Það tók Square-Enix heil 4 ár að koma kvikindinu á markað eftir tilkynningu hans á E3 leikjahátíðinni 2006. Núna í Mars á þessu ári kom Final Fantasy XIII loksins út á bæði PS3 og Xbox 360 og þurfti alls ekki kjarneðlisfræðing til að fá út að hann leit alveg stórkostlega vel út. En spurningin er í rauninni sú hvort þetta hafi endað upp sem góður leikur sem viðhélt hinum krefjandi og magnaða Final Fantasy anda í sér eður ei. Ég keypti mér leikinn á útgáfudeginum og spilaði hann rækilega í gegn og mun ég gagnrýna hann eftir eftirfarandi flokkum:
Bygging:
Það sem sker Final Fantasy XIII út frá öðrum Final Fantasy leikjum er í hnotskurni hversu ‚linear‘ hann er. Það er afar lítil fjölbreytni í honum, enda er megnið af leiknum ákveðin endurtekning á myndbandi, smá göngutúr með þeirri persónu sem þú spilar með í beinni línu sem ómögulegt er að týnast í, sérstaklega með aðstoð kortsins í efra horninu á skjánum kemur í veg fyrir það. Svo muntu sjá allskyns ógnarverur í kringum þig sem þú einfaldlega gengur upp að til að berjast við, sem er góð tilbreyting frá því að hlaupa þar sem þú vildir í fyrrum leikjum þangað til að allt í einu kom bardagi. Rinse and repeat. Það er fremur þreytandi að þurfa að endurtaka þetta mynstur í sífellu.
Leikurinn lofar í hið minnsta góðu í byrjun, enda er byrjunin alveg ótrúlega flott og gerir mann spenntan fyrir leikinn. En stuttu eftir að leikurinn fer að byrja á því að byrja að hefjast (hann er mjög hægur að byrja, þú ert í rauninni ekki farin/nn að gera mest það sem hægt ætti að vera að gera í leiknum fyrr en nálægt endalokunum) þá ferðu að taka eftir því hversu langdrægur hann er og hversu leiðinlegt þetta endurtakanlega mynstur verður.
Leiðindin enda ekki aðeins hér, heldur er það svo að með þessari langri og pirrandi línu fylgja engir bæir sem hægt er að stansa í, slaka á og skoða sig um og þess vegna kaupa sér eitthvað frá verslunareigendum. Aðeins er hægt að ganga framhjá hræddu fólki í panikki sem muldrar einhverja leiðinlega vitleysu. Einnig eru því miður engin airship. Skýring höfunda leiksins á þessu öllu er einfaldlega sú að þegar maður er kominn í HD leikjatölvur sem krefjast mikils krafts og vinnu, þá er mjög erfitt að vinna að einhverjum svoleiðis „aukahlutum“. Einnig vildu þeir hugsa um þennan leik sem „flótta“ og því hentaði að hafa leikinn að ákveðin bein lína þar sem ekkert var hægt að stöðva aðeins og skoða sig um. Svoleiðis virkar andrúmsloftið allavega.
Ekki örvænta þó, enda er FFXIII ekki bara þessi langdræga beina lína með fáu að gera, heldur nálægt endaköflum leiksins þá opnast hann upp og hægt verður að skoða stóran heim, fara á chocobos, taka að sér hinum ýmsu verkefnum sem verðlauna þig og berjast við brjálæðislega stór skrímsli. Leiðinlega er að sjálfsögðu að það er varla þess virði eftir margra klukkustundna spilun af mjög endurtakanlegu mynstri.
Söguþráður:
Ég veit að nánast öll gagnrýni á nánast hverju sem viðkemur söguþræði hefst alltaf á þessu, engu að síður ætla ég að gera hið sama þegar ég segi að ég muni ekki spoila söguþræðinum of mikið, ég reyni mitt besta.
Söguþráðurinn er í hið minnsta afar vandaður og góður. Upprunalega hugmyndin að heiminum er sú sama og í hinum Fabula Nova Crystallis Final Fantasy XIII leikjunum, Versus og Agito. Semsagt að krystallar og ákveðinn dularfullur guð að nafni ‚The Maker‘ komi við sögu. Í FFXIII er þetta svo að til staðar eru tveir hnettir ofan í hvor öðrum. Sá minni kallast Cocoon og er það pleisið sem leikurinn byrjar á.
