hallastýrisstillingar og hæðarstýri.
Rétt eftir að heimild hafi verið fengin til að hækka flugið úr 33 þúsund fetum í 37 þúsund fet hafi viðvörun um of mikinn flughraða kveðið við í klifrinu og samsvarandi viðvörun birst á stjórnborðskjá. Á sama tíma var sýndur hraði á stjórnmæli aðstoðarflugmannsins 220 hnútar og einnig á varamæli.
Flugstjórinn rauf sjálfstýringu þotunnar úr sambandi þegar hér var komið sögu og einnig sjálfstýringu eldsneytisgjafar. Vart var því lokið er stýrisstöngin tók að hristast til marks um ofris. Flaug hann þotunni gegnum ofrisnötrið og náði fullri stjórn á þotunni eftir um 90 sekúndur en þá hafði hún lækkað flugið í 30.000 feta hæð, eða um 7.000 fet.
Við skoðun á þotunni á jörðu niðri kom í ljós aðskotahlutur í svonefndu stemmuröri, sem er hluti af hraðamælabúnaði flugvélarinnar, og það því hálfstíflað. Segir RNF að í bráðabirgðaupplýsingunum felist ekki endanlegar niðurstöður og geti þærbreyst samhliða frekari rannsókn málsins.
<b>Tekið beint af mbl.is</