Ég hélt að Fésbókin hjá mér yrði logandi af fólki eins og mér, sem sýður á eftir að Alþingi samþykkti í dag lög um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins. Það lítur út fyrir að ég sé nokkuð einmanna í bræði minni.

Greiðslujöfnun og lögin

Lengi hefur verið kallað eftir aðgerðum til bjargar skuldavanda heimilanna og hafa margir viljað sjá almennar aðgerðir. Lögin nú bjóð upp á einhverjar heimildir til að afskrifa hluta skulda fólks undir ákveðnum kringumstæðum en einu almennu aðgerðirnar eru að beita skuli greiðslujöfnun á öll verðtryggð fasteignaveðlán frá helstu lánastofnunum hér á landi frá og með gildistöku laganna nema að skuldari segi sig sérstaklega frá greiðslujöfnun.
Mér finnst allt of langt gengið kveða á um að greiðslujöfnun skuli beita á öll fasteignaveðlán „nema að lánþegi hafi sérstaklega óskað þess að vera undanþeginn greiðslujöfnun”.


Greiðslujöfnun felst í því að breyta fyrirkomulagi verðtryggingar fasteignaskulda með þeim hætti að greiðslur miða við þróun launavísitölu og atvinnustigs, svo kallaðrar greiðslujöfnunarvísitölu, í stað vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Mismunurinn á milli greiðslunnar eins miðað við greiðslujöfnunarvísitöluna og neysluverðsvísitölu leggst inn á sérstakan greiðslujöfnunarreikning. Meðan greiðslujöfnunarvísitalan hækkar minna en neysluverðsvísitalan eru greiðslurnar lægri en þær hefðu átt að vera samkvæmt upphaflegum skilmálum lánsins en þegar greiðslujöfnunarvísitalan hækkar meira en neysluverðsvísitalan, borgar lántakinn meira en hann hefði átt að gera upphaflega og greiðir niður greiðslujöfnunarreikninginn. Ef eitthvað stendur eftir á greiðslujöfnunarreikningnum að lánstíma loknum heldur lántakinn áfram að greiða af láninu í 3 ár og standi þá eitthvað eftir er möguleiki á því að það verði afskrifað.

Í greinargerð Fjárlagaskrifstofu Fjármálaráðuneytisins með frumvarpinu eru áhrifin af þessu útskýrð: „Ljóst er að með almennri greiðslujöfnun íbúðalána verður kostnaður lántakans meiri þar sem höfuðstóll greiðist hægar niður og vaxtakostnaður því meiri.”

Hvað varðar afskriftir af því sem stendur eftir á greiðslujöfnunarreikningi þremur árum eftir að upphaflegum lánstíma lýkur segir í greinargerð Fjárlagaskrifstofunnar: „… áhrif þessara breytinga er talið að afskriftir skulda verði að óverulegu leyti meiri en ella hefði orðið…”. Vonin um afskrift árið 2042 (fyrir mitt 30 ára lán tekið 2009) er því lítil.


Ég sé ekki þörfina fyrir það að gera greiðslujöfnunina að almennu úrræði. Í morgun var frétt á Vísi.is (http://www.visir.is/article/2009342193924) þar sem kom fram að aðeins hefðu um 5% þeirra sem eru með íbúðarlán nýtt sér þau úrræði sem þegar eru í boði. Mér sýnast lögin nýju ekki vera að leggja til nein algjörlega ný úrræði heldur aðeins breyta útfærslu þeirra sem þegar voru til staðar. Einnig kom fram í fréttinni að nú standa milli 80-90% þeirra sem eru með fasteignaveðlán í skilum með lán sín. Hvers vegna þarf þá að setja alla þá sem eru með lán sín í skilum í greiðslujöfnun, soga til sín fjármagn úr bankakerfinu sem annars væri hægt að lána t.d. fyrirtækjum og auka við skuldir heimilanna til langs tíma?

