Nú er ég að fara í Evrópuferð í sumar þannig mig langaði að deila ferðaplaninu með ykkur og kannski ferðasöguna sjálfa seinna.
Við verðum á húsbíl sem er með svefnplássi fyrir 4, en við verðum 6 talsins svo trúlega munu alltaf tveir vera í tjaldi fyrir utan.
Ferðalagið byrjar 31. maí en þá ætlum við að keyra til Seyðisfjarðar þar sem Norræna siglir af og förum fyrst til Færeyja daginn eftir, þann 1. júní, en það er 17 tíma sigling frá Íslandi. Það verður reyndar bara stutt stopp í 5 tíma því strax förum við aftur og siglum til Hjaltlandseyja. Ég hef heyrt að það sé mjög fallegur staður. Nú, svo förum við í ferju frá Leirvík þann 2. júní og verðum komin til Skotlands 3. júní. Alveg til 5. júní ætlum við að flakka um Skotland og skoða helstu borgir og staði. (Loch Ness, Glasgow, Edinborg o.fl.)
Svo þarf pabbi að fara á námskeið í Manchester varðandi kennarastarfið svo við förum þangað og til Liverpool á tímabilinu 6.-8. júní. Þann 9. júní förum við til London, skoðum okkur um og sofum þar. Svo tekur við París, Brussel, Amsterdam, Köln, Berlín, Kaupmannahöfn og heimsækja frænku í Svíþjóð. Í Ósló verðum við svo þann 18. júní og þann 19. í Bergen og þann 20. júní förum við frá Bergen tökum við ferju heim til Íslands.
Margir eru staðirnir og verður þetta e.t.v. mikið að kyngja á aðeins örfáum dögum. En vonandi verður gaman og ætla ég að reyna að vera eins mikið frá fjölskyldunni þegar við verðum ekki í húsbílnum að keyra, því annars mun ég trúlega brjálast. Mest hlakka ég til að sjá London, París, Amsterdam og Berlín. En ég hef aldrei komið til þeirra staða nema Parísar og þótt að það sé bara ár síðan ég var þar þá hlakka ég til að koma þangað aftur og sýna foreldrum mínum pleisið, enda frábær borg í alla staði.
Svo er bara spurning hvort maður muni ekki bara rugla öllum stöðunum saman eftir allt saman!