Ég ætlaði að vera löngu búin að þessu en ætla nú loksins að setjast niður að skrifa um Parísarferðina mína í sumar í stuttu máli.
Núh, við lögðum af stað aðfaranótt 4. júlí og vorum komin til Parísar um 5 leytið að staðartíma minnir mig. Við tókum leigubíl frá flugvellinum og keyrðum meðal annars framhjá Louvre safninu á leiðinni í íbúðina okkar sem var á Rue Hérold sem er lítil gata í 1. hverfi. Núh, það var grenjandi rigning og leiðinlegheit þannig við rétt keyptum smá í matinn og lögðum okkur svo til hádegis.
Dagarnir voru flestir fullir og kíktum við mikið á Rue de Rivoli sem er mjög stór verslunargata og í ýmsar hliðargötur þar sem mikið var um goth búðir.. sem við fíluðum í botn, fyrir utan hvað þær voru andskoti dýrar. Jæja, kærastinn minn keypti sér leðurbuxur og fékk þær 50 eða 100 evrum ódýrari því verslunarstjórinn sem ég held að hafi verið vel í glasi átti afmæli.
Það sama kvöld voru stórir tónleikar útí bæ því París var að bjóða sig fram sem Ólympíuborg eða eitthvað þannig en svo varð London fyrir valinu. En mikill fjöldi var þarna og maður sem spilaði á allskonar hljóðfæri og teiknimynd var sýnd á meðan. Þetta var svo skemmtilegt því þetta voru útitónleikar og þarna komu Parísarbúarnir og sátu á grasinu og fylgdust með og hlógu saman að myndinni. Svo fengum við líka glowsticks 
Við skoðuðum Louvre safnið og fórum í svokallaða Da Vinci Code Tour, hún var mjög skemmtileg og við sáum bílinn sem átti að sækja Tom Hanks af Plaza hóteli en sáum ekki stjörnuna sjálfa. Þetta var á Place Vendôme sem er mjög há og mjó súla. Við tókum þónokkurn tíma á Louvre safninu eða heila 5 tíma og þá vorum við varla hálfnuð með safnið. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað þetta var stórt. En það var líka rosalega flott og stútfullt af allskonar flottum styttum og málverkum. Þá sáum við t.d. Madonna of the rocks og Monu Lisu og svo sáum við líka Venus de Milo styttuna. Ég hefði alveg verið til í að eyða nokkrum dögum þarna ef ég bara hefði orkuna. Svo daginn eftir var búið að fylla allt af stórum hvítum bílum fyrir framan safnið sem gaf greinilega til kynna að þarna var verið að taka mynd og það var auðvitað The Da Vinci Code þar sem Tom Hanks leikur aðalhlutverkið.
Eiffel turninn var líka skoðaður og það sem stóð út úr þeirri minningu er trúlega biðin. Við biðum í röð í svona klukkutíma og hálfan til að komast upp á aðra hæð og svo í hálftíma til að komast upp í toppinn. Eiffel turninn er svakalega ofmetinn skal ég segja ykkur en samt mjög fallegur og ég sé ekki eftir að hafa beðið svona lengi því maður fer einfaldlega ekki til Parísar án þess að kíkja uppí turninn sjálfan.
Jæja, Notre Dame, fræga kirkjan var skoðuð og þá blasti einnig við fallega löng röð og þar biðum við í svona þrjú kortér og það í rigningu. En við vorum með regnhlíf. Semsagt, fyrst biðum við til að fara upp í turninn, það var langt labb en útsýnið þar fannst mér fallegra heldur en úr Eiffel turninum. Þá sá maður París svo langt sem augað eygði og auðvitað Eiffel turninn sem stendur mikið upp úr borginni.
En svo blasti við önnur röð til að komast inn í kirkjuna sjálfa en hún gekk nú aðeins hraðar og þá var hætt að rigna. Ég sat bara á bekk á meðan ég lét strákana bíða í röðinni. Það var lúxus. En svo þegar við komum inn í Notre Dame þá varð maður strax orðlaus. Hún er verulega falleg og eiginlega.. ólýsanleg. Það var auðvitað slatti af túristadrasli þarna inni sem skemmdi smá fyrir en samt ekki. Svona sölubás en lítið annað. Við vorum þarna í kringum sex leytið á miðvikudegi minnir mig og þá er einmitt messa. Ójá, við fórum í messu í Notre Dame. Örugglega fallegasta messa sem ég hef farið í. Rómversk/kaþólsk held ég örugglega og messan byrjaði á söng sem kona flutti og hjá altarinu var dreift reykelsi og það var svo fallegt og söngurinn var magnþrunginn. Það kom manni á óvart að þetta hafi verð ókeypis í rauninni.
Meira var skoðað og þá má nefna katakomburnar eða Catacombs. Það er göng langt niðri í jörðinni og það tók töluverðan tíma að labba þangað niður. Þetta eru semsagt göng og meðfram veggjunum eru höfuðkúpur og bein raðaðar mjög þétt og skrautlega. Þetta var mjög sérkennileg reynsla og gaman að skoða þarna, hálf draugalegt og svo voru frönsk ljóð á stórum steinum þarna niðri og þetta var svolítið eins og gamaldags fangelsi því á mörgum stöðum sá maður rimla og þar inni var lítið herbergi. En svo var líka mikið um rimla til að maður villist ekki þarna inni því þetta gæti léttilega orðið völundarhús. Svo man ég svo vel eftir því að þegar við vorum að labba upp aftur var gamall maður á undan mér og honum fannst svo erfitt greyinu að labba upp og hann þurfti oft að hvíla sig. Ég var líka bara fegin að fá smá hvíld en hann átti svo erfitt með þetta, vorkenndi honum svolítið mikið.
Seinasta daginn fórum við í Pére Lanchaise sem er stærsti kirkjugarður í allri París og kannski Frakklandi en þar sáum við einmitt gröfina hans Jim Morrison, Edith Piaf og Oscar Wilde. Gröfin hans Oscars var trúlega sérstökust því hún var öll út í rauðum varalitakossum á legsteininum sem var stórt listaverk með manni sem var eiginlega að fljúga minnir mig, með vængi.
Við fórum í ferðinni á tvö önnur söfn, D’Orsay sem var einu sinni járnbrautarstöð og það má sjá hana þar í myndinni A very long engagement og svo Pompdiou sem er nútímalistasafn og mjög áhugavert.
Ah, svo fórum við líka í klukkutímalanga siglingu um Signu… í rigningu, en það var þak yfir svo þetta var mjög gaman að fróðlegt þar sem það var kona sem talaði næstum allan tímann um staðina sem við sáum.
Ég náði aðeins að spreyta mig á frönskunni en þá var það aðallega “Parlez l’anglais?” (Talarðu ensku?), “bonjour” og “merci beaucoup!”
Svo lentum við heima á Íslandi um kvöldið 10. júlí eftir langan dag þar sem við vorum búin að hanga á flugvellinum í París í 4-5 tíma þar sem flugvélinni okkar seinkaði og það var eitthvað false alarm í sambandi við sprengju, þar sem allir þruftu að fara út af vellinum en máttu svo koma inn aftur eftir 5 mínútur! En þetta var einmitt sú vika þar sem sprenginarnar í London áttu sér stað þannig það var mikið leitað á okkur og í töskunum okkar.
Annars var þetta alveg frábær ferð í alla staði og París er sko borg sem ég á eftir að heimsækja oft í framtíðinni.