ATH!
Þessi grein er tekin í óleyfi frá <a href="http://www.sigurfreyr.com“>sigurfreyr.com</a> en vegna áhugaverðar umræðu verður henni ekki eytt héðan.
Greinina má finna á réttum stað <a href=”http://www.sigurfreyr.com/velheppnadur.html“>hérna</a>
Á undanförnum árum hefur markaðstrúin og efnishyggjan fests í sessi á Íslandi. Hér er sagt frá því hvernig hægt er að skjóta samborgurum sínum ref fyrir rass komast í hóp hinna útvöldu.
Á Íslandi teygir efnishyggjan arma sína inn á hvert heimili og inn í hverja stofnun og mótar huga þess fólks sem þar vermir stólana. Áhrif haghyggjunnar eru svo djúprist að flestir eiga torvelt með að gera sér í hugarlund að hve miklu leyti hún stjórnar þeirra eigin lífi.
Í sérhverju samfélagi er ríkjandi ákveðið gildismat eða ,,ímynd um manninn”. Þetta gildismat segir til um hvers eðlis maðurinn er og hefur skipuleggjandi áhrif á stefnumótun einstaklinga og stjórnvalda. Yfirleitt eru einstaklingar lítt meðvitaðir um ráðandi gildismat og sama gildir um þjóðfélagið í heild. Hjá flestum er ímyndin um manninn dulvituð. En hún er að sama skapi ákaflega mótandi og áhrifarík, jafnvel hjá þeim er hafna henni eða ákveðnum þáttum hennar.
*** Gildismat haghyggjunnar ***
Ríkjandi ímynd um manninn varð til á veltiárum iðnbyltingarinnar og einkennist af því að mannleg tilvera er skoðuð einhliða í ljósi efnislegra forsenda. Hún er jarðbundin, mótast af raunhyggju og hagkvæmis- og hagnýtisjónarmiðum. Rökhyggja er látin skipa háan sess en tilfinningar settar skör lægra. Veraldlegar eignir skipta menn miklu og einstaklingar eru metnir eftir þjóðfélagsstöðu fremur en manngildi. Sem dæmi um forsendur sem mynda núverandi gildismat má nefna eftirfarandi:
“Fulltrúalýðræðið (þ.e. merking við bókstaf á 4ra ára fresti) er fullkomnasta stjórnarformið sem völ er á.”
Einstaklingar eru metnir samkvæmt því hversu auðugir þeir eru og/ eða hvaða stöður þeir skipa.
Framfarir og hagvöxtur eru eitt og hið sama.
Lífsgæði og hamingja eru sama og aukin neysla.
Peningar eru taldir hljóta að tryggja mönnum frelsi; að það haldist í hendur að afla ,,nógra“ peninga og hafa samtímis óskorað frelsi til að nota þá eins og manni sjálfum líst helst.
Maðurinn er yfir náttúruna hafinn og þess vegna er það hlutverk okkar að hafa yfir henni að segja. Hann er ,,kóróna sköpunarverksins” og þess vegna eðlilegt að mannkynið gjörnýti náttúruna samkvæmt eigin geðþótta.
Fulltrúalýðræðið (þ.e. merking við bókstaf á 4ra ára fresti í þingkosningum) er fullkomnasta stjórnarformið sem völ er á.
Íslenskt samfélag
Á Íslandi teygir efnishyggjan (neyslu- og haghyggjan) arma sína inn á hvert heimili og inn í hverja stofnun og mótar huga þess fólks sem þar vermir stólana. Áhrif haghyggjunnar eru svo djúprist að flestir eiga torvelt með að gera sér í hugarlund að hve miklu leyti hún stýrir þeirra eigin lífi. Flest samskipti innan fjölskyldunnar snúast til dæmis á einhvern hátt um neyslu. Fjölskyldulífið er fólgið í því að neyta matar, hlusta á útvarp, horfa á sjónvarp, lesa dagblöð og skiptast á snöggsoðnum upplýsingum, kvörtunum og kröfum um nýjan neysluvarning (til dæmis leikföng, betri mat eða upplýsingar um fjölmiðlaneyslu næsta dags). Fjölskyldan er því hornsteinn neyslusamfélagsins, hin fullkomna neyslueining.
Mikilvægt er að fullnægja kröfum um ,,rétta hegðun“, ,,rétt útlit” og ,,rétt viðbrögð“.
Flestir trúa því að með því að kjósa sama flokkinn eða einhvern annan sé hægt að leysa mörg vandamál. Stjórnmálaflokkarnir eru þó ekki annað en framverðir ákveðinna hagsmunahópa innan samfélagsins og því bein afurð ríkjandi skipulags. Hugmyndakerfin, sem borgaraflokkar og verkalýðsflokkar Íslands eiga sér að leiðarljósi, það er frjálshyggjan og marxisminn, byggjast á sama gildismati. Bæði hugmyndakerfin spruttu úr þeim jarðvegi er myndaðist þegar miðöldum lauk, iðnbyltingin hófst og raunvísindi tóku að blómgast. Hagrænar og stjórnmálalegar aðstæðar þeirra tíma mótuðu þá hugmynd að sífelld þensla í hagkerfinu bæri vott um heilbrigða framþróun. Sívaxandi neysla þegnanna og efnahagslegur gróði eru talin vera megineinkenni blómlegs mannlífs. Óraunhæft er að ætla að þjóðfélagið taki breytingum, sem máli skipti, þó að hugmyndir eins flokks/hagsmunahóps verði ráðandi. Til þess eru hugmyndaheimar þeirri of líkir.
