Íslandsbanki hefur verið hvað duglegastur að gefa út spár um gengi krónunar. Í morgunpunktum Íslandsbanka núna á fimmtudag birtist þessi grein:
Áfram hækkar gengi krónunnar
Gengi krónunnar hefur hækkað mikið í morgun og síðustu daga en það má rekja til fregna af vaxandi útgáfu erlendra skuldabréfa í íslenskum krónum. Útgáfan hefur vaxið um níu milljarða króna í vikunni og nemur nú alls um 97 milljörðum króna en það jafngildir um 10% af landsframleiðslu Íslendinga í ár. Gengi krónunnar stendur nú hærra en það hefur gert síðan í upphafi síðasta áratugar og hefur hún aldrei verið hærri á þeim tíma sem gengi hennar hefur ráðist á markaði. Gengisvísitalan stendur nú í um 101,3 stigum. Mikil velta hefur verið á gjaldeyrismarkaði síðustu vikurnar. Til dæmis hefur meðalvelta á dag síðustu fimm vikur verið 10,5 ma.kr. samanborið við 7 ma.kr. veltu á dag að meðaltali það sem af er árs.
Seðlabankinn mun sennilega hækka stýrivexti sína enn frekar á næstu vikum til að slá á verðbólgu í hagkerfinu. Vextir bankans eru nú 10,25% og teljum við að hann muni hækka þá í 11% fyrir áramót og fari hæst með þá í 12% á næsta ári. Frekari vaxtahækkun styður við gengi krónunnar á næstu vikum ásamt líkum á frekari skuldabréfaútgáfu erlendis í krónum. Sennilegt er að gengisvísitalan fari tímabundið í tveggja stafa tölu á næstunni. Gengi krónunnar er engu að síður ofmetið um þessar mundir m.v. langtímavirði og teljum við að gengið muni byrja að lækka á síðari hluta næsta árs og muni lækka verulega á árinu 2007.
Ég tók erlent lán fyrir 25 dögum síðan til að fjármagna kaup á fasteign. Síðan þá hefur krónan styrkst um 5% gagnvart þeim myntum sem ég valdi í mína körfu. Það er á hreinu að ég mun skipta þessu yfir í íslenskar krónur í lok febrúar, byrjun mars 2006 og halda láninu í krónum í 2 ár eða svo. Afhverju kunna einhverjir að spyrja´, en svarið er einfalt. Á þeim tímapunkti er spá manna að gengisvísitalan verði kominn í tveggja stafa tölu. Það er nægur hagnaður fyrir mig og því vill ég verja mig tapi næstu 2 ár og hafa lánið í þeirri mynt sem ég hef mínar tekjur í. Ef að þessi skellur kemur þá er ekki gott að skulda í erlendum myntum. Það er samt klárt að þegar krónan hefur veikst aftur að þá mun ég hiklaust skipta aftur yfir í erlendarmyntir því að vaxtamunurinn er svo gríðarlegur að það er engu lagi líkt. Í dag er ég að borga um 2% vexti af erlenda láninu mínu en væri að borga lágmark 5% + vísitölu í íslenskum. Hvaða rugl er það.
Kveðja,
Xavie