Fyrir neðan Cocoon er heimurinn Pulse, þaðan sem bæði manneskjur og Fal‘cie verurnar komu allar frá. Á endanum skópu nokkrar Fal‘cie verur saman úr Pulse hnöttinn Cocoon og fylgdu með þeim margir menn. Alveg síðan hafa Cocoon og Pulse verið í stanslausu stríði við hvort annað. Samskipti Fal‘cie og manna eru einnig afar áhugaverð, eða þannig að Fal‘cie geta „snert“ menn og gert þá að stríðsmönnum sínum með galdramætti og hæfileika til að kalla fram Eidolons. Þannig verða menn að l‘Cie. Því miður hugsa menn fremur um þetta sem bölvun, enda hefurðu x-mikinn tíma til þess að klára „verkefnið“ þitt eða ‚Focus‘ eins og það kallast (ég veit, mjög mikið af nöfnum til að muna) áður en þú breytist í C‘ieth corpse, sem er einfaldlega skrímsli fast í neikvæðustu mögulegu tilfinningum. Sem er í raun verra en dauðinn. Ef þú hinsvegar klárar Focusinn þinn þá ferðu í eilíft crystal stasis, sem er samt lítið ólíkt dauða. Þú bara rotnar ekkert á meðan. Yfir heildina litið er bakgrunnsagan og umhverfi leiksins vandað og flott, í hið minnsta sögulega séð.
Persónurnar aftur á móti eru misgóðar. Aðal gallinn hjá þeim er hversu ótrúverðugar þær virka. Lightning (þetta er nafn sem hún notar í stað fyrir alvöru nafn hennar) er ágæt persóna, þó hún virkar fremur dauf á köflum. Snow er maður sem þú vilt mjög líklega kyrkja, hann er jú þessi hávaðasami pirrandi gaur sem heldur að hann sé æðislegur og reynir alltaf að vera hetja. Svo er það Sazh, svarti gaurinn með lítinn barna chocobo í hárinu sínu. Ágætur, trúverðugur gaur svosem, þó það fer svolítið í taugarnar á mér hversu steríótýpískur hann er. Þú sérð það sjálf/ur. Svo kemur Vanille, litla rauðhærða „dularfulla“ stelpan sem er gjörsamlega ótrúverðug sem einstaklingur. Það er eins og hún sé á einhverskonar lyfjum í hvert einasta sinn sem hún talar eða jafnvel hreyfir sig. Fang, vinkona Vanille er líklega skásta persónan í leiknum. Hún er þessi harða gella sem er aldrei með neitt kjaftæði. Hún og Vanille eiga ákveðna baksögu sem mun koma virkilega á óvart. Að lokum er það persónan sem ég hata alveg ótrúlega mikið, Hope. Væmnasti og leiðinlegasti litli andskoti sem ég hef nokkurn tíma rekist á í nokkrum tölvuleik. Hann missir móður sína í byrjun leiksins og kennir Snow um dauða hennar og virðist gera fátt annað en að væla, gráta eða eitthvað inn á milli. Meira að segja þegar hann berst þá koma þessar stynjur úr honum sem drepa mig að innan.
Allar þessar persónur eiga það svo sameiginlegt að hittast í byrjun leiksins vegna ólíkra ástæðna og enda með því að fá l‘Cie bölvun á sig. Í hnotskurni virkar ‚focusinn‘ þeirra þannig að þau verða að eyða Cocoon, heimili þeirra. Leiðinlegt, ég veit. Áhugaverð klisja sem spennandi er að fást við.