”Flestir trúa því að með því að kjósa sama flokkinn eða einhvern annan sé hægt að leysa mörg vandamál.“
Hinn velheppnaði Íslendingur
Á síðustu árum hefur markaðstrúin styrkst í sessi. Samkvæmt henni felast æðstu verðmæti í því að skara fram úr, skjóta samborgurunum ref fyrir rass og öðlast sífellt betri stöðu í goggunarröð samfélagsins. Samkvæmt ríkjandi gildismati ber hinum ,,velheppnaða Íslendingi” að fullnægja eftirfarandi kröfum:
Eiga eigið húsnæði, einkum einbýlishús. Eiga vandaðan bíl, litasjónvarp, vídeó, dýra tölvu með ADSL tengingu, farsíma og fallega innanstokksmuni og dýran klæðnað sem nauðsynlegt er að endurnýja með reglulegu millibili.
Vera skuldlaus með ávísanahefti og tvö greiðslukort. Eiga verðbréf og fjárfesta reglulega í hlutabréfamarkaðinum. Hafa nóg fé milli handanna til að geta bruðlað með peninga og látið eftir skyndilöngunum.
Vera í viðurkenndum klúbbi eða félagasamtökum sem falla vel að hefðbundnum viðhorfum samfélagsins. Umgangast ,,fína“ og ,,fræga fólkið”.
Vera passlega ,,venjulegur“ og dagfarsprúður og skera sig ekki úr með því að styðja nýjungar sem hafa ekki hlotið almenna viðurkenningu. Fullnægja kröfum um ,,rétta hegðun”, ,,rétt útlit“ og ,,rétt viðbrögð”.
Vera sem mest í fjölmiðlum; dagblöðum, tímaritum eða sjónvarpi. Slá þá á létta strengi og skemmta fólki með fánýtu masi um ekki neitt. Komast undan því að tala um það sem skiptir máli til þess að styggja engan. Vera þó ákaflega ábyrgðarfullur en fyrst og fremst raunsær.
*** Gjá milli markmiða og veruleika ***
Þessi ,,mannímynd haghyggjunnar“ er hafin til skýjanna eða öllu heldur metin öllu öðru ofar. Íslenska samfélagið er þó þannig úr garði gert að stór hluti landsmanna hefur ekki möguleika á að ná ofangreindum markmiðum, sem þó eru takmark flestra. Þegar fólk getur ekki vegna félagslegra aðstæðna fullnægt ríkjandi ímynd myndast djúpstæð spenna og vanmáttarkennd sem síðar er bætt upp með skemmtanalífi og almennu sinnuleysi. Þannig er orðið ástatt að launafólk á Íslandi leggur á sig ómælda yfirvinnu til þess að uppfylla óskráðar kröfur neyslusamfélagsins.
”Á síðustu tveimur áratugum hefur gætt vaxandi efasemda um hvort hið efnahagslega gildismat geti vísað leiðina áfram."
Foreldrar hafa margir hverjir engan tíma til að sinna börnum sínum. Þá er ekki átt við að klæða þau, þrífa og gefa að eta heldur er átt við andlegt nærandi samband sem byggist á gagnkvæmum tjáskiptum milli barns og foreldris. Ekkert eða mjög lítið svigrúm er til í tímaleysi og kappæði samtímans til að þróa mannskilning og umhyggju í samskiptum fólks almennt. Hraði, fjárhagserfiðleikar og firring vegur að rótum samfélagsins, sjálfum hornsteininum; fjölskyldulífinu.
Á síðustu tveimur áratugum hefur gætt vaxandi efasemda um hvort hið efnahagslega gildismat geti vísað leiðina áfram. Komin eru í ljós vandamál sem verða ekki leyst innan ríkjandi viðmiðunarramma. Hugmyndin um homo economicus hefur beðið skipbrot á tímum sálarlegra og tilfinningalegra þrenginga. Það er komið að þeim tímamótum að ríkjandi ímynd er orðin í algjöru ósamræmi við þjóðfélagsraunveruleikann. Hún hefur úrelst og það er komin nálykt af henni. Þrátt fyrir það láta íslenskir stjórnmálamenn, embættismenn ríkisins og almenningur í landinu eins og ekkert sé og telja sér trú um að með auknum afköstum hagkerfisins, betri skipulagningu vinnunnar og meiri neyslu nálgumst við fyrr eða síðar þröskuld fyrirmyndaríkisins.
Það er ekki seinna vænna fyrir Íslendinga að taka til gaumgæfilegrar athugunar í hvaða átt íslenska samfélagið stefnir. Vinna verður skipulega að því að endurmeta þróun síðustu ára og breyta því í samfélaginu sem veldur gliðnun þess og sívaxandi skemmdum.
Kveðja.
1til2