[26. nóvember 2008] Annað hvort skilur Félags- og byggingamálanefnd Alþingis ekki eðli fasteignalána eða hún er staðráðin í að koma sér upp stétt Íslendinga sem eyðir öllum fullorðinsárunum í vaxtaþrældómi. Starfsmenn nefndarinnar hafa nú bæst í stóra hjörð embættismanna sem á að segja af sér vegna vankunnáttu í starfi.
Samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins þá stendur til að lengja hámarkslánstíma lána hjá Íbúðalánasjóði í 70 ár. Allir sem skilja tímaverðmæti lána sem bera vexti og vaxtavexti vita að svona lán eru gjörsamlega út í hött. Eini aðilinn sem getur hlegið sig máttlausan á hverjum degi er sá sem lánar.
Við skulum skoða lán upp á 20 milljónir sem er til 20, 30 og 70 ára. Við skulum gleyma verðtryggingunni í bili (sem gerir dæmið enn verra fyrir fólkið) og gefa okkur að þetta lán beri 7% vexti og það sé borgað af því mánaðarlega. Þeir sem eiga t.d. Hewlett Packard 12C eða 18C reiknivél geta sannreynt þessar tölur.
Lán upp á 20.000.000 kr. á 7% föstum vöxtum:
* 20 ára lán, 155.060 kr. á mánuði (240 greiðslur). Samtals: 37.214.400 kr.
* 30 ára lán, 133.060 kr. á mánuði (360 greiðslur). Samtals: 47.901.779 kr.
* 70 ára lán, 117.555 kr. á mánuði (840 greiðslur). Samtals: 98.746.200 kr.
Einstaklingur sem kýs að taka 70 ára lán frekar en til 30 ára sparar sér þannig litlar 15.505 kr. á mánuði í 30 ár eða samtals 5.580.800 kr. Í staðinn borgar hann yfir 50 milljónir á 40 árum (50.844.421 kr.)!
Fyrir bankann þá liggur galdurinn í því að vaxtabyrðin vegur mest í byrjun og fólk byrjar ekki að borga höfuðstólinn niður að nokkru gagni fyrr en síðustu árin. Þess vegna lítur þetta dæmi miklu verr út á verðbólgutímum þegar raunvextir eru enn hærri. Íslenska kerfið hefur líka hnakkatak á viðskiptavinunum í líki ófreskju sem heitir verðtrygging lána, þannig að fólkið ber alla áhættu af stöðugri óstjórn peningamála.
Hugsum okkur að sömu óvitarnir og börn þeirra haldi áfram að stjórna íslenska hagkerfinu og raunvextir húsnæðislána verði að meðaltali 12% næstu 70 árin. Við þær aðstæður væri varla ráðlegt að taka lengra lán en til 20 ára.
Lán upp á 20.000.000 kr. á 12% vöxtum:
* 20 ára lán, 220.217 kr. á mánuði (240 greiðslur). Samtals 58.852.080 kr.
* 70 ára lán, 200.047 kr. á mánuði (840 greiðslur). Samtals 168.039.480 kr.
Ef þessi lán eru verðtryggð þá er hægt að spila með mánaðalega greiðslubyrði, en hún bætist þá bara við höfuðstólinn og læðist með tímanum inn í greiðslurnar. Lokatalan er þó alltaf sú sama og öll lán sem fara yfir 30 ár í venjulegu þjóðfélagi og yfir 20 á Íslandi eru því ekkert nema þjófnaður. Málið er ekki flóknara en það.
Verðtryggingin er böl
Hagkerfi sem leyfir verðtryggingu lána getur ekki talist frjálst eða á nokkurn hátt eðlilegt. Eins og alltaf þegar menn búa til annarlegar lausnir þá láta slæmar afleiðingar ekki á sér standa.
Verðtryggingin átti stóran þátt í að fasteignaverð hækkaði allt of ört árum saman. Verðtryggingin gerði bankakerfinu kleift að spila með gengi íslensku krónunnar fyrr á þessu ári. Þetta glæpsamlega hringl með krónuna gróf undan trausti landsins á erlendum peningamörkuðum og átti sinn þátt í að kerfið loks hrundi.
Þegar fólk í öðrum löndum kaupir sér þak yfir höfuðið—og við skulum gleyma þessu stutta tímabili taumlausra lána sem setti kerfið víða á hausinn—þá ráða mánaðartekjurnar algjörlega ferðinni þegar boðið er í eignirnar. Ef eyðslutekjur hjóna (eftir skatta) eru 400.000 á mánuði þá er algeng regla að gera ráð fyrir að þau geti endurborgað lán sem ber 120.000 mánaðargreiðslur (30% ráðstöfunartekna). Það er lán upp á um 20 milljónir á 6% föstum vöxtum til 30 ára. Ef vextir hækka upp í 8% þá lækkar lánshæfni þeirra hjóna niður í 16,4 milljónir, þannig að við sjáum innbyggt viðnám gegn okurvöxtum. Eftirspurn eftir lánum dregst strax saman ef kostnaðurinn kemur strax fram.
Verðtrygging lána lækkar mánaðargreiðslurnar óeðlilega vegna þess að verðbólgan—sem aðrar þjóðir reikna beint inn í föst lán með hærri prósentu—bætist við höfuðstólinn og er því ekki eðlilegur hluti greiðslubyrðarinnar. Fólk býður því hærri upphæðir í húsnæðið en það raunverulega getur borgað. Timburmennirnir hlaðast bara upp á hinum endanum. Verðtryggingin hélt sennilega verði íbúðarhúsnæðis 10–15% of háu árum saman.
Verðtryggingin er líka siðlaus. Hvernig stenst það í frjálsu hagkerfi þar sem tveir aðilar semja að aðeins annar þeirra, lántakandi, taki á sig alla áhættu vegna verðbólgu og óstjórnar í framtíðinni? Og það leiðir okkur að öðru hrikalegu óréttlæti.
Bankakerfið gat leikið sér að því að fella gengið hvað eftir annað vegna þess að flest innlend útlán þeirra voru verðtryggð. Verðbólgan æddi náttúrulega upp með lækkandi gengi en þeim stóð nákvæmlega á sama. Bankakerfið hefði ekki grætt neitt á gengisfellingum ef útistandandi lán þeirra hefðu rýrnað um leið. Kerfið hefur sem sagt rétt til þess að græða á báðum endum.
Verðtryggingin er byggð á röngum forsendum vegna þess að hún kemur í veg fyrir að framboð og eftirspurn lækki eða hækki vexti þegar það á að gerast. Hún felur raunverulegan kostnað og eykur greiðslubyrðina þegar spurt er að leikslokum. Þetta er auglýst sem eitthvað gustukaverk en þjónar aðeins okurlánurum.
Grein þessi er tekin af síðunni vald.org og er því ekki mitt verk.Engu að síður er greinin birt með leyfi höfundar.