Eftir ferð um suður-Ameríku 2005-2006 (Ekvador, Perú, Bólivía, Chile, Argentína, Urugvæ og Brasilía. nonnidelnorte.blogspot.com) hyggst ég skoða mig um í miðausturlöndum og austur-Afríku í janúar 2007.
Eins og planið er í dag (nokkuð sem gæti og sennilega mun breytast heilmikið þegar líður að brottför) þá eru þetta fimm mánuðir um það helsta sem þetta svæði býður ævintýraþyrstum ferðalöngum uppá.
Ísrael, Jórdanía, Egyptaland, Súdan, Eþíópía, Erítrea, Djíbúti, Kenýa, Úganda, Rwanda, Tanzanía, Zanzibar, Malaví, Mosambík, Madagaskar, Zimbabwe og suður-Afríka.
Ef einhver þekkir til þessara landa og er með ráð varðandi ferðir, viðkomustaði, vegabréfsáritanir eða eitthvað fleira, endilega látið mig vita.
Ég hef ákveðið að fara ekki til suður-Súdan eða Sómalíu þar sem ekki er mælt með því án þess að vera með herfylgd, einnig langar mig ekki til að deyja.
Mögulegt er að ég bæti við þetta Sádi-Arabíu og Sameinuðu Furstadæmunum, langar svolítið að skoða Dubai. Ég sé til með það, fer eftir hvað ég hef mikinn tíma sem er ekki of mikill, aðeins fimm mánuðir.
Ég er byrjaður að stúdera grunninn af arabísku svo maður sé ekki alveg hjálparlaus. Ef einhver er með ráð um það þá væri það einnig vel þegið.