Það er nánast öruggt að hagstætt er að kaupa hlutabréf núna með það í huga að eiga þau í 1-4 ár. Verð hlutabréfa hefur hækkað jafnt og þétt undanfarið rúmt hálft ár, og þess eru mörg merki um að hin klassíska íslenska efnahagssveifla sé komin í uppstefnuna. Rúsínan í pysluendanum er síðan Kárahnúkavirkjun, sem á eftir að hækka gengi í íslenskum fyrirtækjum svo um munar meðan á framkvæmdum stendur, þ.e. næstu 2-3 árin.
Hvað á venjulegur launamaður að gera sem hefur enga sérstaka innsýn inn í markaðinn, en vill hagnast á hlutabréfum? Mitt ráð er að kaupa ekki í einstökum fyrirtækjum. Það er bara fyrir spekúlanta sem lifa og hrærast í þessum heimi. Venjulegur einstaklingur getur hins vegar nýtt sér nef sitt fyrir efnahagsástandinu til að kaupa í breiðum hlutabréfasjóðum sem endurspegla nokkurn veginn íslenskt efnahagslíf í heild sinni. Margir slíkir sjóðir eru til, á vegum bankanna og annarra. Íslandsbanki er hins vegar með aðgengilegustu upplýsingar sem ég hef séð á vefnum um sína sjóði, sem heita sjóður 6 og sjóður 10.

http://www.vib.is/upplysing/main.asp?id=2011

htt p://www.vib.is/upplysing/main.asp?id=2012

Á þessum síðum er hægt að sjá nákvæma dagsbreytingu á hverjum degi bæði í prósentum og gengisstigi. Ítarlegar upplýsingar eru einnig um gengissögu sjóðanna. Eign í þessum sjóðum er alltaf laus, en hafa ber í huga að 2% munur er á kaup- og sölugengi, svo aðeins ætti að fjárfesta í þeim til langs tíma. Ennfremur taka sjóðirnir árlega þóknun, 1,20% og 1,60%.
Ég tek það fram að ég hef engin tengsl við Íslandsbanka önnur en sem almennur viðskiptavinur.
Hvernig er svo hægt að fjármagna hlutabréfakaup þegar eins sögulegt tækifæri býðst og nú er? Þeir sem eiga nægt sparifé eru auðvitað ekki í vandræðum. Þegar því sleppir taka lífeyrissjóðslánin við. Þau eru hagstæðustu lánin á markaðnum, og burtséð frá hlutabréfakaupum ættu allir, alltaf að vera í hámarksskuld við lífeyrissjóðina, því alltaf er hægt að finna ávöxtun sem er a.m.k. jafngóð og vextir á lífeyrissjóðslánum (sem eru núna um 5,5%). Lífeyrissjóðslán má taka til allt að 30 ára og sem jafngreiðslulán og hafa þau því mjög létta greiðslubyrði. Gallinn er auðvitað að fasteignaveð verður að koma á móti.
Ef ekki er kostur á lífeyrissjóðsláni má athuga með bankalán, en slík lán bera auðvitað verulega hærri vexti, allt að 13%.
Að taka lán fyrir hlutabréfakaupum þykir ekki góð latína, en það fer allt eftir kringumstæðum:

1. Eru vextir á láninu það háir að veruleg íþynging sé að?
2. Er geta til að greiða af láninu undir því komin að gengi hlutabréfanna verði gott?

Ef hægt er að svara báðum þessum spurningum neitandi er engin raunveruleg áhætta fólgin í því að taka lán fyrir hlutabréfum. Ef keypt er í breiðum sjóði sem endurspeglar nokkurn veginn íslenskt efnahagslíf, þá er tryggt að sú fjárfesting verður ekki að engu nema ísland fari hreinlega á hausinn, og þá er hætt við að allar fjárhagsáætlanir viðkomandi séu unnar fyrir gýg hvort eð er. Ef viðkomandi hefur ennfremur tök á að borga af lánum af sínum föstu tekjum, án þess að hreyfa við hlutabréfaeigninni, þá er afkoma hlutabréfanna engin áhætta fyrir afkomu viðkomandi.

Setjum nú upp dálítið reikningsdæmi.
Hlutabréf hafa verið að hækka í verði um 15-25% á ársgrundvelli undanfarið hálft til eitt ár. Þegar Kárahnúkaframkvæmdir hefjast má búast við mjög verulegum hækkunum, 30% meðalnafnverðshækkun á ári ætti að vera mjög hófleg áætlun.

Jón Jónsson tekur 1.000.000 kr lífeyrissjóðslán með fasteignaveði til 30 ára.
Gerum ráð fyrir að vextir hækki, þannig að ársvextir verði 6%.
Greiða þarf lántökugjald og stimpilgjald, samtals 2,5%.
Gengismunur er 2% eins og áður segir.
Þóknun sjóðseiganda er 1,6%, segjum.
Litið er framhjá verðbólgu, vegna þess að þótt lánið sé verðtryggt er hlutabréfaeignin fólgin í efnislegum gæðum, svo verðbólga kemur fram í meiri nafnverðshækkun.

Á fyrsta árinu verður ávöxtun því 30-6-2,5-2-1,6=17,9% sem gerir 179.000 kr, en fjármagnstekjuskatti er frestað þar sem inneignin er ekki seld strax. Ekki þarf að greiða stimpil-, lántökugjöld og gengismun nema einu sinni, svo síðari ár koma betur út. Inneignin eftir 1. ár er 1.279.200 þar sem allur kostnaður nema þóknun sjóðs er greiddur eftir öðrum leiðum (gengismunur og skattur við sölu, vextir og önnur gjöld með öðrum tekjum). Þá fáum við á 2. árinu ávöxtun 30-6-1,6=22,4% sem gerir 286.540.
Og svo framvegis. Ekki má gleyma því að selja á réttum tíma, um það bil sem framkvæmdum við virkjunina fer að ljúka eða jafnvel fyrr ef markaðurinn fer að titra mikið. Við sölu tapast 2% gengismunur sem fyrr segir og greiða þarf 10% skatt af hagnaðinum.

Ég veit ekki með ykkur, en ég ætla að græða smá pening á þessu.