eða lengsta lestarferð í heimi
Nú, þar sem ég stend í því að skipuleggja ævintýra roadtrip um fjölmennustu borgir austurstrandar Bandaríkjanna þá allt í einu langar mig svakalega til að hnipra pínulítið um ferðalagið mitt síðasta vetur. Hleypa því út og hreinsa mig, mætti segja.
Þannig er mál með vexti að ég bjó í Peking allan síðasta vetur, en þegar hitastigið var komið dálítið vel niður fyrir frostmark um miðjan veturinn þá stakk maður af úr skólanum og rannsakaði syðri hluta álfunnar Asíu.
Í þeirri ferð fór ég ásamt tveimur félögum mínum með lestum suður í Kína og staldraði við í borgunum Nanjing, Shanghæ og Xiamen í suðrinu. Þaðan flugum við til Bangkok í Tælandi. Sérhver þessara borga er efni í sögu út af fyrir sig, þótt ég meðvitað sneyði hjá því að sinni.
Tæland er draumland bakpokaferðalangsins. Hvort sem maður hangir í bílífinu í Bangkok svo vikum skiptir, eða fer á eyjahopp meðfram ströndinni, þá er staðreyndin sú að hvergi annars staðar í veröldinni er ferðalangurinn að fá jafnmikið af skemmtun og hæfilega öruggum framandleika fyrir peningin. Öll ferðin 5 vikur, frá peking og aftur til peking) kostaði mig innan við 80 þúsund kall, sem er að hluta til peningur sem ég hefði hvort sem er eytt í mat og það að lifa, hvar sem ég bý. Hlægilegt hótelverð í heimshlutanum réð þar mestu (ódýrasta hótelið var á 90 krónur nóttin, algengt verð; 300-500 krónur).
Frá Tælandi fórum við til Kambódíu. Land musterana. Fátækasta land Asíu.
Það var ómissandi hluti af ferðinni. Jaðraði á við að vera átakanleg reynsla á tímabili.
Þaðan fórum við til Víetnam. Eftir skemmtilega dvöl í Sægon (Ho Ching Mih borg) fórum við ekki sunnar. Nafn þessarar greinar vísar í þennan legg ferðarinnar. Heimferðinni.
Á kínverska nýárinu rétt nældum við okkur í síðustu rútumiðanna norður til Hanoi borgar, nyrst í landinu, höfuðborgar Víetnam. Það var rúmlega tveggja daga stanslaust ferðalag í mjög vondum rútum. Það að sitja og sitja og skipta og skipa um rútur, var eitthvað sem komin var viss reynsla á hjá okkur félögunum, frá því í Tælandi og Kambódíu, en þetta var út fyrir allan þjófabálk.
Hanoi er fyrsti viðkomustaðurinn í þriggjasmyrlinga lestarferðinni sem ég svo kalla. Þar liggur í grafhýsi sínu vel málaður og uppstoppaður, kommúnistaleiðtoginn Ho Chi Min.
Frá Hanoi tókum við lest til Peking.
Það er meira en að segja það.
Þriggja daga lestarferð. Býsna margar breiddargráður. Úr hitasvælu niður undir frostmark. Það er alltaf mjög spes að ferðast í lest. Í þessu tilfelli var eitthvað að miðunum okkar. Það olli því að á landamærum Víetnams og Kína, um miðja nótt vorum við vinsamlegast beðnir um að taka saman föggur okkar og okkur hent út.
Eftir langar bollaleggingar við yfirvörðinn í lestinni ákváðu þau að taka vegabréfin okkar og kvittunina fyrir lestarmiðunum gilda og leyfðu okkur að dúsa.
Eftir þetta áfall þorði maður varla úr klefanum sínum, af ótta við það að nýr lestarvörður væri kominn sem myndi svo vilja fá að sjá miða. Þessi hræðsla fékk þó brátt að víkja fyrir meira aðkallandi áhyggjuefni. Við vorum nestislausir að mestu (ég tók reyndar 3 spræt dósir með), og peningarnir okkar voru allt í dongum, en við gátum hvergi skipt í kvæ til að kaupa mat.
