Fyrrverandi bekkjarsystur mínar fóru síðasta sumar til Costa del Sol á Spáni. Þær voru
þar í tæplega 2 vikur minnir mig. Það er í sjálfu sér allt í lagi, en það er eitt við þessa ferð
þeirra sem mér finnst einkenna ferðalög margra Íslendinga, og þetta er sorglegt. Málið er
að þær voru þarna á sama staðnum allan tímann! Þær fóru hvergi, ekki til Barcelona, ekki
til Madrid, ekki til Marokkó. Fóru bara ekki neitt, nema niður á strönd. Við gætum talað
um ferðalagið þeirra sem mengið F = { hótel, strönd, djamm }. Þetta var þeirra ferðalag.
En þetta kalla ég ekki ferðalag! Gellur þessar (trúið mér, þær eru ekkert smá flottar) voru
í fyrra 18 ára, jafn gamlar og ég er núna. Við á þessum aldri erum á besta aldri, hraust og
höfum orkuna til þess að ferðast af alvöru! Þegar ég tala um „af alvöru“ þá meina ég þetta:
Að ferðast til lands, vera þar í kannski eina viku eða tvær, og skoða það almennilega.
Hanga ekki á sama staðnum alla ferðina og sóa ekki öllum tímanum í djömm eða sólböð.
Byrja frekar á einum áhugaverðum stað og ferðast um landið uns maður hefur skoðað allt
það helsta sem landið hefur upp á að bjóða (eða a.m.k. margt af því).
Við vinirnir ætlum að fara til landa í suð-austanverðri Evrópu í sumar, og við ætlum sko
að ferðast af alvöru! 2 vikur, 2 lönd, +5 borgir! Ekkert „fancy“ hótel rugl, heldur aðeins
ódýrar íbúðir og farfuglaheimili. Hver með sinn bakpoka og ekkert vesen. Þannig finnst
mér að allir ættu að ferðast, á meðan þeir hafa orkuna í það.
Önnur hliðin á þessu er kostnaðurinn. Sumir kynnu að halda að þessi ferð okkar sé bara
þvílíkt dýr og bara á færi einhverra ríkra og ofdekraðra krakkadjöfla. En þannig er það
nefnilega ekki. Ef maður tekur Iceland Express til Lundúna og flýgur með RyanAir eða
öðru lággjaldaflugfélagi kostar ferðin ekki baun í bala! Hjá okkur verður flugið + gistingin
í þessar tvær vikur 50 þúsund í mesta lagi! Það er ekki neitt eftir að maður hefur gluggað
í sumarbækling Heimsferða. Hjá þeim kostar allur pakkinn 80 þúsund krónur! Það sem
maður fær er 4 stjörnu hótel (bara gamalt fólk sem þarf svoleiðis) og íslenska farastjórn, en
hótelið er bara á einum stað, e-u túristabæli. Við fáum hins vegar að sjá allt landið á miklu
ódýrara verði.
Alvöru ferðalag, alvöru ævintýri!