Krít er stærsta og syðsta eyja Grikklands, hún liggur austur – vestur og liggja þrír fjallgarðar þversum eftir eyjunni. Ditki fjallgarður á austur hlutanum, Idal (eða Psiloritis) fjallgarður í miðjunni og Lefka Ori (Hvítu fjöll) fjallgarður á vesturhlutanum, og er þar hæðsti tindur eyjunnar 2452m hár. Höfuðborgin heitir Iraklio (Heraklion) með um 130.000 íbúa.
Sértu ekki tilbúinn að liggja hreyfingarlaus á sólarströnd í þrjár vikur, er Krít sú eyja í Eyjahafinu sem býður upp áhugaverðustu staðina til skoðunar.
Sagan
Fyrstu merki um mannabyggð á Krít eru frá Neolthic tímanum (7000 – 3000 f.kr.)
Minoen siðmenningin átti upptök sín á Krít, og var hún fyrsta þróaða siðmenningin á vesturlöndum. Talið er að eldgos á eyjunni Santorini, ásamt innrásum Mycenaea manna frá meginlandinu hafi orsakað hnignun Minoen menningarnar árin 1500 – 1100 f.kr. Og með komu dóranna um 1100 f.kr. hafi hún alveg liðið undir lok. Klassíska öldin á meginlandinu náði aldrei að neinu ráði til Krítar. Þar af leiðandi höfðu Persar engan áhuga á eyjunni. Alexander mikli hafði einnig engan áhuga og þar með varð Krít aldrei hluti af Makedónska heimsveldinu. Um 67 f.kr. var Krít komin undir Rómverska stjórn, og árið 395 e.kr.var Krít stjórnað af Býsanska heimsveldinu. Feneyingar náðu eyjunni á sitt vald árið 1210 og byggðu fjöldan allan af virkjum og kastölum um alla eyjunna. Þrátt fyrir öflugar varnir Feneyinga náðu Tyrkir eyjunni á sitt vald árið 1770. Eftir samkomulag stórveldanna varð Krít hluti af Breska heimsveldinu og árið 1913 varð hún svo hluti af Grikklandi. Eins og á Grikklandi, var Krít hernumið af Þjóðverjum í seinni heimsstyrjödinni.
Áhugaverðir staðir á Krít
Iraklio (Heraklion)
Iraklio hefur verið höfuðborg síðan 1971, hún er fimmta borg Grikklands og er sú borg sem hefur hæstar tekjur á hvern íbúa.
Allir fornmunir sem fundist hafa í hinni Minoesku borg Knossos hafa verið settir á fornleifasafnið í borginni og er því nauðsynlegt að rölta um safnið og virða fyrir sér 3000 ára gamla muni, sem voru grafnir upp um aldamótin 1900.
Feneyingar hafa sett mjög sterkan svip á gamla hverfið, virkið sem varði borgina í 21 ár fyrir Tyrkjum (en Iraklio var seinasta vígið sem féll fyrir Tyrkjum í innrás þeirra) liggur umhverfis borgarhlutann. Veggirnir ná sumsstaðar 29m í þykkt og heildarlengd borgarvirkisins er 4 km. Miðpunktur gamla hlutans er Feneyjatorgið en þar er heillandi 17 aldar gosbrunnur.
Knossos
Sá staður sem allir ferðamenn á Krít heimsækja er Knossos, í rauninni er það ekkert skrítið, 3000 ára gömul borg hefur verið grafin upp með kastala og þröngum götum.
Heinrich Schliemann, sá sem gróf upp borg Mycenaeu manna á meginlandinu, hafði grun um að Knossos væri undir sléttu nokkurri 15km frá Iraklio, en ekki náðist samkomulag milli hans og landeigenda. Arthur Evans sem var sterkefnaður, enda af góðum ættum, var heillaður af uppgvötunni og eyddi 35 árum og 30 miljónum af hans eigin fé til verksins. Evans, hefur verið gagnrýndur fyrir að hafa tekið sér skáldaleifi við uppgröftinn. En Evans reyndi að endurbyggja borgina jafnframt því að grafa hana upp. Málverk á veggjum hallarinnar eru endurgerð upprunalegu málverkanna og allir fornmunir eru eftirlýkingar ósvikinna, sem eru margir hverjir á fornleifasafninu í Iraklio. Engu að síður eru fornleifafræðingar sammála því að Evans hefur unnið mikið og stórmerkilegt verk í Knossos. Erfitt er að útskýra Knossos í stuttu máli en heimsókn þangað verður örugglega einn af hápunktum heimsóknar þinnar til Krítar.
Rethymnon
Rethymnon er þriðja stærsta borg Krítar með um 25.000 íbúa. Hún hefur verið stimpluð sem aðal menningar og listaborgin á Krít. Eins og allar borgir og bæir á Krít skiptist hún í gamla og nýja hlutann, gamli hlutinn með kastölum, virkjum og gömlum þröngum strætum og nýji hlutinn með háreistum nýtískulegum hótelum, skyndibitastöðum, tískuvöruverslunum og sætum stelpum í bikiní.
Yfir gamla hverfinu gnæfir hið mikla virki Feneyinga fortessa Og við rætur þess liggur gamla hverfið, auðvelt er að villast í hverfinu, en auðvitað eru allir hjálplegir við að leiðbeina þér á réttan stað.
Nýji hlutinn teygir sig svo eftir ströndinni, sem allt snýst um á stað sem þessum.
Sagan
Fyrstu merki um búsetu eru frá Minoen tímanum, og eru fornminjar frá þeim tíma geymdar á fornminjasafni bæjarins. Það var ekki fyrr en Feneyingar komust til valda (1210 – 1645), að bærinn komst á kortið. Tyrkir réðu svo, eins og allri eyjunni til 1897. Þegar þáverandi stórveldin tóku eyjuna og allt Grikkland undir verndarvæng sinn í sjálfstæðisstríðinu við Tyrki.
Hania (Chania)
Hania er næst stærsta borgin á Krít, með um 70.000 íbúa. Hún var höfuðborgin til 1971 þegar stjórnsýslan var flutt til Iraklio.
Áhugaverðustu staðirnir eru náttúrulega gamli hlutinn með leifa búsetu Feneyinga á hverju strái. Miklum peningum hefur verið varið í uppbyggingu hverfisins og er það mjög lifandi með verslunum í mörgum hverjum mjög fallegum og gömlum byggingum.
Hania og Rethymnom eru stærstu sumarleyfisstaðirnir á Krít og er þar margt um manninn á annatímanum, þessir tveir staðir eru margt mjög líkir en eru þó hver með sína sál og sérkenni.
Sagan
Eins og á flestum stöðum á Krít eru fyrstu leifar um búsetu frá Minoen tímanum. Ólíkt öðrum borgum á Krít, blómstraði Hania sem borgríki á Hellenska tímanum, og hélt hún veldi sínu á rómverska og býsanska tímanum. Feneyingar tóku sér bólfestu þar svo 1210 og breyttu þeir nafninu í LaCanea. Tyrkir komu svo árið 1645 og 1898 varð hún bresk meðan sjálfstæðistríðinu stóð og svo grísk 1913.