Eftir sólarhring stoppaði lestin í borg blómana (sem ég man ekki hvað heitir aftur lengur, þótt ég myndi ábyggilega mætavel ef einhver væri að ræða um hana… æi núna verð ég að gúgla þessu… Kúnming:D). Þar gátum við hoppað út. Við fórum í hraðbanka, fylltum vasa okkar af langþráðum kínverskum gjaldeyri. Það var of snemmt fyrir matsölustaði, en auðvelt að grípa morgunverð hjá morgunverðarsölunum: Baozi bollur fullar af kjöti ,soðið egg og djúpsteiktar kleinur. Það fyllti mig ágætlega. Tókum núðlur með í lestina og ávexti.
Þótt þessi ferð hafi verið löng, og sambærileg við lestarferðalagi þvert yfir evrópu, eða frá Spáni til Svíþjóðar, þá var þetta ekki nema byrjunin á því sem koma skyldi.
Í peking stoppaði lestin á Beijing Xi (Vestur lestarstöðinni). Undur pekingar eru mýmörg og eftir 9 mánuði þar er þó ýmislegt sem ég hef komst aldrei yfir að sjá.
Eitt af því sem á þó heima í þessu yfirliti er Torg hins himneska friðar, beint á móti Forboðnu borginni. Á torginu er nefnilega risastórt grafhýsi reist með grískum hætti, sem hýsir annan smyrlinginn sem verður á leið okkar. Það er auðvitað kommúnistaleiðtoginn dáði og umdeildi, Mao Zedong.
Þrátt fyrir að við hefðum staldrað við í Peking fram á vor, þá var langt því frá að þessi heimför okkar fóstbræðra væri lokið. Ísland er norðar, og norðar skyldum við halda!
Við héldum frá aðallestarstöðinni í Beijing með Síberíuhraðlestinni norður til Mongólsku höfuðborgarinnar Ulaan Baator. Eftir að hafa heimsótt bæði innri mongólíu um haustið og jafnfram verið í bekk með ótal mongólum var fátt þar sem kom á óvart. Við landamærin þurfum við samt að vakna um nóttina og bíða meðan lestarvagnin, sem við vorum í, var á einhverju eilífu brölti. Þegar litið var útum gluggann kom í ljós að við vorum í risa stórri skemmu, og búið var að búta lestina niður í sérhvern vagn sinn, sem dreift var útum allt í skemmunni. Við hliðin á okkar vagn var kominn vagninn sem áður hafði verið við hliðin á okkur. Og í rauðleitri birtunni sá ég elstu konu í heimi stara á okkur djöfullega. Ekki man ég hvort hún hafi verið hvít (rússnesk) eða asísk í útliti, enda á þessum tímapunkti alveg hættur að finnast slíkt eftirtektarverð.
Skyndilega glenntust glyrnurnar á henni upp og allur vagninn okkar fór á fleygi ferð, eins og að risa stór hendi hafi gripið um hann og hent honum upp í loft. Um var að ræða vélhendi, enda verið að skipta um hjólabúnað á vagninum, teinarnir í Rússlandi og Mongólíu eru mjórri en annarstaðar í veröldinni.
Að því loknu fengum við tollverði og vegabréfaeftirlitið og tilheyrandi föruneyti í heimsókn, og ekki í síðasta skiptið í ferðinni.
Mjúklega hélt lestin aftur að stað. Seinna um nóttina vaknaði ég aftur. Úti var niðadimmt en ég var fljótur að aðlaga augun myrkrinu. Við blasti endalausar hvítar auðnir Góbíeyðimerkurinnar. Ég sá það ekki aftur, enda þegar strákarnir vöknuðum um morguninni vorum við komnir í miðjan Birkiskóg. Skógurinn sá er staddur evrasísku tægunni, og er stærsti frumskógur í heimi, teygir sig allt frá Finnlandi í vestri, austur til Mansjúríu og Vladivostok við Japanshaf.