Hönnun/hljóð:
Það kemur varla á óvart að Final Fantasy leikir eiga það til að vera mjög flottir og það er Final Fantasy XIII svo sannarlega. Með alveg frábærri lýsingu, hreyfingu á persónum ásamt hönnun heima og borga er þetta alveg stórglæsilegur leikur. Sniðugt þykir að pre-rendered myndbönd í leiknum eru ívið færri en í fyrrverandi FF leikjum og er ástæðan einfaldlega sú að núna er hann kominn á það öflugar leikjatölvur að hægt er að notast betur við leikjavélina sjálfa, svo það gerir heiminn einn og sér trúverðugri. Því miður er ekki hægt að segja hið sama um persónurnar, en það tengist frekar því sem þeir segja og gera fremur en glæsilegu útliti þeirra. Eitt er ég líka mjög sáttur með og það er að talsetningin passar við hreyfingu varanna. Það er eins og persónan sé virkilega að tala tungumálið sem hún ætti að vera að tala. Leiðinlega er að á meðan talsetningin sjálf er svosum ágæt, þá er hún bara langt frá því að vera stórkostleg. Líklega er það vegna þess að textinn sem talsetjararnir eru beðnir um að lesa upp getur verið afar skrýtinn og oft á tímum mjög væminn, eins og þarf að fylgja nánast öllum FF leikjum. Allt hljóð í leiknum hljómar samt sem áður mjög vel og mæli ég þar sérstaklega með PlayStation 3 útgáfu leiksins, en hún er algjörlega uncompressed í hljómi og myndgæðum, þar af leiðandi er það algjört konfekt fyrir bæði augun og eyrun að spila leikinn.
Eitt mjög sérstætt við þennan Final Fantasy titil er samt að meistarinn Nobuo Uematsu sem komið hefur við sögu í öllum öðrum Final Fantasy leikjum samdi ekki eitt einasta lag í þessum.
Þess í stað var maðurinn sem samdi tónlistina fyrir Final Fantasy X með Uematsu fenginn til þess að taka við allri tónlistinni í þessum. Masashi Hamauzu heitir maðurinn. Mjög skrýtið þykir mér að gagnrýna tónlistina í leiknum, því jafnvel þótt hún sé mjög falleg, vel saminn og vel útfærð á alla staði, þá er samt eins og öll lögin í leiknum séu í rauninni svona 2-3 talsins með mörgum mismunandi útfærslum. Það eitt og sér með langdregni og endurtekinni spilun leiksins ýtir frekar undir áhrif þess að leikurinn sé mjög langdreginn, sem er skömm því tónlistin er samt sem áður mjög flott.
Spilun:
Spilun leiksins er satt að segja afar einföld; einni persónu er stýrt í einu, hvort sem um er að ræða bardaga eða ekki. Alla hluti sem hægt er að eignast er aðeins hægt að fá í gegnum svífandi kúlur sem „faldnar“ eru víðsvegar í leiknum eða bara eftir bardaga, eftir að þú lýkur við því að ræna lík andstæðinga þinna. Klassískt FF.
Talandi um bardaganna, þá eru þeir í hið minnsta fersk viðbót við almenna bardaga í Final Fantasy leikjum. Í grunninn er þetta svipað og í öðrum Final Fantasy leikjum (að utanskilinni þeirri frábæru staðreynd að þú sérð alla óvinina og ræður hvort þú berst við þá eður ei) nema hvað að þú stýrir aðeins einni persónu í bardaga (sem ekki er hægt að breyta í miðjum bardaga) og þetta virkar allt mun hraðara og meira spennandi heldur en aðrir bardagar. Ekkert er skipts á, þú þarft bara að vera snögg/ur að framkvæma aðgerðir þínar, sem hægt er að skella saman í combo. Það virkar svoleiðis að þú velur ákveðnar aðgerðir sem hver persóna getur valið, eins og t.d. Attack og fleira og svo fer það eftir hverri persónu hversu margar aðgerðir er hægt að velja í einu (eykst með tímanum). Ef þú vilt samt flýta þér ennþá meir þá er hægt að velja að láta tölvuna velja skástu brögðin strax. Tölvan verður líka alltaf betri og betri í að velja betri aðgerðir fyrir þig eftir því sem þú berst meir við ákveðinn andstæðing. Þá er hægt og rólega hægt að finna út hverjir veikleikar og styrkleikar óvinar þíns eru (uppfærist reglulega og hægt að skoða með R1). Þú getur verið með allt að tvær aðrar persónur með þér í bardaga og stýrir tölvan þeim sjálf alveg eins og ef þú myndir láta hana velja réttu aðgerðinar fyrir þig.
Það eru engin level í þessum leik, í staðinn færðu CP (Crystarium Points) eftir hvern bardaga sem hægt er að eyða til þess að styrkja hverja persónu fyrir sig. Þá er hægt að öðlast ný brögð sem og aukinn styrkleika í gegnum þetta. Svipað og Sphere Grid í Final Fantasy X, nema ég myndi segja að þetta væri eilítið einfaldara ef eitthvað.
