Þegar gengið fellur, hrynur allt annað líka. En mér er
alveg sama. Einn góðan dag snýr það. Þá er það ÉG sem allir
hópast saman um.
Ég heyrði bara brak og bresti frá hurð sem skelltist í
dyrastafinn. Hún fór, með krakkann á handleggnum, út á
götu. Farin að eilífu. Sólin seig i vestri, inn í land
draumanna, ég leit ekki upp, hafði annað fyrir stafni. Ég
fylgdist með tölunum á skjánum. Hafði nóg að gera.
Tölurnar hafa ekki verið með mér uppá síðkastið. Þvert á
móti. Þær hafa svikið mig. En það hefur ekki alltaf verið
svona. Ég var lengi vel mjög hamingjusamur. Ég var svo
hamingjusamur að ég sagði upp vinnunni. Ég keypti AudiTT,
sendi frú Fýlu og afkomandann til Bahamas í 14 daga, lánaði
5 milljónir til að verða enn hamingjusamari og starði enn
meir á tölurnar. Ég varð day trader, 20 tíma á sólarhring.
Þegar Kauphöll Íslands lokaði, tók Wall Street og Nasdaq
við. Það varð lítið um svefn, en hamingjusamur, já það var
ég.
Það er líklega best að selja núna, sögðu aðrir, um miðjan
marsmánuð 2000 þegar allt flaut með blóðrauðum tölum. Nei,
sagði ég. Það er núna sem við eigum að kaupa. Ég veðsetti
húsið, tvisvar. Það var þá sem það klikkaði fyrir frú Fýlu.
Hún var fyrir svo langt niðri eftir fréttina um að Glamour
ætti að leggja niður, að ég lánaði föðurarfinn hennar meðan
markaðurinn féll og sannfærði hana um að þrefalda
Prozacskammtinn.
En ég gefst ekki upp. Ég hef náðargáfu, ég þrjóskast við.
Þegar andstreymið kemur og allir segja að ég sé asni, hangi
ég enn með. Ég sit hérna á nærbuksunum umkringdur af tómum
pizzaöskjum, blóðærnar eru beintengdar kaffivélinni, med
þrjá skjái kringum mig, gardínurnar dregnar fyrir og dyrnar
negldar, þannig að uppboðshaldarinn og ágengir lánadrottnar
komist ekki inn. Það er búið að loka fyrir rafmagmið, en ég
er búinn að tengja í töfluna hjá nágrannanum. Einasti
reikningurinn sem ég borga er netleigan.
Því ég hef mína trú, og hún er svona:
Ég trúi á DeCode, þetta almáttuga, snilldarlega bréf.
Ég trúi á Baug, eingetinn son Jóns Ásgeirs Jóhannessonar,
vor Herra, sem var píndur af Jón Gerald Sullenberger,
krossfestur en ekki ei dauður og grafinn, og ef hann skyldi
fara til ríki hinna dauðu, mun hann rísa upp á þriðja degi,
líkt og DeCode svo oft hefur gert. Hann mun stíga til
himins, sitja við borð Kolkrabbans, hinnar almáttugu hægri
handar íslenska ríkisins, þaðan sem hann aftur mun aftur
dæma lifendur og dauða.
Ég trúi á Össur, heilagan, almennan Nýherja, samfélag
þeirra gráðugu, fyrirgefningu spilafíklanna, upprisu Árna
Johnsen og hið eilífa líf.
Amen