Hér er svarið sem ég fékk í gær frá ríkisskattstjóra.
—————————————————————-
Sæll Volume
Gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra er lagt á samkvæmt lögum nr. 125/1999, um
málefni aldraðra. Í III. kafla laganna segir:
III. kafli. Framkvæmdasjóður aldraðra.
9. gr. Framkvæmdasjóður aldraðra skal stuðla að uppbyggingu og efla
öldrunarþjónustu um land allt.
Fjármagni úr Framkvæmdasjóði aldraðra skal varið til að styrkja:
1. Byggingu þjónustumiðstöðva og dagvista, sbr. 13. gr., og byggingu
stofnana fyrir aldraða, sbr. 14. gr.
2. Nauðsynlegar breytingar og endurbætur á húsnæði sem notað er til
þjónustu fyrir aldraða.
3. Sveitarfélög og heilsugæslustöðvar til að þróa skipulagða
heimaþjónustu fyrir aldraða.
4. Rekstur stofnanaþjónustu fyrir aldraða í sérstökum tilvikum, sbr. 14.
gr.
5. Rannsóknir, kennslu og kynningu á öldrunarmálum.
6. Önnur verkefni sem eru í samræmi við markmið laganna.
Um framkvæmdir skv. 2. mgr. fer, eftir því sem við á, samkvæmt lögum um
skipan opinberra framkvæmda.
10. gr. Framkvæmdasjóður aldraðra fær tekjur af sérstöku gjaldi sem
skattstjórar leggja á þá sem skattskyldir eru skv. 1. gr. laga nr. 75/1981,
um tekjuskatt og eignarskatt. Skal gjaldið nema [4.578 kr.](superscript: 1)
) á hvern gjaldanda og kemur til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár
hvert.
Undanþegin gjaldinu eru börn innan 16 ára aldurs og þeir sem eru 70 ára og
eldri í lok tekjuárs. Einnig eru þeir undanþegnir gjaldinu sem hafa
tekjuskattsstofn sem nemur 701.594 kr. eða lægri upphæð á tekjuárinu 1997.
Tekjuviðmiðun þessi skal breytast árlega í samræmi við þær breytingar sem
verða á persónuafslætti skv. A-lið 68. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt
og eignarskatt, með síðari breytingum, og innheimtuhlutfalli viðkomandi
staðgreiðsluárs samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 9. gr. laga nr. 45/1987, um
staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum. Skattstjóri skal
fella gjald þetta niður af þeim elli- og örorkulífeyrisþegum, undir 70 ára
aldri, sem dveljast á dvalar- og hjúkrunarheimilum.
Við álagningu og innheimtu gjalds þessa skulu gilda sömu reglur og um
álagningu og innheimtu tekjuskatts samkvæmt lögum nr. 75/1981, með síðari
breytingum, eftir því sem við á. Í stað tíu gjalddaga skal þó gjalddagi
vera einn, 1. ágúst ár hvert. Dragist framlagning álagningarskrár fram yfir
1. ágúst færist gjalddagi til 1. dags næsta mánaðar eftir framlagningu
álagningarskrár.
Tekjur Framkvæmdasjóðs aldraðra skulu einnig vera frjáls framlög, aðrar
tekjur er til kunna að falla og vaxtatekjur.
Í miðmánuði hvers ársfjórðungs skal fjármálaráðuneytið skila
Framkvæmdasjóði aldraðra fjórðungi tekna sjóðsins á því ári.
(superscript: 1))L. 172/2000, 1. gr.
11. gr. Framkvæmdasjóður aldraðra skal vera í vörslu Tryggingastofnunar
ríkisins. Samstarfsnefnd um málefni aldraðra annast stjórn sjóðsins, sbr.
3. tölul. 5. gr. Þegar nefndin fjallar um málefni Framkvæmdasjóðs aldraðra
skal fulltrúi tilnefndur af fjárlaganefnd Alþingis taka sæti í henni.
Samstarfsnefnd um málefni aldraðra gerir árlega tillögur til heilbrigðis-
og tryggingamálaráðherra um úthlutun.
12. gr. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra setur með reglugerð nánari
ákvæði um Framkvæmdasjóð aldraðra og setur honum jafnframt starfsreglur.
Í 11. gr. laganna kemur fram að Framkvæmdasjóður aldraðra er í vörslu
Tryggingastofnunar ríkisins. Þú verðu því að snúa þér til þeirra með
frekari fyrirspurnir varðandi sjóðinn.