Dömur og herrar.
Ég keypti mér íbúð fyrir hálfu ári. Ég tek útborgun á einu og hálfu ári sem þýðir að ég þarf að passa fjárhaginn vel þangað til eftir 10 mánuði.
Hinsvegar reyki ég mikið, drekk mikið, og er almennt kærulaus í fjármálum. Ég hef mjög sterkar skoðanir á því að fara ekki út í skuldir að óþörfu, og vil því endilega spara sem mest þangað til ég hef aftur efni á því að lifa eins og sá vitleysingur sem ég er.
Þá uppgötvaði ég dálítið inni í skáp hjá mér. Gamla, pínulitla vasabók sem ég notaði til að skrifa niður texta í gamla daga. Ég gluggaði í gegnum hana og reif úr síðurnar með textunum á (enda allt löngu búið að ná fótfestu í hausnum á mér og engin ástæða til að hafa skrifað niður), og ákvað að ganga alltaf um með þessa bók og penna, til þess að skrifa niður allt sem ég kaupi.
Áhrifin eru gríðarleg!
Um leið og maður sér hversu miklu maður er að eyða á hverjum degi, og sérstaklega í hvað, fær maður ótrúlega góða yfirsýn yfir sitt raunverulega neyslumynstur. Mér hefði t.d. ekki órað fyrir því að ég væri kominn í pakka á dag af sígarettum. Ennfremur gerði ég mér ekki grein fyrir því hvað ég kaupi oft bjór á kaffihúsum þegar ég gæti alveg eins keypt hann í ÁTVR.
Ég geri í upphafi mánaðarins litla, minimalíska áætlun þar sem ég geri ráð fyrir 1.000 krónum í eyðslu á dag, og 3.000 krónum á Föstudegi. Það er reyndar allur gangur á því hversu duglega ég stend við þetta, en þetta er tvímælalaust að hjálpa mjög mikið.
Ég mæli eindregið með þessari einföldu, þægilegu og algerlega áreynslulausu aðferð til þess að koma á jafnvægi í neyslunni. Fyrir hvern mánuð borgar maður bara allar skuldir og tilheyrandi, finnur út hvað maður hefur miklu til ráðstöfunar, og deilir því með dögunum sem eru í næstu útborgun. Ég geri ráð fyrir meiri neyslu um helgar vegna þess að ég er svoddan fyllibytta, en það fer auðvitað eftir hverjum og einum hvernig neyslumynstrið er.
Ég vona að þetta hjálpi einhverjum öðrum jafn mikið og þetta hjálpaði mér. :)