Er heimskreppa í uppsiglingu?
Það eru ekki nema nokkrir dagar síðan spurningunni um hvort dollarinn væri á leið upp eða niður var varpað fram á síðunni www.vald.org . Síðan þá hafa tölur verið birtar í Bandaríkjunum sem satt að segja eru ekki gæfulegar. Í stuttu máli, þá verður mikið að breytast fljótt til þess að koma í veg fyrir verulegan efnahagslegan afturkipp eða kreppu um víða veröld.
Kjarni málsins er sá, að neyslan í Ameríku ræður miklu um hagvöxt fyrirtækja um allan heim. Þegar BNA hóstar þá fær veröldin kvef. Eins og rakið var í fyrrnefndri grein þá hefur neyslan í því ágæta landi verið keyrð áfram með hagstæðum vöxtum á seinni árum (fólk hefur slegið út á húsin sín) á meðan menn bíða eftir að hagkerfið byrji að skapa ný störf í stórum stíl. En biðin er að verða ansi löng, sérstaklega í ljósi þess að forsetinn rekur ríkissjóð með methalla á þessu kosningaári, og tíminn er að verða knappur. Það er þegar farið að bera á hundakúnstum á alþjóðlegum peningamörkuðum sem ekki ganga upp til lengdar og benda til ákveðinnar örvæntingar.
Síðan Bush tók við völdum hafa yfir tvær milljónir starfa glatast. Ofan á þetta bætist að mánaðarlega koma um 150.000 nýir einstaklingar inn á bandaríska vinnumarkaðinn. Við eðlilegar aðstæður eftir efnahagslægð eins og þá sem gekk yfir skömmu eftir aldamótin, þá hefði vinnumarkaðurinn átt að skapa yfir tvær milljónir starfa árið 2003, en allt sat fast. “Þetta er allt að koma”, sögðu margir hagfræðingar fyrir síðustu áramót og spáðu 400-500 þúsund störfum á fyrstu tveim mánuðum 2004. Fyrir nokkrum dögum birtust tölurnar fyrir febrúar og þær voru eins og köld gusa. Aðeins 23.000 störf urðu til – og ekkert þeirra á frjálsum vinnumarkaði. Öll voru hjá ríki eða bæ.
Sama dag og þessar tölur birtust þá keypti japanski seðlabankinn dollara fyrir $20 milljarða til þess að koma í veg fyrir lækkun hans og hækkun jensins. Kínverjar og fleiri versluðu líka. Þann 10. mars kom næsta kalda gusan í formi útreikninga um viðskiptahalla. Þrátt fyrir að dollarinn hafi að meðaltali lækkað um 20% á síðasta ári – þannig að allt sem landið framleiðir er ódýrara og ætti því að seljast betur erlendis – þá hækkaði viðskiptahallinn í janúarmánuði og fór í 489.9 milljarða dollara.
Þessi risatala hefði: a) átt að lækka dollarann og b) hækka vexti, vegna þess að rökrétt framhald er enn lægri dollari til að rétta við halla sem ekki getur gengið endalaust, gengisfellingu sem aftur kyndir undir meiri verðbólgu þegar innflutt hráefni hækkar. Það sýnir best brestina í kerfinu að hið gagnstæða gerðist, dollarinn hækkaði aðeins og vextirnir lækkuðu. Þetta er auðvitað aðeins tímabundinn styrkur sem kemur alls ekki til af góðu. Fjöldi þjóða, og þá sérstaklega mörg Asíuríki, sitja á ótrúlega háu dollarafjalli. Þegar t.d. japanski seðlabankinn heldur jeninu niðri þá kaupir hann dollara fyrir jen og losar sig síðan við dollarana með því að kaupa bandarísk ríkisskuldabréf. Þetta er nákvæmlega það sem hefur verið að gerast í óvenju ríku mæli síðustu daga. Við verðum að gera okkur grein fyrir að þetta eru ekki eðlileg viðskipti og hálfgerð örvænting. Bandaríski markaðurinn er líka byrjaður að átta sig á hættunni. Við venjulegar kringumstæður eru og lækkandi vextir stöðugur dollari góð tíðindi sem lyfta hlutabréfum. En markaðurinn hefur lækkað þrjá daga í röð og verulega í gær (10. mars), því innfæði af þessu tagi krefst útflæðis fyrr en síðar.
Í hnotskurn þá er hættan þessi: Vegna gífurlegra skulda í bandaríska hagkerfinu (ríkið skuldar t.d. $7 billjónir og einstaklingar $3 billjónir) og skuldbindinga við erlenda aðila, þá er hætta á meiri háttar samdrætti um allan heim ef hjól atvinnulífsins í bandaríkjunum byrja ekki mjög fljótlega að snúast hraðar og atvinnuleysi dregst saman. Þessar nýjustu tölur benda til þess að ástandið sé verra en lýst var á www.vald.org fyrir nokkrum dögum og dollarinn eigi e.t.v. eftir að falla fyrr en þar er spáð.