Skýringin sem gefin er í athugsasemdum um frumvarpið fyrir því að gera greiðslujöfnina almenna er stórkostleg. “Tilgangur þessa er að forða því að skuldurum nýtist ekki greiðslujöfnunin vegna skorts á upplýsingum um hana.”
Á ensku væri þetta kallað „overkill”. Til að vera viss um að enginn skuldari missi af þessu úrræði er best að þvinga því upp á alla, líka þessi 80-90% skuldara sem eru í skilum með lán sín og í kaupbæti fær fólk að borga meira í vaxtakostnað vegna þess að lánstími lána þeirra lengist.

Einnig furða ég mig á því að greiðslujöfnin eigi að að eiga við öll lán sem veitt voru fyrir gildistöku laganna, sem er nú þegar. Ég tók mitt fasteignalán í byrjun ársins í ár, þ.e. eftir bankahrunið. Af hverju er verið að þvinga mig til að fara í einhver greiðsluúrræði? Ég tók mitt lán fullmeðvituð um ástandið í landinu, mesta hækkun neysluverðsvísitölunnar var yfirgengin (vonandi) og ég lagaði lánið að þessum aðstæðum.

Þar að auki furða ég mig mikið yfir því að löggjafinn geti allt í einu breytt skilmálum samnings sem ég, lögráða einstaklingur, geri við sjálfstæðan lögaðila án þess að fá samþykki mitt. Ég hef nú ekki nema einn inngangskúrs í viðskiptalögfræði á bakinu og ef einhver löglærðari en ég gæti útskýrt þetta fyrir mér yrði ég mjög þakklát.


En fátt er með öllu slæmt að ekki boði nokkuð gott. Í því tilfelli sem fólk er með lán á mjög hagstæðum vöxtum er hugsanlega hægt að nýta sér greiðsluaðlögunina til hagsbótar en því verður að fylgja mjög mikill sjálfsagi og pælingar.


Um framkvæmdina

Til viðbótar við gagnrýni á aðgerðina sjálfa hef ég ýmislegt út á framkvæmdina að setja. Það er eins með þessi lög og lögin í fyrra, sem komu greiðslujöfnunarvísitölunni á koppinn, að þau voru unnin allt of hratt. Mælt var fyrir frumvarpinu á mánudaginn, það samþykkt í dag að aðeins 33 þingmönnum viðstöddum og herlegheitin eiga að taka gildi um næstu mánaðarmót! Það þýðir að skuldarar þurfa að afla sér upplýsinga um hvort þeir vilji ganga að þessum nýju lánsskilmálum eða segja sig frá greiðslujöfninni fyrir þann tíma auk þess sem fjármálastofnanirnar þurfa ná að bregðast við þessum breytingum áður en næstu greiðsluseðlar íbúðalána eru skrifaðir út.

Mér hefur blöskrað alla vikuna að enginn hafi mótmælt þessari almennu aðgerð opinberlega (allavega ekki nógu mikið til að það rati á þá netmiðla sem ég fylgist með). Vissulega hefði ég hugsanlega getað gert eitthvað sjálf en ég verð að játa að ég hafði ekki orku eða tíma til þess á þessum örfáu dögum.

Með því að þvinga þessari „björgun“ uppá alla skuldara landsins finnst mér Alþingismenn allir með tölu (nema kannski Þór Saari sem virðist hafa hreyft einhverjum andmælum) brugðist mér og öllum öðrum skuldurum sem ekki þurfa á þessu úrræði að halda.
Guðmundur Steingrímsson fær sérstaklega lága einkun fyrir fyrirvara við samþykki sitt sem er algjör sýndarmennska.

Mér finnst fjölmiðlar einnig hafa brugðist með því að fjalla ekki um efnisleg atriði frumvarpsins og upplýsa almenning um hvað í því felst fyrir hann, þ.e. aukinn vaxtakostnað.

Allt þetta fær mig til að vera frekar fylgjandi þeirri hugmynd að stofa embætti umboðsmanns skuldara eins og nefnt hefur verið en ég er ansi hrædd um að stofna þyrfti tvö embætti; annað fyrir stórskuldara og hitt fyrir skuldara sem ráða við sínar skuldir.

Ef þið eruð með verðtryggt íbúðalán kynnið ykkur málið og takið sjálf ákvörðun um hvort þið þurfið á greiðslujöfnun að halda. Ekki láta Alþingi ákveða það fyrir ykkur!
Forever is such a long, long time and most of it hasn't even happened yet.