Arkímedes heilsar.
Tveir félagar mínir og ég vorum á flakki um Evrópu ekki fyrir all löngu síðan. Síðasti áfangastaður okkar var Búdapest, höfuðborg Ungverjalands. Það er vilji minn að segja ykkur frá svolitlu sem þar gerðist.
Við komum til borgarinnar með lest. Nóttin hafði skollið á og rigningardropar féllu af himnum. Við höfðum eigi pantað gistingu fyrir komuna, og ræddum hvað gera skildi.
Nú og dögum er næði sjaldfengið, það er víst; á augabragði höfðu ungverskir smákrakkar umkringt okkur. Reyndar litu þeir út eins og hobbitar, nema örlítið mannlegri. Foringi þeirra, Fróði, gekk til okkar og spurði „Þurfið þið gistingu?“ eins og félagar mínir og ég, sjálfur Arkímedes, værum almennir ferðalangar! Þvílík hneisa!
En við létum þetta eigi á okkur fá og kinkuðum kolli, en ekki vegna ráðaleysis, heldur vegna þess að ósiðaðir hobbitarnar vöktu einskæra forvitni.
Fróði rétti okkur blaðsnepil sem á stóð
Farfuglaheimilið Garðurinn
Lág verð, en munaður mikill. Hjá okkur er (vín)veitingastaður, dýrðlegur garður og gjaldfrjáls aðgangur að tölvum. Afgreiðslan er opin allan sólarhringinn.
(Við hlið textans var mynd sem sýndi glögglega gæði herbergjanna)
Blaðsnepill þessi var ekki bagalegur, en eins og allir vita er Ungverjum illt að trúa, og vorum við því á varðbergi. Fróði fór með okkur út úr lestarstöðinni og mælti „Við erum reiðubúin til þess að aka ykkur á farfuglaheimilið.“ Hann benti á fararskjótann, hvítan sendibíl. Hvað ætluðu þessir hobbitar sér að gera? Ræna okkur, sjálfum Arkímedesi og vinum hans?
Ráðabrugg hobbitanna misheppnaðist gjörsamlega þar sem bílstjóranum dirfðist ekki að fara eftir fyrirmælum yfirboðara sinna, og við komumst heilir á höldnu á leiðarenda.
Farfuglaheimilið var eins og skíturinn sem sat fastur undir skónum mínum, fimmtán hæða sovéskt ferlíki, nánast að hruni komið. Eftir að hafa skoðað verðlistann vel og vandlega báðum við hobbitann við afgreiðsluborðið vinsamlegast um að afhenda okkur lykla að tveimur tveggja manna gistirýmum, en þau voru samanlegt heldur ódýrari en eitt þriggja manna, en þó dýrari en í flestum þeim ríkjum er við höfðum sótt heim.
Af sökum forvitni spurði ég hobbitann hvar veitingastaðurinn væri. Hann mælti „Hvaða veitingastaður?“ Hvaða veitingastaður! Ég sýndi honum blaðsnepilinn góða, og hann sagði „Já, að sjálfsögðu. Hann opnar ekki fyrr en eftir þrjá mánuði.“ Þrjá mánuði! Því næst spurði ég „Hvernig kemst ég í garðinn ykkar?“ og hobbitinn mælti „Garðinn… hvaða garð?“ Hvaða garður! Félagi minn skarst í leikinn og spurði hobbitann „Hvar eru tölvurnar?“ Hann svaraði „Við höfum engar tölvur hér.“ Engar tölvur! Áhugavert.
En við höfðum engan tíma að missa, enda allir þrír að niðurlotum komnir, og í hvílu er skást hobbita að þola.
Við hefðum getað notað lyftuna, en sökum vantrausts kusum við að ganga upp á sjöundu hæð og feta í fótspor kommúnista sem voru annaðhvort steindauðir eða aldraðir mjög.
Hurðirnar sem stóðu á milli okkar og herbergjanna voru allar stórskemmdar, lásarnir eyðilagðir eins og þeir hefðu verið rifnir upp af ónytjungum með kúbein. Ekki tók betra við er annar félaga minna tveggja tók í handfangið á annarri hurðinni og opnaði. Gistirýmið bar ekki vott af þeim munaði sem myndin á blaðsneplinum sýndi svo ljóslega! Veggirnir voru götóttir og rispaðir, dýnurnar rifnar og rúmfötin óhrein. Uppi í loftinu höfðu hvers kyns kvikindi hreiðrað sig um í kringum ljósið.
Hitt herbergið var eins, en þar neyddist félagi minn til að sóa dýrmætum tíma sínum í að fæla burt bandóðan geitung.
Ég gekk því niður á jarðhæð til að ræða þetta vandamál við hobbitann í afgreiðslunni, en hann var hvergi að sá. Satt að segja var þar ekki eitt einasta kvikindi er menn sjá með augunum einum! Ég fór því til félaga minna og við ákváðum að gista í rýmum okkar og öðlast reynslu.
Annar vinur minn, sá er geitunginn hafði fælt, svaf vært, einn síns liðs inni í öðru herberginu. Hinn vinur minn og ég, Arkímedes, áttum hins vegar erfitt með að festa svefn í hinu herberginu, og fyrir því voru nokkrar ástæður.
Í fyrsta lagi var hitinn óbærilegur, og engu breytti þótt við opnuðum gluggann. Í öðru lagi var hávaðinn úti svo geigvænlegur að hann barst inn í herbergið, og engu breytti þótt við lokuðum blessuðum glugganum. Það kom okkur verulega á óvart að hljóðið skyldi menga svo mikið um miðja nótt, á virkum degi. Í þriðja lagi fannst okkur heldur óþægilegt að sofa beint fyrir neðan loftið, berskjaldaðir fyrir árásum skordýra og annarra kvikinda.
En að lokum tókst okkur að sofna, og opnuðum við ekki augu okkar fyrr en í dögun. Niðri við afgreiðsluborðið var það hlutverk mitt að rökræða við hobbitann í afgreiðslunni og segja honum frá hrottalegum svikum kynþáttar hans. Að lokum gafst hann endanlega upp og borgaði gistinguna úr eigin vasa.
Félagarnir mínir tveir og ég gengum sáttir út úr farfuglaheimilinu Garðinum.
Arkímedes kveður.