Eftir þetta fóru dagarnir að renna saman.
Það er ekki mikið við að gera í 7 daga lestarferðalagi. Eftir 3 klukkutíma kláraðist batterýið í ferðatölvunni, bara 165 klukkutímar eftir. Það þýðir því ekkert annað en einfaldlega að sofa, lesa, borða rússneska borssúpu frá rússnesku babúskunum í matarvagninum (FISSCHHH segja þær í hvert skipti sem maður kemur og benda á fiskiréttinn í matseðlinum. Nei takk ómögulega, ekki núna.), læra kýrilíska stafrófið með því að bera saman matseðlana, spila póker og sofa aðeins meira. Af og til sjást tré sem líta pínulítið öðruvísi út, eða þá endalausar ryðgaðar kjarnorkuverksmiðjur. Á nokkra þúsund kílómetra fresti sést eitthvað töff eins og Bæjkal vatn (stærsta ferskvatnsstöðuvatn í heimi) eða Úralfjöllin.
Ég hengdi úrið mitt upp í netið sem hékk fyrir ofan rúmið mitt. Í því eru 14 möskvar á þverveginn. Á tólf tíma fresti færði ég úrið um einn möskva til hliðar. Tíminn flýgur þegar maður hefur eitthvað fyrir stafni.
Loks komum við til Moskvu.
Moskva er stórkostleg borg en verður samt alltaf helst minnistæð í mínum huga fyrir að vera labbiborgin mikla. Þrátt fyrir að vera í Moskvu í meira en sólarhring ákvaðum við að kaupa ekki gistiheimili, heldur vaka bara! Vaka = labba. Aldrei stoppa. Sérstaklega eftir að það kemur nótt. Loks hallaði maður höfði um þrjú leitið í portinu fyrir utan lestarstöðina. í heimilisleysingjahrúgu.
Í Moskvu má sjá grafhýsið hjá þriðja og síðasta smyrlingnum í þessari reisu. Það er hinn mjög svo velsmurði kommúnistaleiðtogi Lenín. Það er eitthvað í tengslum við kommúnistaleiðtoga og smurningar greinilega. En hann má eiga það blessaður karlinn hann Lenín, að hann var fyrstu, alfagaurinn, sá sem allir hinir kommúnistaleiðtogarnir reyna að líkjast. Grafhýsið hans var samt bara agnarsmátt, staðsett á hinu pínulitla Rauðatorgi við Kremlarmúra. Miðað við grafhýsi Maós, og Torg hins himneska friðar (stærsta torg í heimi) leið mér eins og á Lækjartorgi.
Ég las í Mogganum um daginn um fólk sem ferðaðist svipaða leið, frá Finnlandi til Beijing. Hann fékk einhvern “svakalegan díl” sem var eitthvað undir 200þúsund krónum fyrir lestarmiðanna. Það staðfestist hér með að við greiddum ekki krónu meira en 19þúsund krónur fyrir okkar lestarmiða, alla leið frá Peking til Moskvu, keypt í túristbjúrói kínversku ríkisstjórnarinnar við Jianguomen neidajie í Peking.
Hann talaði líka um invitationið sem hann þurfti að kaupa frá einhverri rússneskri hótelkeðju til að fá vegabréfsáritunina. Það dugði fyrir okkur að tosa í strengi og segja réttu nöfnin í rússneska sendiráðinu í Beijing til þess að það reddaðist. Reyndar gefa þeir aðilar ekki út áritanir nema maður hafi kínverskt dvalaleyfi.
Þar með er þessari ferðasögu lokið. Ofan á þetta bættist að vísu ferðalag frá Moskvu til Kaupmannahafnar með viðkomu í Þusslaraþorpi í Þýskalandi (12 þúsund krónur),smá 5 daga stopp í Köben og loks ferðalag með IceExpress frá Köben til Keflavíkur (14þúsund).
En maður telur það varla með enda engir smyrlingar á þessum stöðum.