Það eru margir sem nýta sér greiðsluþjónustu bankana - og er það gott. Fyrir þá sem hafa ekki þann aga sem þarf er ein einfaldast leiðin til að hafa sín fjármál á hreinu. Gallinn er bara sá að þetta kostar alveg óhemju. Sem dæmi þá þegar þú ert að safna í sarpinn fyrir afborgun er peningurinn þinn geymdur á 1-2% vöxtum. Ef þú þarft yfirdrátt til að dekka útgjöldin þá ertu að greiða 18% vexti. Að auki er þjónustugjald, færslugjald og allt hitt.
Ég hef verið að spá í “alternativ” leið. Nú ætla ég að herða sultarólina og reyna að leggja pínu umfram til hliðar í hverjum mánuði. Upphæðin er ekki stóra atriðið. Hún einungis segir til um hvenær ég næ settu marki. Ég veit þegar að 2006 greiði ég ákveðna reikninga. Ég veit nokkurnvegin hversu háir þeir verða. T.d. bifreiðagjöld, tryggingar, fasteignargjöld… Sömu reikningar 2007 og þar til maður leggst útaf.
Það sem ég er að spá í er þetta: Segjum að reikningur sem ég veit að ég þarf að greiða í des. í ár sé kr. 60.000. Þá þarf ég að leggja til hliðar 5.000 pr mánuð til að jafna greiðsluna. Ef ég legg þennan pening +2.500 inn á reikning með 6-7% vöxtum þá á ég þegar kemur að því að greiða reikninginn kr. 90.000 + einhverjar krónur í vexti. Ég tek út 60.00 og á eftir +30.000. Legg áfram inn 7.500 og næsta ár á ég 120.000 + vexti. Vextirnir verða sífellt hærri þar sem peningurinn er kyrr og vextir reiknast einnig a vexti. Maður gerir þetta í nokkurn tíma og viti menn, maður er komin í þá stöðu að geta lækkað upphæðina úr 5.000 í 4.000 á mánuði: vaxtatekjur greiða mismuninn. Með þolinmæði getur maður jafnvel myndað nægjanlega inneign til að reikningurinn greiðist árlega af vöxtum. Gróflega reiknað tekur það “einungis” 23 ár…
Tíminn skiptir í raun ekki máli. Ég stefni að því að vera enn á lífi eftir 23 ár. Kjarninn er að ég kem til með að láta vexti vinna fyrir mig, en ekki á móti mér.
Ég fór að spá í þetta þegar ég skoðaði kostnaðinn sem ég greiði bankanum mínum. Þrátt fyrir skikkanlega fjárhagsstöðu og engin skítamál eru þetta talsverðar upphæðir árlega. Ég efast um að meðalmaður greiði innan við 25-30.000 á ári í kostnað við að eiga viðskiptai við bankann sinn, t.d. vexti, þjónustugjöld og slíkt. Er þá ekki skárra að borga sjálfum sér?