Boðorðin 10 í mínum fjármálum:
1. Ekki skulda neinum neitt. Ef þú skuldar eitthvað (bílalán, Visa rað, o.s.frv.), borgaðu það þá sem fyrst. Sérstaklega ef vextir af skuldunum eru hærri en ávöxtun á sparifénu. Þá er sparifénu betur varið í að borga skuldina.
2. Aldrei kaupa neitt nema þú eigir fyrir því, og aldrei eyða krónu af laununum fyrr en þú ert búinn að gera upp alla reikninga fyrir mánuðinn.
3. Gerðu upp við sjálfan þig hversu mikið af laununum þú getur lifað án til skamms tíma litið. Taktu það magn frá í upphafi hvers mánaðar og leggðu það fyrir í traustri fjárfestingu. Ekki snerta þetta fjármagn nema mikið liggi við.
4. Treystu engum nema sjálfum þér fyrir peningunum þínum. Ekki taka mark á fjárfestingartillögum annarra. Fjárfestu aðeins í því sem þú vilt eiga eða styrkja og þá aðeins að athuguðu máli. Verslaðu við traustan banka sem skilar þér hagstæðum vöxtum. Ekki vera feiminn við að fjárfesta erlendis ef því er að skipta. Vertu alltaf viss um að árleg ávöxtun sparifés sé hærri en verðbólgan.
5. Borgaðu eins lítið af sköttum og þú mögulega kemst upp með. Ríkisstjórninni er ekki treystandi fyrir peningunum þínum. Lærðu allt um skattkerfið sem þú getur. Þeir sem skilja skattkerfið borga síður skatt.
6. Lærðu hvað vaxtavextir eru og hvernig þeir virka. Þeir sem skilja vaxtavexti koma til með að fá þá greidda. Þeir sem skilja þá ekki eru dæmdir til að greiða þá.
7. Fáðu greidd hærri laun. Gerðu vinnu þína eins mikils virði og þú getur með því að vera atorkusamur. Menntaðu þig í sífellu. Ekki vera feiminn við að biðja um launahækkanir, sérstaklega ef þú hefur ástæðu til.
8. Virkjaðu hugvitið. Eyddu tíma þínum í skapandi iðju, ekki sóa honum í vitleysu. Sköpunarverk eru eignir og eignir eru verðmæti. Fáðu góðar hugmyndir og hrintu þeim í framkvæmd.
9. Ódýrara er nærri alltaf betra. Ókeypis er best. Verslaðu með afslætti. Eldaðu ofan í sjálfan þig. Ekki kaupa neitt tilbúið sem þú getur búið til sjálfur á skömmum tíma. Brauðhleifur og skinkubakki eru ódýrari en Sómasamloka. Fáðu lánað það sem þú kemur til með að nota aðeins einu sinni eða tvisvar.
10. Ekki vera upp á neinn kominn fjárhagslega. Ekki treysta á styrki. Aldrei treysta því að einhver grípi þig ef þú verður blankur, né að hlutirnir reddist bara einhvern veginn. Vertu þinnar eigin gæfu smiður.