Ég verð að viðurkenna það að ég dauðöfunda þig að því að vera að fara. Í fyrrasumar var ég í 6 vikur í München og sumarið þar áður var ég í 4 vikur og því ætti ég að geta sagt að ég hafi þónokkuð mikla reynslu af borginni sem slíkti án þess þó að vera beinn íbúi þar. Oktoberfest fer ekki fram í miðri borginni, heldur á stóru engi (Theresienwiese) sem er innan borgarmarkanna, en engu að síður þá verður þú örugglega eitthvað inni í borginni.
Ég ætla mér því að rita niður nokkra punkta sem ég ráðlegga þér að gera þarna.
Hobrauhaus & Augustiner Bierkeller:
Þetta eru risastórar krár í 15. aldar stíl og hafa verið starfræktar síðan 1400 og eitthvað. Þetta eru að vísu hefðbundnir túristastaðir en engu að síður magnað að setast og fá sér eine Mass.
Die Deutsche Museum:
Þetta er stærsta tæknisafn Evrópu og þegar ég var þarna inni var búið að koma fyrir hálfri Boeing 747 breiðþotu fyrir inni í safninu. Þarna má finna allan andskotann og er vel þess virði að skoða.
Bæverska kvikmyndasamsteypan:
Þetta er svæði nálægt borginni þar sem margar af þekktustu myndum Þjóðverja og jafnframt margar “Hollywood” myndir hafa verið gerðar. Þeirra stærstu þýsku kvikmyndir eru sennilega Das Boot og Lola Rennt (Run Lola Run). Þarna má finna leikmuni eins og heilan kafbát sem notaður var í Das Boot sem og skrýmslið úr Never Ending Story.
Schloss Neuschwanstein:
Þetta er 15 aldar höll sem stendur tæplega 100 km úti við borgina. Ef þú ætlar þér að fara þangað tekur það sennilega allan daginn. Þú tekur lestina til lítils bæjar sem heitir Füssen og síðan eltir þú bara japönsku túristana. Þetta er gull falleg höll, en ef þú átt ekki mikinn tíma má alveg fórna henni.
Olympiastadt München:
Þetta er svæðið sem reist var til að hýsa Olympiuleikana árið 1972 sem þá voru haldnir í München. Þarna sá ég leik Englands og Þýskalands sem endaði eftirminnilega 5-1 fyrir Englendinga. Ef að þú ert knattspyrnuáhugamaður þá myndi ég kíkja á völlinn ef að Bayern er að spila bara til að upplifa stemmninguna. Ef að þú tímir ekki peningunum í fótbolta þá mæli ég samt með því að þú farir með lestinni í átt að vellinum svona 1-2 klst fyrir leik og upplifir stemninguna í lestinni. Síðan þegar á staðinn er komið getur þú farið í sund í viðurkenndri olympiskri laug og látið þig vaða ofan af 10 metra stökkpallinum. Einnig mæli ég með því að þú kíkir í Olympaturm sem er turn sem er að því er mig minnir 196 metra hár og þegar þú stendur í honum þá sérðu yfir alla borgina ef að skyggnið er gott.
Ég held að ég láti þetta nægja um borgina í bili, en einn punktur sem getur verið þægilegt að vita. Það tekur tíma að finna internetcafé sem kostar minna en 800 kall klukkutíminn. Ef þú ferð á aðaljárnbrautastöðina og út um aðalinnganginn (það er risastór klukka yfir honum) þá sérðu gult hús sem merkt er Easy Everything og er internetcafé með yfir 400 tölvum og kostar skít og ingenting.
Ef að það er eitthvað sem þig vantar að vita þá sendiru bara mail á mig:
frahoddu@visir.is
Kveðja,
Nonni
PS. Eitt sem mig langar að benda þér á að íbúar München hata orðið Munich og því bendi ég þér á að nota ávallt þýska nafnið á borginni og því segiru…Oktoberfest in München.