Ég ætlaði fyrst bara að svara greininni hérna á undan en þetta er miklu skemmtilegra :)
Þannig er mál með vexti að ég var í sumar og vor að vinna á veitingastað á Playa de Palma, Mallorca.
Staðurinn er vel staðsettur með öll stærstu Íslendingahótelin í kring um sig en annars er þetta eins og margir kannski vita alger Þjóðverjanýlenda.
Kúnnahópurinn skiptist mest á milli Hollendinga og Þjóðverja en fólk frá Skandinavíu skipar restina ásamt einstaka Spánverjum og Ítölum.
Hollendingar eru ágætis kúnnar. Sumir héldu að ég væri hollensk (ljósa hárið) og urðu fúlir þegar ég talaði ekki Hollensku við þá en aðrir voru bara ósköp næs. Hollendingar vilja spjalla mikið við þjónana um hin ýmsu mál og einn gerðist svo “kammó” að hann fór að spyrja mig út í hollenska fótboltann og hvort ég hefði séð einhvern leikmann með einhverju liði spila. Hann varð hálf móðgaður þegar ég kurteislega tilkynnti að ég bara hreinlega fylgdist ekki með hollenska fótboltanum.
Þeir eru líka góðir tipsarar.
Þjóðverjar eru soldið erfiðir. Þeir vilja helst bara tala þýsku og borða þýskan mat. Margir urðu móðgaðir ef ég talaði ekki alveg fullkomna þýsku sem fór í taugarnar á mér því ég tala alveg góða þýsku og þeir vissu að ég var ekki þýsk!
Þeir verða líka mjög pirraðir ef allt er ekki akkúrat eins og þeir vilja hafa það. Þeir vilja líka alltaf skipta reikningnum hver fyrir sig. Jafnvel kærustupör borga í sitthvoru lagi.
Þeir tipsa mjög illa ef þeir tipsa.
Danir, Norðmenn og Svíar eru yndislegir upp til hópa og tipsa mjög vel. Þeir panta alltaf gott vín og spyrja hvort ég sé frá þeirra landi. Mjög skemmtilegt.
Spánverjarnir eru leiðinlegir því þeir eru á móti manni fyrir að tala ekki þeirra tungu í þeirra heimalandi (hljómar kunnuglega) og þeir koma alltaf rosalega seint og borða marga rétti ofboðslega hægt. Þeir tipsa ekki.
Ítalirnir þýða bara trouble því þeir tala yfirleitt bara ítölsku, sem enginn skilur, og skapa allskonar vandræði.
Og svo eru það blessaðir Íslendingarnir. Á stað eins og þessum koma oft stórar fjölskyldur saman með fullt af börnum. Það var ekki vandamál fyrir okkur þar sem staðurinn er fjölskylduvænn.
En … Íslendingar eru kannski betri í ensku en margar þjóðir en þeir urðu svo fegnir að geta talað íslensku því þá gátu þeir loksins útskýrt allar sérþarfirnar sínar. Það þarf að vera svona sósa með þessu og svona kartafla með hinu og kjötið þarf að snúa svona og þessi skammtur á að vera á þessum disk o.s.frv. Ég var eini þjónnin sem talaði Íslensku og sá eini sem lenti í þessu. Hinum þjónunum fannst Íslendingar vera áberandi fúlir og dónalegir og orðið “sveitamenn” kom oft upp. Þeim fannst þeir líka oft hrokafullir og skildu ekki hvers vegna þeir voru með allar þessar sérþarfir og hvers vegna þeir þurftu alltaf að breyta borðunum. Enda var ég yfirleitt send á íslensku borðin.
Íslendingar tipsa samt yfirleitt mjög vel og það gerir þá vinsæla á þessum slóðum.
En það var mjög athyglisvert að sjá hvernig við erum í samanburði við aðrar þjóðir og ég komst að því að við erum kannski ekki alltaf jafn æðisleg og við viljum halda ;)