Ég ákvað að fara í smá hjólreiðatúr um páskana í fyrra á reiðhjólinu mínu. Ráðgerði að hjóla frá Akureyri í Fljótin og gista þar.
Ég útbjó hjólið og setti nauðsynlegan fatnað og vatn í bakpoka og lagði af stað. Ég hjólaði til Dalvíkur og stoppaði svo í einn-tvo klukkutíma á bænum Hóli norðan við Dalvík. Síðan hjólaði ég til Ólafsfjarðar um göngin, því ég hafði farið ólafsfjarðarmúla áður og nennti ekki núna. Fór beint í gegnum Ólafsfjarðarbæ og svo upp á Lágheiðina. Það var erfiðasti kafli þessarar ferðar, var í lægsta gír allar brekkurnar, endalausar blindhæðir og lausamöl. Þegar upp á heiðina var komið hjólaði ég framhjá nokkrum vélsleðamönnum. Leiðina niður af Lágheiðinni var fjör, langar brekkur og gott að hafa bremsur í lagi. SVo hjólaði ég framhjá Ketilási og í gegnum Brúnastaði og stoppaði svo á Lambanes-Reykjum en þar fékk ég að gista í sumarbústað hjá Vinafólki mínu.
Daginn eftir komu verstu strengir sem ég hef nokkru sinni fengið. Ég ákvað að Teygja ferðalagið aðeins betur og breytti ferðaplaninu, ætlaði mér nú að fara Tröllaskagahring. Ég hjólaði aftur að Ketilás og beygði þar til hægri og stefndi á Sauðárkrók. Inn allan Skagafjörð mætti mér sterkur mótvindur. Þetta var leiðinlegasti kafli ferðarinnar. Ég beygði svo yfir fjörðinn og á Sauðárkrók þar sem ég gisti hjá vinafólki mínu.
Þriðja daginn hjólaði ég í Varmahlíð, tók stutt stopp þar og svo sem leið lá að Öxnadalsheiði og upp á hana. Stoppaði aðeins við Sesseljubúð og brunaði svo niður af heiðinni. Frá Öxnadalsheiði og að þelamörk gat ég verið á góðri siglingu, aðeins meðbyr og gott veður. Kom svo heim á Akureyri þreyttur og ánægður með vel heppnaða ferð.
Vegalengdir:
Akureyri - Dalvík: 44 km
Dalvík - Ólafsfjörður: 18 km
Ólafsfjörður - Ketilás: 38 km
Ketilás - L.Reykir - Ketilás: 7 km
Ketilás - Sauðárkrókur: 71 km
Sauðárkrókur - Akureyri: 119 km
Samtals: 297 km
Upplýsingar um vegalengdir fengnar af http://www.vegagerdin.is/vefur2.nsf/pages/vv_vegalengdi r.html