Skuldabréfamarkaður - Hvar eru tækifærin?
Skuldabréfamarkaður / Hvar eru tækifærin: Árið 2001 stefnir í að verða ár skuldabréfamarkaðarins. Skuldabréfasjóðir hafa sýnt framúrskarandi ávöxtun á árinu eða á bilinu 20 til 25% uppreiknað á ársgrundvöll. Ástæðan fyrir þessum góða árangri má rekja til lækkandi ávöxtunarkröfu á skuldabréfamarkaði. Ástæður lækkandi ávöxtunarkröfu eru nokkrar. Fjárfestar hafa sýnt skuldabréfum aukinn áhuga og er lægð á hlutabréfamörkuðum ein ástæða hans. Fé hefur því streymt úr hlutabréfum í skuldabréf bæði hér heima og erlendis. Frá áramótum hefur orðið samdráttur á húsnæðismarkaði og er útgáfa nýrra húsbréfa 12% lægri en á sama tíma í fyrra. Minna framboð stuðlar að lækkandi ávöxtunarkröfu eins og raunin hefur verið síðustu vikur og sjá má á meðfylgjandi mynd. Seðlabanki Íslands lækkaði vexti í byrjun apríl um 50 punkta og hafði það áhrif á ávöxtunarkröfuna til lækkunar. Ávöxtunarkrafa spariskirteina hefur einnig lækkað mikið það sem af er ári og sést þróun kröfunnar á myndinni hér til hliðar. Mjög mikil lækkun er á ávöxtunarkröfu RIKS 03 og RIKS 05. Flestir efnahagsvísar á Íslandi benda til að ávöxtunarkrafa á skuldabréfamarkaði muni halda áfram að lækka á árinu og lítur því út fyrir að ávöxtun skuldabréfasjóða muni áfram vera góð. Mikil veiking krónunnar í kjölfar breyttrar gengisstefnu Þann 28. mars síðastliðinn tók Seðlabanki Íslands upp flotgengisstefnu og hætti þar með að tryggja að gengi krónunnar haldist á ákveðnu bili. Í kjölfar þessara breytinga hefur krónan sveiflast mikið og veikst umtalsvert. Gert er ráð fyrir að 40% af veikingu krónunnar skili sér í hærra verðlagi þar sem innflutningur hækkar í verði. Eins og sést á meðfylgjandi mynd hefur ávöxtunarkrafa spariskírteina sem eru verðtryggð bréf lækkað mikið frá áramótum en ávöxtunarkrafa ríkisbréfa sem eru óverðtryggð hækkað frá því í lok mars. Neðsta línan á myndinni hér til hliðar sýnir hvað verðbólguálag (munur á RIKB 03 og RIKS 03) hefur hækkað frá því í lok mars. Hefur þessi þróun orðið eftir mikla veikingu krónunnar og mun meiri hækkun á vísitölu neysluverðs síðustu tvo mánuði en markaðsaðilar spáðu. Það getur verið skynsamlegt að fjárfesta í verðtryggðum skuldabréfum á tímum mikillar óvissu í gengismálum og veikingar krónunnar. Ef krónan veikist leiðir það til aukinnar verðbólgu sem verðtryggð skuldabréf eru varin fyrir að miklu leyti. Fjárfesting í skuldabréfum getur því verið vænlegur kostur þegar gengi krónunnar er að veikjast eins og raunin hefur verið undanfarið. Landsbréf býður upp á breytt úrval skuldabréfasjóða. Má þar t.d. nefna Reiðubréf, Öndvegisbréf, Sparibréf og Markaðsbréf 1-4. Reiðubréf, Sparibréf og Öndvegisbréf eru boðin í áskrift en Markaðsbréfin eru einkum ætluð fagfjárfestum. Markaðsbréfin eru sett upp á þann hátt að hver sjóður myndar skuldabréfasafn sem inniheldur mismunandi binditíma allt eftir þörfum hvers og eins. Markaðsbréf 1 eru með stysta binditímann en Markaðsbréf 4 þann lengsta.