Einnig er kerfi svipað og job system í öðrum leikjum í þessum leik sem kallast Paradigm Shift. Þá er hægt að velja ákveðin Paradigm (jobs) fyrir hverja persónu. Til að mynda eru ákveðin paradigm sem auka áherslu á galdranotkun, á meðan önnur leggja meiri áherslu á vopnanotkun og enn önnur á lækningarmátt og svo framvegis. Það skemmtilega við þetta er að hægt er að skipta um Paradigm hvenær sem er í bardaga með Paradigm Shift. Þá geturðu búið til þín eigin Paradigm fyrir hvern bardaga. Með þessu er aukin áhersla á taktík og rökhugsun í bardaga. Þú gætir skyndilega lent í erfiðum andstæðingi upp úr þurru sem virkar skíterfiður, en í rauninni með rökhugsun og strategíu er hægt að sigra hann. Ef það er eitthvað sem mér fyndist leiðinlegt við þetta bardagakerfi, þá er það þannig að það getur verið á köflum frekar leiðinlegt að lenda í andstæðingi sem þú veist að þú getur auðveldlega sigrað, nema hvað að þeir virðast allir vera með svo ótrúlega mikið af lífi, svo það getur tekið alveg rosalega langan tíma að sigra þá. Besta dæmið um þetta er aðal endakarlinn, en hann/hún/það (vil ekki spoila) er með alveg gígantískt magn af lífi. Svo er það þannig með hann/hana/það og nokkra aðra endakarla að ef þú ert ekki nógu snöggur að sigra þá, þá skella þeir Doom bölvun á þig sem gefur þér X-mikinn tíma áður en þú deyrð. Þó það er alveg ótrúlega frábær tilfinning að geta sigrað þá þrátt fyrir það. Kom meira að segja fyrir mig að niðurtalningin var komin frá 1800 niður í 6 í stórum endarkarli og þá sigraði ég. Áttaði mig allt í einu þá að ég var staðinn upp og búinn að vera öskrandi af spenningi. Mjög vandræðalegt sko.
Talandi um að deyja samt; þú tapar bara bardaga ef að persónan sem þú leikur deyrð. Skiptir engu þótt hinir séu sprellifandi. Engu að síður er frekar þægilegt að maður endar strax upp á sama stað og maður hóf bardagann svo það er ekki eins mikið vesen að tapa löngum og leiðinlegum bardaga.
Að lokum:
Final Fantasy XIII er mjög skrýtinn leikur. Að vissu leyti er hann velkomin viðbót í tölvuleikjahilluna, enda er ég persónulega orðinn frekar leiður á því að um 90% af öllum tölvuleikjum sem til eru í dag gráir og brúnir skotleikir. Þetta er vandaður, litríkur RPG leikur sem yfir heildina séð er ágætt að spila, en hann er samt sem áður ekki eins góður og forverar sínir. Hann er allt of ‚repetetive‘ og virðist fylgja sama leiðinlega mynstrinu nánast allan leikinn. Þetta er eitthvað sem höfundar leikjarins reyna að afsaka með því að segja að mjög erfitt sé núna að gera leiki eins og Final Fantasy fyrir leikjatölvur nútímans, enda mjög flóknar. Það sem mig hefði mest langað í hefði verið talsvert meiri fjölbreytni, minni væmni og trúverðugri persónur. Einnig airship. Ó hvað ég sakna þeirra.
Engu að síður ef þig langar bara í RPG á nýjustu kynslóð leikjatölvna þá er þessi leikur samt ekki svo slæmur. Hann er ágæt afþreying og FF lúði eins og ég gat alveg spilað hann í gegn og var ég alltaf alveg jafn spenntur að halda áfram í honum. Mæli samt ekki með því að spila hann of mikið í einu. Aðal gallinn hans er í rauninni sá, líkt og ég hef sagt hér áður að hann er ekki nærrum því jafn fjölbreyttur og forverar hans. En hann er samt ágætis leikur engu að síður.
Ég kýs að gefa ekki einkunn, enda er það villandi og lítið viðmið er fyrir einkunnum. GameTíví er gott dæmi um það. Kannski ég minni ykkur á bara núna að taka aldrei mark á einkunnargjöf, sérstaklega hjá GameTíví.
Takk fyrir.