Byrjaðu á að athuga hvert peningarnir fara. Skrifaðu niður allt sem þú kaupir. Það er að sjálfsögðu hundleiðinlegt en ómetanlegt þegar þú ferð að skoða hvar þú getur skorið niður.
Hlutir sem má skera niður gætu verið áskriftir að t.d. tímaritum, blöðum, sjónvarpi, símanotkun, rafmagnsnotkun, óþarfa akstur, jafnvel bíleign. Háar afborganir af lánum má lækka með því að semja um skuldbreytingar við bankann, fá eitt lán til að borga upp mörg. Að sjálfsögðu öll óþarfa kaup og nú er að velta öllu fyrir sér þrisvar. Vantar mann virkilega einhvern geisladisk eða flík? Það er líka hægt að spara með því að skera niður sjoppuferðir í hádegi og mæta í staðinn með smurt að heiman. Einnig má spara með því að baka brauð sjálfur í staðinn fyrir að kaupa og ef þú getur fengið lánaða brauðvél eða keypt notaða fyrir lítið þá er það kjörið. Til að sleppa sér ekki við matarinnkaupin getur verið gott að kaupa inn fyrir vikuna og vera þá búinn að ákveða matseðil og kaupa ekkert annað en það sem er á innkaupalistanum og þá að sjálfsögðu í einni af ódýru búðunum.
Eitt ráð í viðbót kjörið fyrir þá sem ráða illa við sig. Reiknaðu út hvað er eftir af mánaðarlaununum eftir skatta og öll föst útgjöld, t.d. húsnæði, rafmagn, afborganir og slíkt. Það sem er eftir máttu eyða. Ef þú vilt spara ákveðna fjárhæð á mánuði, dragðu hana þá frá. Tölunni sem er eftir skaltu deila með fjórum og það er eyðslufé þitt í viku. Farðu í hraðbankann vikulega og taktu út þessa upphæð. Læstu síðan kortið niður og taktu það ekki upp aftur fyrr en viku seinna. Verslaðu svo í matinn fyrir vikuna meðan þú átt ennþá pening. Það sem er þá eftir er vasapeningurinn þinn restina af vikunni.
Þú getur líka notað greiðsluþjónustu bankans þíns til að draga af þér föstu útgjöldin, jafna út afborganir sem eru sjaldnar en einu sinni í mánuði og skilja eftir fyrir þig hvað þú mátt eyða en þá verður þú samt að passa að skipta því niður svo þú sért ekki á kúpunni síðustu 1-2 vikur í hverjum mánuði.