Hvalaskoðun
Hvalaskoðun - Upphaf hvalaskoðunarferða á Íslandi -
Til að átta okkur á upphafi hvalaskoðunarferða er gott að hafa í huga að árið 1985 voru hvalveiðar í atvinnuskyni bannaðar af Alþjóðahvalveiðiráðinu en vísindaveiðar á langreyð og sandreyð leyfðar á sumrunum 1986 til 1989. Hrefnuveiðar sem stundaðar höfðu verið með hléum frá 1914 lögðust af árið 1984. Hvalveiðibannið átti upphaflega að standa í fjögur ár en stendur enn. Andstæðingar hvalveiða, bentu á að hægt væri að hafa tekjur af því að skoða hvali í stað þess að veiða þá.
Upphaf hvalaskoðunarferða frá Hornafirði má rekja til Nýheima tuttugustu aldarinnar, kaffistofunnar í Hafnarbúðinni þar sem Tryggvi Árnason réð ríkjum um miðjan níunda ártuginn. Gefum Tryggva orðið:
„Trillukarlarnir og humarsjómennirnir voru stundum að segja frá hvölum sem þeir voru að rekast á fyrir utan Hornafjörð og við Ingólfshöfða. Ein sagan var sérlega áhugaverð. Mig minnir að það hafi verið Torfi Friðfinns eða Frissi, Friðrik Snorrason, sem var að veiða á trillu fyrir utan Jökulsárlónið eða Ingólfshöfða. Kemur þá stór hnúfubakur syndandi að bátnum og fer að leika sér við hann. Mikil hræðsla greip um sig hjá karlinum og setti hann í gang og sigldi á fullri ferð í burtu. Hvalurinn elti hann og varð úr nokkur eltingarleikur. Það endaði með því að karlinn sigldi í land. Í framhaldi af þessu fór ég að hugsa um hvort ekki væri hægt að bjóða upp á hvalaskoðunarferðir fyrir ferðamenn til að auka starfsemi Jöklaferða.”
Það er ekki auðvelt að vera frumherji og koma nýrri vöru á markað þótt við Íslendingar teljum okkur vera nýjungagjarna þjóð. Hvernig tóku menn þessum nýja markhóp? Tryggvi svarar því svona:
„Fór ég að nefna þetta við ferðaskrifstofur og ferðaþjónustuaðila. Áhuginn var ekki mikill hjá þeim þar sem það passaði ekki inn í hringferðirnar. Einhvernveginn hafði þessi hugmynd samt komist í erlenda ferðabæklinga þar sem sagt var frá því að Jöklaferðir væru með hvalaskoðunarferðir frá Höfn.”
Þegar vara er komin í ferðabæklinga sem dreifast út um allan heim má búast við fyrirspurnum. Alltaf eru til einstaklingar sem ferðast á eigin vegum og hafa áhuga á að prófa eitthvað nýtt. Á árinu 1990 komu nokkrir ferðamenn og vísuðu í ferðabæklingana. Því voru leigðar trillur tvisvar eða þrisvar og fóru þær með tvo til fjóra farþega. Árið eftir kom pöntun frá erlendri ferðaskrifstofu fyrir 20 manna spánskan hóp og fór Lúlli, Lúðvík Jónsson, á gömlu Æskunni í ferðina. Um haustið voru farnar tvær eða þrjár ferðir með hvataferðahópa og var þá boðið upp á sjóstangarveiði í ferðunum.
Eftir þetta fór Tryggvi að spá í alvöru að hefja hvalaskoðunarferðir. Hann útbjó skýrslublöð og lét eigendur fiskibátanna hafa til útfyllingar en þar átti að skrá dagsetningar, hvar verið var að veiðum, hvort sæist til hvala, hvaða tegund, hve margir, veðurfar o.fl. Þessi skýrslugerð stóð yfir í um 18 mánuði og fékk hann til baka möppur frá átta bátum með gagnlegum upplýsingum. Þetta var gert í samráði við Hafrannsóknastofnunina.
En hvernig var staðið að markaðsstarfinu hjá Jöklaferðum eftir að gagnasöfnun lauk og útlit fyrir að grundvöllur væri fyrir nýjung í ferðaþjónustunni. Gefum Tryggva aftur orðið:
„Á þessum tíma var ég í góðu sambandi við Clive Stacey hjá bresku ferðskrifsofunni Arctic Experience og hafði sagt honum frá þessum hugmyndum. Hófst hann þegar handa um að setja upp ferðir til Íslands með hvalaskoðun sem aðalmarkmið, ásamt því að fara á jökul.
