Cyphotiliapia Frontosa
Almennt
Nafnið Cyphotiliapia Frontosa er dregið af nöfnunum Cypho úr grísku sem þýðir hnúður,
Tilapia þýðir einfaldlega fiskur á tungumáli sem talað er í kringum vatnið Ngami í Afríku og
Frontosa er úr latínu og þýðir “með stórt enni”
Frontósur eru meðal vinsælustu síkliða úr Tanganyika vatni. Þær auðkennast á 6-7 svörtum lóðréttum röndum á hvítum eða bláum búk. Þegar karlfiskarnir eldast fá þeir stóran hnúð á höfuðið sem bendir jafnan til frjósemis, þetta á þó ekki eingöngu við um karlfiskana því kvenfiskar geta einnig fengið hnúð á höfuðið. Karlfiskarnir eru þó alltaf stærri fullvaxnir en kvenfiskarnir, karlfiskar geta náð stærðum upp í 35 cm en kvenfiskarnir oftast um 20-25 cm.
Frontósur eru lengi að vaxa og eru um 3-4 ár að ná kynþroska.
Til eru mörg litaafbrigði af Frontósum og eru þau helstu: Blue Mpimbwe, Blue Zaire, Burundi, Kasanga, Kigoma, Kipili, Zambia.
Blue Zaire afbrigðið er með mjög djúpan og fallegan bláan lit og er þetta afbrigði talið vera toppurinn í Frontósum, fallegir fullorðnir fiskar seljast á stórar upphæðir um allan heim, aftur á móti er Burundi algengasta afbrigðið.
Heimkynni
Frontósur koma frá Tanganyika vatni í Afríku, þær lifa þar á miklu dýpi eða allt að 50 m. Vatnið sjálft er um 1.5 km djúpt þar sem það er dýpst, 675 km langt og 72 km breitt þar sem það er breiðast, þess má geta að Tanganyika vatn er næst dýpsta vatn heims.
Fjögur lönd liggja að Tanganyika vatni en þau eru: Tanzania í austur, Zambia í suðri, Congo í vestri og loks Burundi í norð-austur. Vatnið í Tanganyika vatni er mjög hart og hefur pH gildið mælst yfir 9 í vatninu.
Í fiskabúrinu
Best er að hafa eins stórt fiskabúr og kostur er fyrir Frontósur og skiptir þar lengdin höfuðmáli svo að fiskarnir geti synt sem mest og komist undan áflogum. Innrétta skal búrið með mikið af steinum og felustöðum til að líkja eftir heimkynnum fiskanna, hægt er að hafa plöntur í búrinu en ganga skal frá þeim þannig að fiskarnir geti ekki grafið þær upp.
Frontósur eru frekar rólegir fiskar og líður þeim best í hóp með öðrum Frontósum. Ekki er æskilegt að hafa litla fiska í búri með fullorðnum Frontósum, því allt sem kemst upp í þær er álitið matur. Best er að hafa einn karl á móti 4-5 kerlingum því annars níðist sterkasti karlinn á hinum sem veikari eru. Það mætti segja að þetta séu frekar latir fiskar, þ.e. þeir vilja ekki eyða óþarfa orku í að elta fæðið sitt heldur bíða frekar eftir því að það komi til þeirra. Algengt er að Frontósur verði gæfar og borða beint úr hönd eigandans.
Fjölbreytt fæða er nauðsynlegt fyrir Frontósur og getur hún verið t.d. frosin rækja, litlir fiskar og ánamaðkar.
Vatnið í búrinu skal vera hart og pH um 8,5 og hiti um 27 gráður, gæta skal að hafa nægilega öflugan hreinsibúnað.
Þar sem að Frontósur lifa frekar djúpt í Tanganyika vatni er ekki þörf fyrir mjög öfluga lýsingu í búrinu.
Frontósur eru munnalarar og það er ekki mjög erfitt að fá þær til að hrygna.