KANADA
VANCOUVER
Vancouver er stór borg í suðvesturhorni Brezku Kólumbíu í Kanada. Hún stendur milli Burrardvíkur, sem gengur inn úr Georgíusundi, í norðri og ósa Fraserárinnar í suðri og andspænis Vancouvereyju. Skammt er til landamæra BNA (Washingtonríkis) ís suðri. Lega borgarinnar er einstaklega fögur milli fjalls og fjöru og höfnin er meðal beztu náttúruhafna landsins.
Rætur Vancouver liggja í byggð, sem myndaðist í kringum sögunarmyllur á áttunda tugi 19. aldar. Borgarréttindi fengust 1886, þegar fyrsta járnbrautin þvert yfir Kanada náði þangað (Canadian Pacific), og bærinn var þá endurskírður í höfuðið á George Vancouver, sjóliðsforingja í konunglega sjóhernum, sem kynnti sér strandlengjuna 1792. Árið 1886 eyddist bærinn næstum alveg í eldi en náði sér á strik. Mikilvægi borgarinnar óx enn, þegar Panamaskurðurinn var opnaður 1915. Þá varð arðbært að selja kornvöru og timbur til landa á austurströnd Ameríku og Evrópu. Í kringum 1930 var Vancouver orðin þriðja stærsta borg landsins og aðalhafnarborgin við Kyrrahafið.
Nú er borgin aðalmiðstöð iðnaðar, samgangna, viðskipta og fjármála Brezku Kólumbíu. Höfnin er íslaus á veturna og er fær stærstu skipum. Alþjóðaflugvöllurinn þjónar borginni, austurhluta fylkisins og Seattle í BNA (Washingtonfylki), sem er 200 km sunnar. Timburvinnsla, byggð á miklum skógum í bakgarði borgarinnar, er meðal aðalatvinnuvega borgarinnar. Mikið er framleitt af borðviði og pappír og orkan til vinnslunnar fæst frá vatnsorkuverunum í norðri og úr olíu og gasi frá Alberta (sjá Calgary, Edmonton). Matvælaiðnaður, fiskveiðar og vinnsla, skipasmíðar, málmvinnsla, prentun og útgáfustarfsemi eru líka veigamiklar iðngreinar.
Yfirbragð borgarinnar er blanda af brezkum og austurlenzkum áhrifum. Þar er kínahverfi, sem nálgast sams konar hverfi í San Francisco að stærð og útliti. Gamla borgarmiðjan, sem er kölluð Gastown (1880), hefur smám saman verið endurbyggð. Viðskiptahverfið er uppi af höfninni meðfram Burrardvíkinni og False Creek Large, sem er íbúðahverfi í fallegu landslagi, teygist suður og austur meðfram ósum Fraserárinnar. Þar eru líka borgarhlutarnir New Westminster, Port Moody og Port Coquitlam. Norðan Burrardvíkur eru íbúðarúthverfi Norður- og Vestur-Vancouver, sem teygja sig að undirhlíðum allt að 1500 m hárra fjalla. Þessi hverfi tengjast borginni um brýrnar Lions Gate og Second Narrows. Meðal menntastofnana borgarinnar eru Háskóli Brezku Kólumbíu (1908) með áhugaverðu mannfræðisafni, Simon Fraser háskólinn (1963), H. R. MacMillan stjörnuathugunarstöðin, Aldar- og sjóminjasöfnin, Listasafn Vancouver (1931) og Brezku Kólumbíu leikvangurinn. Stanley almenningsgarðurinn með trjásafni, sædýrasafni og dýragarði nær yfir 406 ha svæði á tanga í miðborginni við hafnarmynnið. Áætlaður íbúafjöldi Stór-Vancouver 1991 var 1.602502.
Why you kick my dog.