Setti hann fyrst upp ferð í nafni Arctic Experience og var heldur dræm sala en síðan
fór hann í samstarf við dýraverndunarsamtökin World Wildlife Found sem vinnur að brýnni verndun villidýra og lands eða hafsvæða um alla veröld. Sett var upp ferð sem sló í gegn. Vandinn hjá mér fólst í því að ekki var hægt að fá báta nema á haustin að lokinni humarvertíð og áður en síldarvertíðin hófst.”
Skortur á bátaflota hjá Jöklaferðum var því orsök fyrir því að ekki var hægt að taka við hópum fyrr en síðari hluta sumars. Kosturinn við það var að hægt var að lengja ferðatímabilið en ókosturinn að besti tíminn var ekki nýttur. Markaðurinn var hins vegar fyrir hendi. Taflan hér fyrir neðan sýnir vöxtinn í hvalaskoðun á Íslandi.
Ár Staðir Fyrirtæki Farþegar
1990 1 1 6
1991 1 1 100
1992 0 0 0
1993 1 1 150
1994 3 4 200
1995 6 8 2,200
1996 8 9 9,700
1997 10 13 20, 540
1998 8 12 30,330
1999 7 10 35,250
2000 9 12 44,0 00
2001 10 12 60,550
2002 10 12
Source: Björgvinsson, 1999; Hoyt, 1994b; Hoyt, 1995a; Gögn í fórum höfundar.
Sumir hvalveiðimenn hafa dregið þessar tölur í efa og eins tekjur sem myndast hafa en Ásbjörn Björgvinsson hefur fært rök fyrir því að tekjur árið 2000 hafi verð rúmur milljarður. Því ættu tekjur árið 2001 að vera einn og hálfur milljarður. Eftir að hafa skoðað gögn frá Ferðamálaráði úr nýrri ferðakönnun þá er ég sannfærður um að talan 60.000 er nærri lagi en 36% erlendra ferðamanna fóru í hvalaskoðun í júní, júlí og ágúst 2002. Rannsaka þarf tekjurnar betur. Ásbjörn hefur hvatt ferðamálayfirvöld til þess en einhver tregða er þar í gangi.
Á vormánuðum 1995 var haldið námskeið í Keflavík á vegum W.D.C.S. sem eru umhverfissamtök í Bretlandi. Enskir sérfræðingar í hvalaskoðunarferðamennsku, Mark Carwardine, Alison Smith og Erich Hoyt, komu þar fram með hugmyndir sem ruddu brautina fyrir hvalaskoðunarferðir á Íslandi.
Framhaldið hjá Jöklaferðum var svo á þá leið að þegar nýja Æskan kom um sumarið 1991 datt hún úr skaftinu og því var leitað til Braga Bjarnasonar. Síðan kom Sigurður Ólafsson SF-44 inn í spilið 1993 og var í þessum ferðum til 1996 að eigendurnir vildu ekki halda áfram. Árið eftir var tekinn á leigu bátur úr Reykjavík, en eftir það gáfust Jöklaferðir upp þar sem enginn fékkst í þetta á staðnum. Í töflunni árið 1998 lækkar fjöldi fyrirtækja úr 13 í 12 og er mismunurinn Jöklaferðir.
Hvalaskoðunarferðir eru stundaðar frá fleiri stöðum en Íslandi. Þær voru stundaðar í 87 löndum árið 1998, fjöldi farþega 9 milljónir frá 492 stöðum og var veltan áætluð um 80 milljarðar króna.
Að lokum er hér listi yfir fyrirtæki í hvalaskoðun 2002.
Norðursigling, Húsavík, www.nordursigling.is
Hvalaferðir, Húsavík, www.hvalaferdir.is
Ferðaþjónustan Áki, Breiðdalsvík
Víking bátaferðir, Vestmannaeyjum, www.boattours.is
Elding, Hafnarfirði, www.islandia.is/elding
Höfrunga- og hvalaskoðun, Reykjanesbæ, www.arctic.ic/itn/whale
Hvalastöðin, Reykjavík/Reykjanesbæ, www.whalewatching.is
Húni, Hafnarfirði, www.islandia.is/huni
Bátsferðir Arnarstapa/Snjófell, Snæfellsnesi, http://www.snjofell.is
Sæferðir, Stykkishólmi/Ólafsvík, www.saeferdir.is
Sjóferðir, Dalvík, www.isholf.is/sjoferdir/
Níels Jónsson, Hauganesi, www.niels.is
Hvalaminjasafnið, Húsavík, www.icewhale.is