Hornsíli er lítill fiskur sem lifir í vötnum af öllum stærðum, mest á láglendi en einnig á hálendinu. Það lifir einning í pollum, í lækjum, hálfsöltu vatni í sjávarlónum og í sjó. Hornsílið er algengasti fiskurinn í fersku vatni hér á landi. Útlit hornsíla er nokkuð breytilegt, fer allt eftir við hvaða aðstæður það lifir við.
Hornsílið bjargar sér á veturna með því að halda sig við botninn þegar vatnið frýs. Þegar vötn botnfrjósa eða þorna upp getur hornsílið grafið sig ofan í botnleðjuna. Hornsíli nærast einkum á smákröbbum, skordýralirfum og eggjum annara vatnadýra. Vegna mergðar og mikillar útbreiðslu eru hornsílin mikilvæg fæða fyrir fugla og stærri fiska.
Ef hornsíli er með óeðlilega þaninn kvið þá er líklegt að í kviðarholi þess sé fyrirferðamikil lirfa flatorms. Þessi lirfa kemst í meltingarfæri fugla þegar þeir éta hornsíli og heldur áfram að þroskast. Flatormurinn verður kynþroska í fuglunum, egg hans berast í vatnið með driti þeirra og geta hafnað í hornsílum þar sem þau þroskast í lirfu.
Lífsferill sníkjudýra er oft frekar sérkennilegur og þessi flatormur er gott dæmi um það. Æxlunarhegðun hornsíla er sérstök. Hængurinn (karlkynið) leggur undir sig svæði á botninum og gerir þar hreiður. Hann ver svæðið fyrir öðrum hængum og rekur þá í burtu. Á þessum tíma breytir hængurinn um lit og verður rauður á kvið og kjálkum (riðbúningur).
Hann reynir síðan að laða hrygnur að til að hrygna í hreiðrið. Stundum tekst að fá fleiri en eina til þess. Hængurinn sprautar svilum (frjófrumur) yfir hrognin og þau frjógvast. Hængurinn gætir hreiðursins og hrognanna og sér um að súrefnisríkt vatn streymi um það. Hann gætir einnig seiðanna þegar þau klekjast út og reynir að halda þeim í hreiðrinu. Hrygningin byrjar snemma vors en fer einnig fram yfir sumarið.
Vona að þessi lestur hafi frætt ykkur eitthvað um þessi litlu og leiðinlegu, en merkilegu fiska. :)