Ég er búinn að vera með mitt í Excel í mörg ár. Hver mánuður er dálkur. Efri línurnar eru allar útgjöld, t.d. sími, rafmagn, hiti, áskriftir, sjónvarp, net, afborganir af lánum, matur ofl.
Neðri línurnar eru tekjur, laun, afgangur síðasta mánaðar, endurgreiðslan frá skattinum o.s.frv. Áætlun heldur svo áfram eins marga mánuði og ég vil með áætlaðar upphæðir fyrir hverja línu í framtíðinni og áætlaðan afgang af hverjum mánuði yfir á næsta.
Þannig get ég séð fyrirfram útgjöld sem koma bara einu sinni til tvisvar á ári og safnað fyrir þeim áður en þau detta í hausinn á mér. Ég get líka séð strax ef ég er að eyða of miklu og trappað það niður. Það er líka mjög auðvelt að sjá hvað maður eyðir í hvað og hvar maður getur sparað.
Ég færi inn útgjöldin daglega, yfirleitt tek bara kvittun ef ég kaupi eitthvað svo ég muni það þegar ég kem heim eða alla vega giska ca. á hvað ég eyddi þann daginn.
Um mánaðamót fer ég yfir stöðu reikninga og kreditkorta, færi inn afgang síðasta mánaðar á næsta mánuð og stemmi af.