Áheitaganga HSSH

Vegna bílakaupa Hjálparsveita Skáta í Hveragerði höfum við farið af stað með fjáröflun í formi áheitasöfnunar. Við óskum eftir því hér með eftir aðstoð yðar.

Nú er komið að því að Hjálparsveitin þurfi hjálp. HSSH(Hjálparsveit Skáta í Hveragerði) stendur nú í þeim stórrræðum að kaupa nýja björgunarbifreið. Í dag á sveitin tvær bifreiðar en önnur er orðin óhæf til björgunarstarfa og því verulega aðkallandi að fá nýja og trausta í hennar stað.
Búið er að panta Toyota Landcruiser 70, sem hentar mjög vel til þeirra starfa sem sveitin þarf að inna af hendi og verður hún afhent sveitinni 15 Mars n.k og kostar bifreiðin fullbúin með björgunartækjum, og fjarskiptatækjum 4.500.000.- kr þegar að tollar hafa verið felldir niður.
Hjálparsveitin í Hveragerði hefur starfað í 26 ár og hefur starfsemin verið að byggjast upp jafnt og þétt á þeim tíma. Nú eru félagar um 30 talsins. Það eru ótrúlegustu beiðnir sem að koma til sveitarinnar um ýmis konar aðstoð, stórar sem smáar og telur sveitin sér ljúft og skylt að bregðast við þeim eins og kostur er. Fyrir utan stærri leitir, sem sem betur fer eru ekki margar á ári, sinnir sveitin m.a. aðstoð á Hellisheiði þegar að veður er risjótt og hjálparvana fólk kemst hvorki lönd né strönd. Engin leið er að telja upp hin ýmsu verkefni sem sveitin fær á hverju ári en öll taka þau í budduna, líka þau litlu.
Rekstur svona sveitar er afar kostnaðarsamur, mikill og dýr tækjabúnaður er forsenda þess að tryggja sem best öryggi vegfarenda og annara sem eru hjálpar þurfi.
Eftir því sem að tækin verða fullkomnari og flóknari þarf að kosta meiru til við þjálfun björgunarmannanna ásamt því sækja hin ýmsu endurmenntunar námskeið sem nauðsynleg eru.
Allt þetta kostar mikla peninga og fer mikill tími félaga í fjáröflun. Eins og í öðrum björgunarsveitum er hér um áhugamannahóp að ræða sem sinnir þessu samfélagsverkefni í frítíma sínum frá vinnu. Þrátt fyrir dugnað hjálparsveitarmanna við fjáröflun hrekkur það ekki til í þessu tilfelli.

Eins og sjá má af framangreindu er ærið verkefni að reka svona björgunarsveit og nú þegar við stöndum í þessari miklu fjárfestingu viljum við leita ásjár hjá ykkur og fara fram á fjárhagsstyrk til að gera okkur mögulegt að búa sveitina þeim búnaði sem nauðsynlegur er.
Ef þú hjálpar okkur munum við hjálpa öðrum, jafnvel þér.

Farið var Föstudagskvöldið 14. Mars kl 20:00 frá Eden Hveragerði þar sem Bæjarstjórinn setti okkur af stað með viðhöfn og komið í RVK Laugardaginn 15. Mars.Gengið var frá Hveragerði með sjúkling í sjúkrabörum sem leið liggur um Suðurlandsveg, Hellisheiði og að hringtorgi við Rauðavatn. Þaðan um Breiðholtsbraut og yfir á Nýbílaveg að Toyota umboðinu þar sem göngunni lauk. Göngunni lauk rétt fyrir hádegi á Laugardeginum. Mislægum gatnamótum við Breiðholtsbraut og Nýbílaveg var sleppt vegna tafa á umferð sem það myndi valda.

Styrkja má sveitina með því að leggja frjálst framlag inn á eftirfarandi reikning:
314-26-38 Kennitala sveitarinnar er 580876-0139
Nánari upplýsingar má fá í síma 693-9079

Kær kveðja

Sævar Örn Arason
HSSH

PS Formaður sveitarinnar er Ólafur Óskarsson í síma 483-4437