Flugfélagið Go hefur lækkað lægsta flugfargjald milli Keflavíkur og Lundúna og er það nú 14.800 krónur, að því er segir í fréttatilkynningu frá Go. Þetta verð á við ef bókað er á Netinu og gildir farseðillinn er fram og til baka. Ríflega helmingur lægstu farmiða flugfélagsins hefur verið lækkaður í verði.
Þá segir í tilkynningunni að Íslendingar fái 1.200 króna afslátt af farmiðanum sé hann er keyptur á Netinu.
Þá kemur fram að fram til þess hafi lægstu farmiðar Go milli Íslands og Bretlands verið 16.000 krónur og að verð á þeim hafi lítið sem ekkert hækkað þrátt fyrir verulegt gengissig íslensku krónunnar. „Fram til þessa hefur verið innheimt sérstakt bókunargjald á Netinu, sem nú fellur niður. Í stað þess kemur umræddur 1.200 króna afsláttur," segir einnig í tilkynningunni.
Þá segir að Go hefur enn aukið flugfrelsi með því að fella niður kröfuna um gistingu farþega aðfaranótt sunnudags á áfangastað, en það sé gild regla flestra áætlunarflugfélaga.
Haft er eftir Barböru Cassini, forstjóri Go, að stefna Go sé að lækka verð enn frekar til að gera fólki kleift að ferðast oftar.
Gerðar hafa verið endurbætur á vef Go á Netinu og er nú hægt að sjá fleiri ferðadaga í einu en það sé gert til að auðvelda fólki val á ferðadögum fram og til baka.
Sem dæmi um fargjaldalækkanir er nefnt að flug milli Lundúna og Edinborgar, fram og til baka, kosti nú 35 pund, eða 4.992 krónur, til Barcelona og Bilbao 60 pund, eða 8.558 krónur, og til Milan og Nice 65 pund, eða 9.230. Þá flýgur Go frá Stansted-flugvelli til rúmlega 20 borga í Evrópu.
Flogið verður til Íslands alla daga vikunnar til 19. september nk. og fram til 28. október verða flognar fjórar ferðir á viku.